LANDINN UM LAND ALLT
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 12/13.09.20.
Fjölskylda með ung börn fer hringinn. Gistir hér og gistir þar, ekið inn í bæi og þorp, sveitir þræddar, firðir, fjöll og fossar skoðaðir, söfnin heimsótt; rætt um mannlífið í þaula. Í stuttu máli: Íslands notið í botn. Þannig var sumarfrí þorra landsmanna að þessu sinni af ástæðum sem við öll þekkjum.
Breiðafjarðarferjan leggst að bryggju á Brjánslæk. “Hér fæddust þríburar, þeir einu á Vestjörðum,” kvað tíu ára stúlka upp úr með og hingað kom Hrafna-Flóki. “Hvernig veistu það?” “Ég sá það í þættinum Um land allt. Og enn átti hún eftir að uppfræða fjölskylduna, til dæmis um byggðaþróun í Árneshreppi. Þar gat hún vísað í fleiri en einn þátt Landans um það byggðarlag, löngun fólks til að búa á Ströndum, en að skilyrði væru erfið. Og hver skyldu þau hafa verið þessi erfiðu skilyrði? “Úti á landi tala allir um að það þurfi að hafa góða skóla,” sagði sú stutta “og þar vill fólkið fá að veiða heiman frá sér.”
Þetta er nú næsti bær við að segja “kvótann heim”, hugsaði afinn þegar hann hlýddi á ferðafrásagnir yngstu kynslóðarinnar frá nýliðnu sumri.
Foreldra heyrði hann segja að á ferðalögum fjölskyldna þeirra um landið hafi hvergi verið komið að tómum kofunum hjá börnunum, þau hafi verið hreint ótrúlega fróð um líf og lífshætti, söfn og menningarlíf og lífsbaráttuna almennt. Hinum fullorðnu stundum engir eftirbátar. Þetta megi þakka sjónvarpsstöðvunum, Ríkissjónvarpinu með Landann sinn og Stöð 2 með Um land allt.
Þaðan mátti vita hvernig var að fara með börnin sín í túristalausa Reynisfjöru fyrir einhverjum áratugum og síðan vinsælast af öllu vinsælu, og nú úr öðru landshorni, hvernig megi með hugkvæmni vinna gómsæta rétti og bragðbætiefni úr lífríkinu við sjávarkambinn. Tvær ungar stúlkur, sem afinn þekkir, eru búnar að skoða þann þátt mörgum sinnum til að dást að hugkvæmninni við nýstárlega matargerðina. Tréskurðarkonan Sigga á Grund í Flóa var einnig í miklu uppáhaldi. Og margt, margt fleira.
Afinn spurði hve marga af þessum þáttum börnin hefðu séð. “Alla og suma oft,” var svarað að bragði.
Hver er þá lærdómurinn? Hann er sá að fjölmiðlar geta gert tvennt í senn: Í fyrsta lagi séð okkur fyrir fróðlegu og skemmtilegu efni og í öðru lagi skapað uppvaxandi kynslóð örvandi umgjörð til að alast upp við.
Sú umgjörð gæti verið öðruvísi og er það allt of oft: “Hver skaut hvern, og hver stal hverju?” Þetta stef aftur og aftur, dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár og áratugum saman, þá er komið nokkuð sem kalla má menningu samtímans. Flestir eru því sammála að ekki sé þetta gott fóður að gefa á garðann til manneldis, hvað þá til uppeldis vaxandi kynslóðum. Samt höfum við haft þetta svona: “Ríkissjónvarpið varar við því að eftirfarandi mynd er ekki við hæfi barna.” En við hæfi hverra?
Ekki er ég frá því að heldur hafi þetta verið að lagast hin síðari ár, lát gott á vita. Og síðan skal það ekki tekið frá listamönnum okkar, mörgum hverjum á heimsmælikvarða, að þeir eru að sjálfsögðu líka menning samtímans. Það er okkar, sem hvorki syngjum né sýnum listir á heimsmælikvarða og kunnum ekki að skera út, að veita þessu listafólki aðgang að fjölmiðlum í eins ríkum mæli og verða má – öllum til gleði og hagsbóta.
Þegar ný sjónvarpsstöð kom til sögunnar í Danmörku á tíunda áratug síðustu aldar var um það rætt að hafa fréttir á sama tíma á báðum stöðvum. Þannig væri tryggt að þjóðin öll sæi fréttir. Þetta kom eining til umræðu hér þegar Rás 2 Hljóðvarpsins var stofnuð, hvort ætti að hafa sameiginlega fréttatíma á rásunum tveimur. Var í því sambandi sem víti til varnaðar bent á BBC sem rak fjórar rásir. Radio 1 fyrir léttmetið, Radio 2 með hálflétt efni en Radio 3 og 4 á dýptina. Fréttatímar voru ekki sameiginlegir. Ég minnist þess að þegar Sex daga stríðið hófst fyrir botni Miðjarðarhafs henti það á sama degi að unglingagengi barði asna í Brighton á Suður-Englandi. Hlustendur Radio 3 og 4 fengu að heyra um heimsviðburðinn en hlustendur Radio 1 fengu bara asnafréttir. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir ösnum og andstyggð á dýraníði.
Er ég þá að biðja um að Landinn og Um land allt verði gert að skylduefni á öllum sjónvarpsrásum og helst sýnt þar á sama tíma? Nei, ég er að segja frá því sem vel er gert og að gjarnan megi vekja athygli, og þar með áhuga ungviðisins, á því að fleira er áhugavert en maður drepur mann.