LANDVINNINGAR?
Kínverskur auðmaður vill fá yfirráð yfir landi í fjarlægum heimshluta, reisa 20 þúsund fermetra mannvirki og flugvöll. Jarðnæðið liggur að viðkvæmum og afar verðmætum ferðamannastöðum.
Jörðin er að sjálfsögðu Grímsstaðir á Fjöllum, landið Ísland og auðmaðurinn Huang Nubo. Samkvæmt grundvallarreglu í íslenskum lögum er þetta ekki heimilt. Hins vegar er að finna göt í lögunum - heimildarákvæði - sem hægt er að komast í gegnum og ná sama markmiði. Þetta gat telur kínverska fjárfestingarsamsteypan sem auðkýfingurinn Huang Nubo er í forsvari fyrir, sig hafa fundið með aðstoð nokkurra íslenskra sveitarstjórnarmanna og starfsmanna í stjórnsýslu.
Þetta gat og fleiri göt í lagasmíðinni eru vissulega öll okkar stjórnmálamannanna verk og allt kann þetta vera fullkomlega lögum samkvæmt. En við hljótum alltaf að spyrja um markmið grundvallarreglu. Þá er undarlegur hljómur í þessu máli. Engu er líkara en á heimaslóð kaupandans sé verið að greina frá stríðsátökum, sigrum og ósigrum þar sem menn tapa eða vinna. Þar eru vinir og óvinir. Í morgun bárust mikil fagnaðarlæti austan að. Engu líkara en verið væri að fagna miklum landvinningum, og viti menn - innanríkisráðherrann hafði orðið undir í ríkisstjórn!
Skyldi þetta vera vísbending um það sem koma skal? Hvernig verður Ísland eftir að auðkýfingar hafa keypt það allt upp? Smjörþefinn fundum við í Kerinu á dögunum þegar eigendur meinuðu kínverskum gestum aðgang. Þá var ég stuðningsmaður okkar erlendu gesta. Þetta var ágæt áminnig um hvert einkaeignarrétturinn á landi og náttúruperlum getur leitt.
Reglan um húsbændur og hjú hefur aldrei verið geðfelld og á ekki að vera við lýði í víðernum Íslands. Meðal annars þess vegna eru mínar efasemdir um kaup Kínverja á Grímsstöðum. Gildir einu hvort um er að ræða sjálfstæðan auðkýfing eða ríkisrekinn. Hið fyrra er þó sennilega illskárra. Alla vega þegar stórveldi á í hlut með strengina á hendi - að ætla má.
Íslensk stjórnvöld eiga hins vegar ekki að hafa nein afskipti af málinu, segja íslenskir fulltrúar hinna erlendu fjárfesta. Talsmaður þeirra sagði í Sjónvarpsfréttum í kvöld að slík afskipti flokkuðust undir geðþóttavald! En til hvers eru stjórnvöldin? Mega lýðræðislega kjörnir fulltrúar ekki hafa skoðun og afskipti af auðvaldi? Ég hélt að við værum lýðræðissinnar.
Nokkrar slóðir:
http://eyjan.is/2012/05/04/nubo-vill-99-ara-leigusamning-bjartsynn-fyrst-ogmundur-hefur-ekkert-med-malid-ad-gera/
http://mbl.is/frettir/innlent/2012/05/06/huang_segir_samkomulag_i_hofn/
http://www.dv.is/frettir/2012/5/6/nubo-segir-samninga-i-hofn/
http://eyjan.is/2012/05/05/ogmundur-svarar-nubo-fullum-halsi-kannski-laus-vid-mig-en-ekki-islenska-thjod/
http://visir.is/samningur-vid-nubo-raeddur-a-rikisstjornarfundi/article/2012120509583
http://mbl.is/frettir/innlent/2012/05/06/ogmundur_a_eftir_ad_gledjast_lika/
http://www.ruv.is/sarpurinn/frettir/06052012/grimsstadir-undirbuningur-a-fullu
http://eyjan.is/2012/05/06/a-huang-nupo-valdamikla-vini-innan-samfylkingarinnar-segir-kinverjann-vega-ad-stjornvoldum/
http://visir.is/section/FRONTPAGE