LAS HANN ALDREI STJÓRNAR-SKRÁNA?
Stórbóndinn á Álftanesi liggur nú á hnjánum og biður um launalækkun. Klappstýra útrásarvíkinganna sem settu Ísland á hausinn skrifar fjármálaráðherra og biður hann að lækka sig í launum svo hann geti tekið þátt í kreppunni með aumingja almenningi.
Þessir tilburðir sýnast manni hvort tveggja í senn; ömurlegir og lítilmannlegir eða ætlar Ólafur Ragnar Grímsson virkilega að reyna að telja fólki trú um að hann hafi ekki lesið stjórnarskrána - maðurinn sem á að heita forseti íslenska lýðveldisins?
Í 9. grein stjórnarskrárinnar segir um kjaramál forseta Íslands:
„Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans."
Getur þetta verið öllu skýrara? Gleymdi forsetinn að lesa stjórnarskrána eða er hræsninni engin takmörk sett? Svari hver fyrir sig.
Og í 9. greininni segir meira:
Forseti lýðveldisins má ekki ... hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja.
Ekki er að efa að stórbóndinn og klappstýran hafi haldið sig innan þessa ramma, hafi hann á annað borð kynnt sér stjórnarskrána sem einhver áhöld eru um, en getur verið að hann hafi notið einhverra hlunninda frá þeim kújónum sem hann batt sitt trúss við meðan úrásarblekkingin stóð sem hæst? Nei, það getur bara varla verið.
Bankarnir voru reyndar svo almennilegir að hlaupa undir bagga með ævisöguritara forsetans þegar greiðslurnar úr launasjóði rithöfunda voru á þrotum. Það varð nefnilega að koma þessum „stórmerkilega" súpermannbæklingi út. En hvað gerði ævipenni forsetans þegar hann var spurður um greiðslurnar frá bönkunum, hversu háar þær hefðu verið. Hann bar við bankaleynd! Ég spyr: er það forsetanum sæmandi að sætta sig við svona vinnubrögð og almennt að láta einkafyrirtæki fjármagna ævisögu sína?
Einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar á Íslandi en í spillingarbæli kapítalismans virðist ekkert heilagt nema hjónaband valdastéttarinnar og auðstéttarinnar. Hverju hafa Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn að leyna? Margt er reyndar ljóst um Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn en getur verið að Samfylkingunni hafi líka tekist að koma sér á bólakaf í íslenska viðskiptaundrið á örskömmum tíma?
Þjóðólfur