Fara í efni

LANDSPÍTALINN GEGN GEÐSJÚKUM?


Í fréttum er okkur sagt að öryggisfyrirtækið Securitas eigi að sinna geðsjúku fólki á sjúkrahúsinu. Í fréttum RÚV ohf. í kvöld segir að Landspítalinn háskólasjúkrahús hafi samið við Securitas um gæslu sjúklinga sem þarfnist „stöðugs eftirlits" einsog það heitir.

Flesta setur hljóða við þessar fréttir. Ekki á það þó við um alla því framkvæmdastjóri Geðhjálpar bregst við á afgerandi hátt. Sveinn Magnússon segir að þetta sé „afturhvarf til fortíðar í meðferðarúrræðum fyrir geðsjúka og í öllum tilfellum eigi heilbrigðisstarfsfólk að sinna yfirsetu enda sé um að ræða veikt fólk."

 Forstjóri LSH segist, samkvæmt frétt RÚV ohf. „skilja þessi sjónarmið en í einstaka tilfellum þurfi auka aðstoð."

En gerir forstjórinn það í raun? Ef forsvarsmenn LSH skilja þessi sjónarmið hljótum við að spyrja hvers vegna í ósköpunum þetta sé yfirleitt gert. Lögregla og tollgæsla þurftu „auka aðstoð" við tollgæslu við innkomu okkar í Schengen. Securitas var fengið til starfans. þessu var kröftuglega mótmælt og í kjölfarið horfið frá þeirri ráðagerð. Gagnrýnin beindist ekki að einstaklingum sem starfa fyrir Securitas heldur var bent á að um opinbera þjónustu gildi strangar reglur borgaranum til varnar. Sagt var: Ef fela á einhverjum heimild til að ganga nærri minni persónu með leit og eftirgrennslan þá krefst ég þess að slíkt heyri undir allar þær varnaðar- og varúðarreglur sem samfélagið hefur sett um opinbera starfsmenn. þetta viðurkenndu stjórnvöld - á endanum.

En á þetta ekki við um geðsjúkt fólk? Ætti þetta ekki jafnvel frekar við um fólk sem á sér enga vörn vegna sjúkleika síns? Forsvarsmenn Landspítalans sýna með þessari ákvörðun  mikið dómgreindarleysi. Um þessa ráðstöfun verður aldrei friður.