Fara í efni

LANDSVIRKJUN MISNOTI EKKI AÐSTÖÐU SÍNA Í SKÓLUM

Nokkur umræða hefur orðið um bréf Landsvirkjunar til skólanna í landinu, sem ég gerði að umræðuefni á heimasíðunni sl. fimmtudag. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, vísaði gagnrýni minni á bug í fjölmiðlum.

Í Morgunblaðinu í gær er fjallað um þetta efni og er rifjað upp að Landsvirkjun hyggist efna til samkeppni um orkumál í grunnskólum landsins og í kjölfarið verði fulltrúum grunnskólanema boðið að taka þátt í að leggja hornstein að Kárahnjúkavirkjun í vor.

Þá segir í Morgunblaðsfréttinni: "Í bréfi til skólastjórnenda kemur fram að Landsvirkjun hafi á undanförnum árum stutt vinnu við eflingu á fræðslu um orku og orkumál í grunnskólum. Í því sambandi er minnst á námskeið fyrir kennara, svonefnt Nordlab-verkefni, orkuvef, orkuþing skóla og fræðsluvef Landsvirkjunar. Hornsteinn verði lagður að stærstu virkjun Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun, í vor og bjóði Landsvirkjun fulltrúum ungu kynslóðarinnar að taka þátt í að leggja hann. Til að velja þessa fulltrúa verði efnt til samkeppni eftir áramót þar sem nemendum verði boðið að vinna verkefni tengd orkumálum og verði þau sniðin að mismunandi aldursstigum grunnskólans…Ögmundur Jónasson alþingismaður gagnrýnir þessa fyrirætlun á heimasíðu sinni, segir að um áróður sé að ræða og Landsvirkjun beri að draga bréfið til baka. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að norræna ráðherranefndin hafi átt frumkvæði að Nordlab-hópnum þegar í ljós hafi komið að kennsla í raungreinum væri ekki nógu góð í samanburði við gang mála í Singapúr. Íslenski hópurinn hafi fengið það verkefni að skoða hvernig orka og orkumál ættu að koma betur inn í raungreinakennslu. Þessi hópur hafi haft frumkvæði að því að hafa samband við Landsvirkjun, samstarfið hafi staðið yfir í nokkur ár og samkeppnin á næsta ári sé í beinu framhaldi af því. Verkefnin séu enda í mótun í samráði við skólafólk sem hafi sinnt fræðslu um orkumál. "Við viljum leggja upp efni sem skólarnir geta nýtt sér og síðan er það hvers og eins hvort þeir vilja taka þátt í þessari samkeppni eða ekki," segir hann."

Nú vil ég taka það skýrt fram að fræðsla um orku og orkumál á að mínu mati heima í skólum og beinist gagnrýni mín ekki á nokkurn hátt að slíkri fræðslu og því starfi sem unnið hefur verið til þess að efla þessa fræðslu. Þá finnst mér vel við hæfi að nýta þá þekkingu sem til er hjá Landsvirkjun um raforkumál í samstarfi við skólana. Almennt er ég því fylgjandi að skólarnir séu opnir fyrir umhverfi sínu. Hér þarf hins vegar að sýna varkárni og mikla yfirvegun. Ég tel það ekki bera vott um góða dómgreind af hálfu Landsvirkjunar að reyna með skipulegum hætti að vinna að því innan veggja skólanna að fá skólabörnin til að koma að vígslu umdeildustu virkjunar Íslandssögunnar. Það ber heldur ekki vott um tillitssemi gagnvart þeim þúsundum Íslendinga sem helst vildu að aldrei hefði verið ráðist í þessa virkjun að beina því til barnanna þeirra að keppa um að fá að slást í för með iðnaðarráðherra þegar hornsteinn virkjunarinnar verður múraður inn. Augljóst er að þessi samkeppni miðar að því að vinna þessari virkjunarframkvæmd velvild. Markmiðið er þannig áróður fyrir stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar en sem kunnugt er á Kárahnjúkavirkjun að þjóna aðeins einum viðskiptaaðila, þ.e. álrisanum Alcoa.

Landsvirkjun er okkar allra og á að virða almannavilja, ekki aðeins stjórnarviljann. Í fyrrnefndum pistli mínum hér á síðunni sagði ég m.a.: "Nú er það svo að um dagana hefur Landsvirkjun gert marga ágæta hluti, sem stundum vilja gleymast af hálfu okkar gagnrýnenda stóriðjustefnunnar, í hita baráttunnar. Hinu verður ekki horft framhjá að Kárahnjúkavirkjun og reyndar önnur verkefni sem Landsvirkjun hefur á prjónunum, hafa skipt þjóðinni í fylkingar. Þar hefur þessi stofnun sem við eigum öll ekki látið við það sitja að framkvæma vilja ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis, heldur einnig beitt sér af alefli í áróðri fyrir stjórnarstefnunni. Þegar nú ruðst er inn í skólastofur barnanna með þennan áróður er mál að linni."

Þetta er kjarni málsins.