Landsbankinn og Raufarhöfn
Sæll Ögmundur.
Við erum strax farin að sjá hvað einkavæðing bankanna þýðir í raun. Raufarhafnarhreppi sem er sveitarfélag í fjárhagsvanda hefur verið neitað um almennt lán til hafnarframkvæmda hjá Landsbanka Íslands sem hefur verið viðskiptabanki sveitarfélagsins öðruvísi en í formi yfirdráttar á okurvöxtum. Sparisjóði Þórshafnar hefur tekist að bjóða lán til framkvæmdanna á mun hagstæðari vöxtum. Þarna er um að ræða fjármálastofnun í heimabyggð. Þarna er að koma fram það sem þú hefur verið að vara við að einkavæddir bankar telja sig ekki hafa neinar skyldur gagnvart viðskiptamönnum sínum.Við þessar aðstæður hefur þú bent á mikilvægi þess að efla sparisjóðakerfið í sínu upprunalega formi. Öllum er ljóst að hafnarframkvæmdir á Raufarhöfn eru arðsöm framkvæmd en þjónar bara ekki viðskiptalegum hagsmunum eigenda bankanna. Við erum að sigla inn í nýja tíma meiri misskiptingar og hokurs á landsbyggðinni. Á meðan er ríkisstjórnin og nokkrir fjárglæframenn að ráðskast með viðskipta og fjármálakerfi þjóðarinnar. Ástæða er til að reka þetta ógæfufólk út og hefja til vegs og virðingar önnur og göfugri gildi. Þjóðin þarf á því að halda að viðhorf þín fái aukið vægi þá á ég við raunverulegt frelsi, jafnrétti og bræðralag allra manna.
Bjarni
Komdu sæll Bjarni.
Ég þakka þér fyrir góða hvatningu og ágætar ábendingar. Það er vissulega óvenjuleg nálgun að tala um stórkapítalistana sem "ógæfufólk" en þó get ég alveg játað að mér finnst það ekki vera skemmtilegt hlutskipti að verða þess valdandi að þjóðin skuli svipt eignum sínum. Að vísu eru aðrir gerendur í því máli sem þurfa að axla meiri siðferðilega ábyrgð og það er að sjálfsöfgðu ríkisstjórn þeirra sjálfstæðis- og framsóknarmanna. Kveðja,Ögmundur