LANDSDÓMSBÓK HANNESAR OG DÓMSORÐ ÚR ÓLÍKUM ÁTTUM
Mánudaginn sextánda janúar síðastliðinn var haldinn opinn fundur á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands þar sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ kynnti bók sína, Landsdómsmálið – Stjórnmálarefjar og lagaklækir. Eins og heiti bókarinnar ber með sér fjallar hún um Landsdómsmálið svokallaða, það er málshöfðun Alþingis á hendur Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra fyrir Landsdómi, um meinta saknæma aðkomu hans á árinu 2008 að bankahruninu.
Ég var einn af þeim sem upphaflega studdu þessa málshöfðun en komst síðar að þeirri niðurstöðu að það bæri að afturkalla hana enda hefðum við sem að þessu stóðum, beint og óbeint, gert rangt eins og ég komst að orði í blaðagreinum á sínum tíma. Ég var fenginn til þess að segja álit mitt á bók Hannesar á þessum fundi í Háskóla Íslands og fer hér á eftir framsaga mín. Hún var að mestu leyti samhljóða eftirfarandi texta en þó ber að hafa í huga að ég studdist við textann en las hann ekki frá orði til orðs þannig að orð og texti fara ekki að öllu leyti saman en að mestu leyti þó.
Í stuttu máli þá varð mín niðurstaða sú er upp var staðið að málshöfðun á hendur forsætisráðherranum fyrrverandi hefði verið röng en hins vegar hefði sú stefna sem hann framfylgdi, svo og forverar hans og samherjar, átt mikla sök á því að fór sem fór. Sú sök var pólitísk og studdist vel að merkja við meirihluta þjóðarinnar sem klappaði þessi stjórnmálaöfl upp hvað eftir annað í kosningum. Þess vegna leit ég svo á að það væri á þeim vettvangi, hinum pólitíska, sem ætti að gera þessi mál upp, í kosningum en ekki fyrir dómstólum, einfaldlega vegna þess að ekkert misjafnt vakti fyrir stjórnendum landsins þegar þeir stóðu frammi fyrir stórfelldu efnahagshruni á árinu 2008. Þvert á móti vildu þeir vel en höfðu lengi vel í aðdragandanum verið blindaðir af pólitískum kreddum.
Hvað varðar Landsdómsmálið velkist ég ekki í minnsta vafa um að aðförin að Geir H. Haarde hafi verið fráleit, að ekki sé minnst á aðkomu Mannréttindadómstóls Evrópu. Þótt Geir hafi á endanum verið sýknaður í öllum höfuðdráttum þá breytir það engu um þá niðurstöðu mína sem er á sömu nótum og HHG að ranglátt hafi verið að draga GHH fyrir Landsdóm. Atkvæðagreiðslan á Alþingi er svo kapítuli út af fyrir sig, en í henni var ákveðið að ákæra forsætisráðherra einan en ekki fjóra ráðherra eins og lagt hafði verið upp með. Þótti mörgum, þar á meðal formanni þingmannanefndarinnar sem hafði málið með höndum, það taka eðlisbreytingu við þetta. Fyrir því mati eru góð rök. Sjálfum þykir mér engu að síður það hafa verið rangt að draga ráðherra yfirleitt fyrir Landsdóm vegna þessa máls og á það við hvort sem þeir voru fjórir eða einn.
Ég hef verið starfandi stjórnmálamaður og þótt Hannes Hólmsteinn hafi verið starfandi sem kennari og fræðimaður í háskóla þá hefur hann einnig tekið mjög virkan og afgerandi þátt í stjórnmálum.
Þegar kemur að pólitíkinni og hinni pólitísku sök í Landsdómsmálinu tala því tveir stjórnamálamenn, HHG og ÖJ, sem kveða upp sitt pólitíska dómsorð með mjög mismunandi hætti, samanber það sem vikið er að í eftirfarandi framsögu minni á fundinum:
Verðugt viðfangsefni
Fyrst ber þess að geta að Landsdómsmálið er verðugt viðfangsefni að rýna í því það er stórmál í margvíslegum skilningi:
a) að sjálfsögðu fyrir þá sem málið beindist að,
b) fyrir stjórnmálin almennt því það teygði anga sína inn í nánast allt stjórnmálalífið og olli deilum, sums staðar illvígum, ekki bara innanlands heldur líka utanlands, var tekið upp á þingi Evrópuráðsins og rætt víðar …
c) Deilur um Landsdómsmálið teygðu sig inn í réttarkerfið svo að hrikti í því, að sjálfsögðu fyrst og fremst hér innanlands en á endanum kom það til skoðunar hjá Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg og varð umfjöllun hans ekki óumdeild.
d) Þá reyndi málið á þolrif þjóðarinnar enda snerist það um efnahagshrunið, bankahrunið myndi HHG segja því íslenskur efnahagur hafi ekki hrunið og kallar hann Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til vitnis um það í bók sinni, nefnilega að íslenska ríkið hafi ekki tapað heldur grætt á hruninu! Eða svo vitnað sé beint í bókina bls 108: Þegar upp er staðið tapaði ríkið ekki neinu á bankahruninu, þótt ótrúlegt megi virðast, heldur græddi. Það eignaðist hina nýju banka, sem stofnaðir voru á rústum gömlu bankanna og reyndust miklu traustari en talið hafði verið í fyrstu.
Þessi framsetning er náttúrlega afskaplega þröng eins og reyndar stundum áður úr þessari átt, það er að horfa ekki víðar en í bókhaldið og gleyma þá að við erum annað og meira en debet og kredit heldur samfélag, og að í tilviki efnahagshrunsins, misstu margir heimili sín, störfin sín og hlutar velferðarkerfisins báru ekki sitt barr af völdum hrunsins í langan tíma. Þess vegna voru tilfinningar aldrei fjarri þessum málum og fléttast þær saman við Landsdómsmálið á öllum stigum þess.
Að öllu þessu sögðu má ljóst vera að Landsdómsmálið var mörgum óþægilegt og sumum, grunar mig, svo óþægilegt að helst vilja þeir að þetta stórmál verði sem fyrst að smámáli og gleymist helst alveg.
Það má hins vegar ekki gerast. Því margt er að læra af þessu máli um veikleika og styrkleika stjórnmálanna, réttarkerfisins, fjölmiðlanna og viðbragða í samfélaginu almennt við erfiðleikum.
Mikilvægt framlag
Þess vegna er þakkarvert að fá þessa bók. Hún er yfirgripsmikil, enda byggir hún á margra ára vinnu; að baki textanum liggja miklar heimildir, sumar að vísu óljósar, vísað í ótilgreindan heimildarmann eða heimildarmenn, en þá er þess að geta að Hannes kveðst hafa afhent Þjóðskjalasafni lista yfir heimildarmenn sína til síðari skoðunar. Svo er hitt að ótilgreindu heimildarmennirnir eru iðulega hafðir fyrir því sem gerðist í heimi stjórnmálanna og þá er það að sjálfsögðu stjórnmálamanna eða annarra sem málið varðar að mótmæla ef rangt er farið með. Þetta er grundvallaratriði, að um bókina verði umræða. Hún á það skilið. Og ég endurtek að það sem máli skiptir í bókinni og varðar Landsdómsmálið sjálft er mjög vel undirbyggt að mínu mati, vel rökstutt og byggir að því er mér virðist að uppistöðu til á góðum heimildum.
Landsdómsmálið – stjórnmálarefjar og lagakrækir er bók sem ekki verður horft framhjá. Þvert á móti er hún mikilvægt framlag í umræðu um mikilvægt mál.
Það sofnar enginn yfir þessari bók.
Baksviðs
Eitt vil ég nefna sem er sérstakt fyrir þessa bók og það er hve rækilega höfundur leitast við að varpa ljósi á baksvið þeirra átaka sem hann lýsir. Persónur og leikendur eru grandskoðaðir og fá einkunn, sumir fyrir lundarfar og skapferli, sérstaklega þeir sem falla ekki að pólitískum litasmekk höfundar. Sumt af þessu þykir mér þó mjög áhugavert og minnir á návígið í íslensku samfélagi sem margir ætla að sé meira sökum smæðar þjóðfélagsins. Innbyrðis tengsl, til góðs eða ills, í valdakerfum heimsins ráðast þó ekki að mínu mati af höfðatölu – alls staðar hygg ég að séu tiltölulega fámennir en innbyrðis vel tengdir valdahópar.
En þótt þessi hlið bókarinnar sé um margt mjög áhugaverð því persónuleg tengsl manna skipta máli - og stundum óþægilega miklu máli - við erum minnt á það við lestur þessarar bókar - þá er það engu að síður svo að mér þykir Hannes vera fulldjarfur að draga ályktanir sem hann setur fram um áhrif þessara tengsla.
Þess skal þó getið að hann reynir annað veifið að slá ýmsa varnagla hvað þetta varðar en hvort þörf var á því svo dæmi sé tekið að nánast skipa okkur til borðs í eldhúsi þeirra hjóna, Bjargar Thorarensen, lagaprófessors, og Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta Hæstaréttar, þar sem þau ræða hvort þeirra skuli fara í Landsdóm þar sem þau bæði ættu að vera stöðu sinnar vegna en mega ekki vegna hjúskapartengsla, þá held ég að það hafi skipt litlu ef þá nokkru máli hver niðurstaða þeirra varð þegar horft er til gangs málsins fyrir Landsdómi.
Þetta á við um sitt hvað fleira þar sem höfundur ætlar persónum og leikendum hugsanir og gjörðir, einkum vafasamar hugsanir og gjörðir.
Söguleg umgjörð hrunsins og “dómsorð hægri manns”
Hannes byrjar bók sína á því að fjalla um bankahrunið og hvað hafi valdið því. Landsdómur fjalli um hvernig brugðist var við þessu hruni - aðgerðarleysi og aðgerðir eftir atvikum. Eðli hrunsins verðum við því að þekkja.
Þetta er rökrétt nálgun.
Og nú kynnumst við enn eina ferðina þeim manni sem við þekkjum svo vel, frjálshyggjumanninum Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Á nokkrum stöðum í bókinni kveður hann upp sinn dóm um stjórnarár Sjálfstæðisflokksins á tíunda áratugnum og fyrsta áratug þessarar aldar.
Ég leyfi mér að kalla þetta dómsorð hægri manns um pólitíska umgjörð hrunsins. Sjálfur hef ég einnig kveðið upp dóm sem ég ætla hér á eftir einnig að vitna til.
Gef ég nú HHG orðið. Við erum stödd á bls.18 í bók hans þar sem hann tekur upp þráðinn þar sem Ísland er orðið hluti af hinu Evrópska efnahagssvæði:
“Evrópskur fjármálamarkaður var einn angi hins innri markaðar Evrópu. Jafnframt hafði verulegt nýtt fjármagn skapast á Íslandi, aðallega af fjórum ástæðum. Í fyrsta lagi hafði stórlega dregið úr sóun í sjávarútvegi, við það að tekið var að úthluta aflaheimildum í einstökum fiskistofnum, fyrst í uppsjávarfiskunum síld og loðnu og síðan í þorski, ýsu og öðrum botnfiski, en þessar aflaheimildir urðu framseljanlegar í áföngum, og varð þá til svokallað kvótakerfi. Við upphaflega úthlutun var miðað við aflareynslu. Þetta kerfi varð heildstætt í tíð vinstri stjórnar Steingríms Hermannssonar árið 1990. Nú þurftu útgerðarmenn ekki lengur að keppast um að veiða sem mest á sem skemmstum tíma, heldur vissu þeir fyrir fram, hversu mikið þeir mættu veiða á hverri vertíð og gátu því skipulagt veiðarnar fram í tímann með sem lægstum tilkostnaði. Framsalið hafði í för með sér, að aflaheimildir lentu smám saman í höndum þeirra, sem gátu gert út með minnstum tilkostnaði. Áður hafði mögulegur arður af fiskistofnunum (auðlindarenta, sem svo er stundum kölluð) mestallur farið í súginn í of miklum tilkostnaði: við ókeypis aðgang að fiskimiðum stækkaði flotinn og sóknin jókst upp að því marki, að enginn tekjuafgangur varð af veiðum. Nú minnkaði sóknin, og hinn mögulegi arður skapaðist og rann í sjóði útgerðarfyrirtækja. Þannig varð til fjármagn, sem myndaði eftirspurn eftir innlendum og erlendum fjárfestingatækifærum, og reyndu fjármálafyrirtæki að koma til móts við hana.
Í öðru lagi hafði stórlega dregið úr sóun í öðrum greinum atvinnulífsins upp úr 1991, þegar opinber afskipti af atvinnulífinu minnkuðu. Ríkið hætti að styrkja óarðbær fyrirtæki, sem áður hafði verið gert beint fyrir milligöngu ýmissa sjóða og óbeint með því að keyra niður vexti, verð á fjármagni, með handafli. Stórfelld sala ríkisfyrirtækja (sem kölluð var hinu klunnalega nafni einkavæðing) upp úr 1991 fól síðan í sér, að fjármagn færðist úr höndum atvinnustjórnmálamanna og embættismanna í hendur einkaaðila sem ráku fyrirtæki sín í hagnaðarskyni. Var andvirði fyrirtækjanna að mestu leyti notað til að lækka skuldir ríkisins. Í þriðja lagi leystu skattalækkanir á fyrirtæki og einstaklinga úr læðingi margvíslega krafta. Talað er um Laffer-áhrif, þegar skattstofn stækkar við skattalækkanir, svo að skatttekjur geta jafnvel hækkað frekar en lækkað, og þetta gerðist einmitt á Íslandi. Síðast, en ekki síst, höfðu lífeyrissjóðir landsmanna vaxið ört og voru í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar orðnir einhverjir hinir stærstu í heimi miðað við höfðatölu.”
Stóðu sig of vel?
Eins og hér má sjá fellur hvergi skuggi á Sjálfstæðisflokkinn – ef ekki hefði verið fyrir lága vexti hjá Íbúðalánasjóði um skeið, hefði allt verið nánast óaðfinnanlegt. Hér er vísað í loforð Framsóknarflokksins um lækkun vaxta og 90% lán Íbúðalánasjóðs vegna húsnæðiskaupa.
Undir þessa gagnrýni á slík lán hafa ýmsir tekið, þar á meðal Samfylkingin sem oft talaði um hve eftirsóknarvert það væri að fá Evrópuvexti, þeir væru svo lágir. Slíkir vextir gerðu ekkert nema gott gagnstætt lágu Framsóknarvöxtunum sem sköpuðu þenslu.
Húsnæðiskaupendur skildu hins vegar aldrei þennan mun - sem var náttúrlega enginn - heldur fögnuðu því einfaldlega að fá lægri vexti.
En þar höfum við það frá Hannesi að ef ekki hefði verið fyrir Framsóknarvextina hefði allt verið gott, nánast óaðfinnanlegt í valdatíð Sjálfstæðisflokksins.
En einmitt þarna var vandann að finna að mati Hannesar, Sjálfstæðisflokkurinn skilaði svo frábæru búi og svo skínandi orðspori að einkavæddu bankarnir gátu ekki annað en vaxið og dafnað og á endanum uxu þeir svo mikið að þeir urðu of stórir. Vegna utanaðkomandi aðstæðna hafi þeir síðan lent í vanda og að lokum hrun orðið óumflýjanlegt.
Niðurstaðan er sem sagt þessi: Hin pólitíska sök þeirra sem setið höfðu í Stjórnarráðinu var sú að hafa staðið sig of vel. Það er kjarninn í dómsorði Hannesar.
(Sjá nánar í bók HHG svo og viðtal Þórarins Hjartarsonar við HHG um bókina í vefþætti hins fyrrnefnda í janúar, Ein Pæling: https://www.spreaker.com/user/11694189/hannes-holmsteinn-landsdomsmalid-soundcu)
Viðbrögð og viðbragðsleysi
En hvernig var svo tekið á þessu öllu saman?
Víkur þá sögunni að rannsóknarnefnd Alþingis sem ætlað var að rýna í hrunið, aðkomu þingmannanefndar Alþingis og svo Landsdómi.
Ég er sammála Hannesi að öllum yfirheyrslum og störfum rannsóknarnefndar Alþingis hefði átt að sjónvarpa. Leyndin varð til að ala á tortryggni, gera eldfimt ástand enn eldfimara og svipti menn auk þess möguleikanum á milliliðalausu sambandi við almenning – sem forsætisráðherra landsins tók síðar undir með að þyrfti að róa þegar Landsdómsmálið kom til kasta Alþingis.
Hannes fer vel yfir þessa félagslegu umgjörð, að markmiðið hafi verið að koma á ró í landi sem logað hafði í óeirðum, og þar sem reitt fólk hafi viljað finna sökudólga fremur en að finna hvað rétt var.
En gleymum því ekki - og þetta hlýtur að vera lykilatriði - að almenningur hafði klappað fyrir öllu sem nú þótti svo illt, þenslu bankanna (85% þjóðarinnar fögnuðu útrás þeirra kemur fram í bókinni, sjálfur hefði ég haldið að hlutfallið hefði jafnvel verið enn hærra), forsetinn hafði jú klappað, sendiherrar, stjórnmálamenn, allflestir höfðu klappað þegar vel gekk og í fjölmiðlum var ekki að finna gagnrýnendur að heitið gæti. Hvað þá í bönkunum. Ég var spurður á kosningafundum í held ég öllum bönkunum fyrir þingkosningarnar 2007 hvert ég ætlaði að senda þau í útlegð en þá hafði ég sagt að bankarnir væru orðnir of stórir og tilræði við jafnaðarþjóðfélagið. Hvert þau ættu að fara vissi ég ekki og var þá mikið hlegið.
En svo varð hrun og þá var spurt hver bæri ábyrgð á óförunum, nú vildu allir vita það eitt, finna hina seku, sökudólgana og refsa þeim.
En hvar var þá að finna? Í fjármálakerfinu, jú vissulega. Stofnun embættis sérstaks saksóknara bar þess vitni að þar ætti að leita. Embættið var sett á laggirnar í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en ríkisstjórn VG og Samfylkingar, sú ríkisstjórn sem ég sat í, stórefldi embættið. En á Alþingi var ekki síður horft til Seðlabankans þar sem Davíð Oddsson sat og Fjármálaeftirlitsins, þeirra stofnana sem áttu að hafa eftirlit með höndum, og síðan að sjálfsögðu ríkisstjórnarinnar.
En nú þegar runninn er móðurinn af mönnum sjáum við að þegar í ársbyrjun 2008 varaði Seðlabankinn við því að allsherjar bankahrun gæti verið yfirvofandi. Augljóst var að í ríkisstjórn og stjórnkerfinu voru menn misjafnlega trúaðir á þetta. Og gleymum því ekki að heimurinn allur var meira og minna í afneitun. Ég minnist þess að koma á fundi sendinefnda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD árin í aðdraganda hrunsins, það gerði ég sem formaður BSRB. Upp úr þessum sendiboðum stóð aldrei annað en hrifning yfir því hve allt gengi vel á Íslandi, stefnt væri í rétta átt. Það væri helst að þyrfti að ganga harðar fram í að einkavæða húsnæðiskerfið. Þetta heyrði ég bæði frá fulltrúum OECD og AGS. En nú var komið eða í þann veginn að komast annað hljóð í strokkinn.
Sumt orkaði tvímælis
Ráðherrar og stjórnmálamenn almennt voru misjafnlega trúaðir á að ástandið væri eins alvarlegt og raunin var. En bæði hin trúuðu og hin vantrúuðu virtust þó vera sammála um að reyna í lengstu lög að halda skútunni á floti á meðan sveigt væri af leið. Þannig túlka ég ferðir forsætisráðherra og utanríkisráðherra vestur og austur um haf á fyrri hluta ársins 2008 til að tala upp tiltrú á íslensku bankana. Þessar ferðir orkuðu þá og orka enn mjög tvímælis og þá ekki síður skrif stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins um ágæti Icesave á þessum tíma. En þegar málin eru skoðuð í baksýnisspeglinum verður ljóst að eftirlitsstofnanir og stjórnvöld voru víðast hvar í þessum ham, að liðka um fyrir fjármálastofnunum til að freista þess að þær gætu fleytt sér út úr vandanum. Á Íslandi hefði hins vegar þurft að setja mélin upp í ótemjurnar miklu fyrr; þegar komið var fram á árið 2008 var það orðið of seint. En staðreyndin er engu að síður sú að vel fram á árið 2008 lofaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn íslenska eftirlitskerfið og matsfyrirtækin gáfu þá enn íslensku bökunum góða einkunn þótt raddir efasemda og gagnrýni heyrðust jafnframt.
Það sem við vitum nú er að tilraunir til að taka í taumana, til dæmis breyta Icesave útibúunum í Bretlandi í dótturfélög, sem hefðu fært þau undan íslenska bankakerfinu og undir hið breska og þar með minnkað okkar innlenda kerfi, gengu ekki eftir þótt það væri reynt því bresk bankayfirvöld leyfðu það ekki. Á þetta bendir Hannes svo og að valdheimildir hafi skort til að koma böndum á íslensku bankana sem æddu áfram eins og iðulega gerist þegar gjaldþrota fyrirtæki reynir allt til að halda sér á floti – alltof lengi, nokkuð sem verður stjórnendum fyrirtækja aðeins ljóst eftirá.
Munurinn á stjórnendum bankanna og stjórnvöldum var sá að hinir fyrrnefndu gerðu margir - ekki allir, en margir hverjir - sitthvað sem reyndist saknæmt í eigin ábataskyni sem stjórnvöldin voru hins vegar ekki sek um. Í mínum huga er þetta lykilatriði.
Á þeim mánuðum sem helst hafa verið til skoðunar varðandi ráðherraábyrgðina, frá því í febrúar 2008 og fram að hruni var sem fyrr segir alls staðar komið að lokuðum dyrum með hvers kyns fyrirgreiðslu til bjargar íslenska bankakerfinu og er um það fjallað í bók Hannesar.
Hann rekur hvernig íslensk yfirvöld hafi síðan farið aðra leið en að láta skattgreiðendur borga brúsann að fullu eins og gert var annars staðar.
Einnig þetta er lykilatriði í mínum huga og hér hljótum við að staðnæmast við þá staðreynd að verkstjórinn í þeirri för var sá maður sem nú var ákveðið að draga fyrir Landsdóm vegna embættisglapa, Geir H. Haarde. Auðvitað komu fleiri að neyðarlögunum sem sett voru til að draga eins konar varnarmúr um íslenska hagkerfið eins og kostur væri og þá sérstaklega innistæðueigendur, veita þeim forgangskröfu í þrotabú og síðan reisa nýja banka á rústum þeirra sem nú voru fallnir. Á þetta hefur Geir sjálfur lagt áherslu. Og Hannes Hólmsteinn Gissurarson bendir réttilega á að þessar tillögur hafi verið ítarlega reifaðar í Seðlabankanum og bankastjórar hans komið þeim á framfæri við stjórnvöld á mjög afdráttarlausan hétt. Hannes vísar einnig í viðbragðsteymi bankans og er nafn Ragnars Önundarsonar þar sérstaklega nefnt í tengslum við neyðarlögin.
En þótt verkstjórinn hafi á endanum verið forsætisráðherrann þá hefur komið fram, ekki síst af hans hálfu sem fyrr segir, að lagafrumvörpin sem neyðarlögin byggðu á hafi verið sameiginlegt verk margra og hafi smiðshöggið verið rekið á tæknilegan frágang frumvarpanna í Viðskiptaráðuneytinu þar sem Björgvin G. Sigurðsson var ráðherra og í Fjármálaeftirlitinu hafi starfsfólkið unnið að því erfiða verki að koma skipulagi á föllnu bankana. Virðast menn almennt sammála um að vel hafi tekist til í þessu efni á þessum fyrstu metrum eftir að kreppan var skollin á. Í því sambandi er einnig rétt að nefna hve vel tókst til af hálfu Seðlabankans að tryggja að greiðslukerfin virkuðu eftir að fjármálakerfi landsins hrundi. Þetta var ekki sjálfgefið
Margt af því sem ráðherrar í ríkisstjórn gerðu eða létu ógert í sjálfum aðdragandanum að hruninu orkar hins vegar tvímælis, ekki síst eftir á, þótt menn verði að hafa þá sanngirni til að bera að svara því þá hvað hefði verið hægt að taka til bragðs. Þessari spurningu varpar bókarhöfundur ítrekað fram og kemst hann að þeirri niðurstöðu að það sem gert var eða ógert í viðbrögðum við bankahruninu hafi af hálfu þess manns sem sakfelldur var í Landsdómi verið af hinu góða heldur en hitt.
Varðandi meint samráðsleysi forsætisráðherrans þáverandi við aðra ráðherra í ríkisstjórn, sem endaði sem eini ákæruliðurinn sem sakfellt var fyir í Landsdómi, þá telur Hannes að fjarstæðukennt sé að ráðherrar hafi ekki ræðst við þótt hann tilgreini jafnframt fundi þar sem þeir ráðherrar voru ekki allir viðstaddir þar sem þeir hefðu þurft að vera. Skýrir hann hvernig það hafi verið til komið og segir það ekki runnið undan rifjum Landsdóms-sakborningsins. Þá hafi lítið verið gert með það í Landsdómi að ráðherrar úr báðum stjórnarflokkum hafi borið vitni um að þessi mál hafi margoft verið til umræðu í ríkisstjórn án þess að bókað hafi verið.
Ósannfærandi umræða
Sjálfum hefur mér þótt þessi umræða um meint samráðsleysi vera ósannfærandi enda fór það ekki framhjá neinum á þessum tíma að útþensla bankanna var mál málanna í þinginu og fóru ítrekað fram umræður þar um hætturnar sem þessu gætu fylgt samanber þau ummæli mín sem ég vísaði fyrr í. Vandinn var ekki skortur á umræðu heldur hve vantrúaðir flestir voru á hve alvarlegt ástandið var í raun. Erfitt er að trúa því að einhverjir ráðherrar telji sig hafa staðið svo utangátta í umræðunni að þeir telji sig hafa misst af einhverju sem þeir síðan hefðu getað haft áhrif á. Það breytir því ekki að boða hefði átt til markvissrar og bókaðrar umræðu í ríkisstjórn umfram það sem gert var. En að telja það varða við fangelsissök að hafa ekki látið bóka allar slíkar umræður er önnur saga. Þetta var þó það efni sem Geir H. Haarde var sakfelldur fyrir í Landsdómi.
Hér er ekki tími til að rekja þessi mál í smáatriðum, það verða menn að gera, meðal annars með því að lesa þessa bók – en þar sem ég verð viðskila við höfund hennar er í mati hans á orsökum hrunsins og hvar raunveruleg sök liggur. Því sök er fyrir hendi.
Ummæli Sigríðar um græðgina
En áður en ég kem nánar að því langar mig til þess að nefna ummæli Sigríðar Benediktsdóttur, eins þriggja einstaklinga sem sátu í rannsóknarnefnd Alþingis. Henni var legið á hálsi fyrir að láta, í þann veginn sem rannsóknarvinnan var að hefjast, hafa eftir sér í skólablaði við Yale háskólann í Bandaríkjunum þar sem hún kenndi að orsakir hrunsins hefðu verið óhófleg græðgi margra bankamanna og að eftirlitsstofnanir hafi brugðist. Fyrir þetta vildu margir að Sigríður yrði látin víkja úr rannsóknarnefndinni því með þessum ummælum hefði hún komist að niðurstöðu fyrir fram. Bókarhöfundur telur greinlega það hafa verið réttmæt krafa. Mér þótti hún hins vegar fráleit.
Í fyrsta lagi væri þetta ekki dómstóll heldur rannsóknarnefnd og þetta því enginn fyrirfram uppkveðinn dómur og í annan stað hlytu þetta að vera öllum mönnum ljós sannindi. Þetta væri því fyrst og fremst observasjón. Það ætti við um græðgina, hitt, varðandi eftirlit og aðhald þyrfti vissulega að skoða nánar og það væri verkefni rannsóknarnefndarinnar.
Um þetta vorum við Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem sagt ósammála enda löngum deilt um eðli græðginnar. Hann segir í bók sinni að hún hafi verið með manninnum frá örófi alda. Nokkuð kann að vera til í því nema hvað ég hef jafnan bent á að við græðgina megi gera tvennt, deyfa hana og reyna að draga úr henni eða á hinn bóginn örva hana og jafnvel nýta í pólitísku markmiði eins og fram kemur í mínu pólitíska dómsorði hér á eftir.
Mannréttindadómstóll bregst
Í stuttu máli þá stóð ég með Sigríði Benediktsdóttur og geri enn. En hið sama á ekki við um Mannréttindadómstól Evrópu. Og í rauninni hefði mátt byrja á því að rekja þetta mál aftan frá þar sem það endaði, nefnilega í Strassborg. Mannréttindadómstóllinn i Strassborg komst að þeirri niðurstöðu að þótt pólitík hefði að sönnu komið við sögu í Landsdómsmálinu – þá hafi það ekki verið að því marki að afgerandi hefði verið.
Þetta er eins ævintýralega vitlaust og verða má. Ég er sjálfur til vitnis um það hafandi tekið þátt í atkvæðagreiðslu um málið á pólitískum forsendum og séð aðra gera hið sama og menn þurfa ekki að gera annað en að lesa þingtíðindi og skoða ummæli þingmanna til að sannfærast um það. Forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir tók undir með fréttamanni Sjónvarps að „til þess hafi þetta verið sett á laggirnar“ til að róa þjóðina. (bs. 164)
Og ekki vanþörf á því rannsakendur höfðu í öllu þessu ferli kynt undir með tali um að nú stæði til færa þjóðinni válegustu tíðindi sem hún hefði fengið frá því að land byggðist, einn rannsakenda kvaðst hafa grátið yfir rannsóknarskýrslunni og í þinginu var talað á þingflokksfundum hvort ástæða væri til að virkja viðbragðsteymi í áfallahjálp þegar skýrslan yrði birt! Það eitt segir sína sögu um andrúmsloftið.
Sjálfur þurfti ég enga áfallahjálp, var búinn að vera í áfalli frá því að tíundi áratugurinn gekk í garð yfir óábyrgum stjórnvöldum sem mér þótti sýnilegt að væru að rústa samfélagi okkar. Fyrir það ætti að dæma Sjálfstæðisflokkinn og hjálparhellur hans, ekki fyrir dómstólum heldur í kosningum.
Söguleg umgjörð hrunsins og “dómsorð vinstri manns”
Í bók minni Rauða þræðinum er að finna mitt dómsorð sem ég leyfi mér hér undir lokin að vitna í. Ég læt bera niður á bls. 242:
„En nú gerðust menn nokkuð móðir. Svo var að sjá að „eignagleðin“ væri að nálgast sín mörk í huga foringja Eimreiðarmanna, Davíðs Oddssonar, hann byrjaður að bila í trúnni á sjálfa trúarjátningu sína sem hann orðaði svo á landsþingi Sjálfstæðisflokksins undir aldamótin. Hún var ögrandi og Thatcherísk:
„Það á að ýta undir eignagleði Íslendinga, því ríkari sem eignagleðin verður, því minna svigrúm hefur öfundin. Því minna svigrúm sem öfundin hefur því minni markaður verður fyrir óábyrga vinstri flokka.“
Þetta var næsti bær við fræga yfirlýsingu Margrétar Thatcher, járnfrúarinnar bresku, sem tilkynnt hafði þjóð sinni að græðgi væri eftirsóknarverð, greed is good. Þótt þessar yfirlýsingar séu keimlíkar bendir margt til þess að áður en yfir lauk hafi Davíð þótt braskarar Íslands hafa gengið of langt í ásælni sinni og græðgi.
Í bók sinni, Umsátrið, fall Íslands og endurreisn, gerir Styrmir Gunnarsson, fyrrum Morgunblaðsritstjóri, því skóna að Davíð Oddssyni, sem haft hafi forgöngu um að skapa lagaramma markaðsvæðingarinnar og losað um höftin, hafi orðið um og ó við að horfa upp á einkavædda fjármálastarfsemi, pólitískt afkvæmi flokks síns, ummyndast í óviðráðanlega ófreskju. Segir Styrmir að peningamennirnir hafi tekið völdin en Davíð ekkert fengið við ráðið í framhaldinu. Svo hafi verið komið á endanum að Davíð og vopnafélagar hans hafi viðurkennt sín í milli að svo væri komið að við byggjum orðið „í bófasamfélagi.“
Óður Davíðs Oddssonar til eignagleðinnar er þannig orðinn lágstemmdari þegar hrunið nálgast.
En ómurinn af draumsýn Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins og eftirmanns Davíðs á stóli forsætisráðherra, lá enn í loftinu þegar Samfylkingin, næsta hjálparhella Sjálfstæðisflokksins, gekk upp að altarinu með honum. Draum sinn hafði Halldór kynnt á Viðskiptaþingi árið 2005, þá sem forsætisráðherra: „Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Að hér á þessari litlu og hjartfólgnu eyju starfi kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki sem hafa kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda ...“
Á Alþingi í mars þremur árum síðar sagði Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra, arftaki Halldórs og þar áður Davíðs Oddssonar:
„Frá því að tillögur umræddrar nefndar, sem forveri minn ... skipaði til að skoða alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi, hafa ýmis skref verið [stigin] ... Aðalatriði þessarar hugmyndar er að nýta þá jákvæðu ímynd sem íslenska lífeyrissjóðakerfið hefur á alþjóðavettvangi .... Í öðru lagi má nefna ... skattfrelsi hagnaðar af sölu hlutabréfa ... Í þriðja lagi vil ég nefna nýlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun tekjuskatts á fyrirtæki ... Í fjórða lagi hefur einnig markvisst verið unnið að því að draga úr skrifræði og kostnaði í reglusetningum hins opinbera, m.a. undir formerkjum þriggja ára aðgerðaáætlunar sem kallast Einfaldara Ísland ... Að öðru leyti er ég sammála því sem segir í tillögu nefndarinnar, að mikilvægt sé að horfa til þess sem langtímamarkmiðs að ganga helst aldrei skemur í umbótum á rekstrarskilyrðum fyrirtækja en viðmiðunarþjóðir okkar gera …“
Þessi texti verður fyrst athyglisverður og svakalegur þegar haft er í huga að Samfylkingin, sem stundum kallaði sig Jafnaðarmannaflokk Íslands, var þarna komin í ríkisstjórn til að auðvelda fjárglæframönnum að ráðskast áfram með Ísland, og meira en það, bæta í.
Í grein í Morgunblaðinu 17. janúar 2012 gerði ég aðdraganda hrunsins upp með tilvísun í ofangreind ummæli þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Geirs H. Haarde og botnaði svo:
Þessi saga á sér lengri rót. Að minnsta kosti frá því þáverandi stjórnvöld heimiluðu að braska með veðsettan kvóta í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Þá byrjaði útrásarævintýrið, sem ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins áttu eftir að styðja við fram á haustið 2008 þar til allt hrundi og varð ákafinn meiri eftir því sem nær dró hruni.
Ýmsar vörður voru á þessari vegferð, einkavæðing sjóða atvinnulífsins þegar milljarðar sem atvinnuvegirnir höfðu safnað voru færðir fjármálakerfinu til ráðstöfunar. Síðan kom einkavæðing á einkavæðingu ofan: SR-Mjöl fært fjármálamönnum á silfurfati, markaðsvæðing Pósts og síma, þar sem nýir stjórnendur lögðust í stórfellt brask með stofnun sem séð hafði okkur fyrir ódýrustu símaþjónustu í heiminum og árlegum rekstrarafgangi inn í ríkissjóð! Og síðast en ekki síst einkavæðing bankanna. Það er ekki ofsögum sagt að Íslandi hafi verið umturnað. Tiltölulega saklaust samfélag varð siðlaus spilabúlla.
Þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Að sjálfsögðu voru gerendur. Spilavítið Ísland var búið til með markvissum og yfirveguðum hætti. Það var ásetningur Sjálfstæðisflokksins að gera Ísland að fjármálamiðstöð heimsins með minna reglugerðarverki og hagstæðari skattaskilyrðum fyrir braskfyrirtæki en fyrirfundust á byggðu bóli. Framsókn stóð sig afbragðsvel í þessari viðleitni og Samfylkingin líka þegar að henni kom; áköf og gagnrýnislaus.“
Það sem Atli Gíslason ætlaði
Ég held að það hafi vakað fyrir Atla Gíslasyni formanni þingmannanefndar Alþingis sem setti fram ákærur á fjóra ráðherra að finna kollektívan sökudólg fyrir nákvæmlega það sem hér er lýst. Við vitum hvernig það endaði. Einn maður ákærður fyrir meint glæpsamlegt athæfi. Það var aldrei ætlan Atla Gíslasonar, enda hann í hópi þeirra sem vildi að Landsdómsmálið yrði stöðvað í upphafi árs 2012 þegar það kom til álita á Alþingi. Svo var ekki gert því miður.
Án efa er margt órætt um þetta mál og er mikilvægt að allar staðreyndir komi fram.
En sagan hefur hreinsað Geir H Haarde.
Sagan hefur hins vegar ekki hreinsað peningafrjálshyggjuna, hún er enn að og mér sýnist hún vera að endurtaka leikinn.