Fara í efni

LÁTUM EKKI EINN GJALDA AFGLAPA MARGRA

Evrópuráðið
Evrópuráðið

 
Evrópuráðið er sem betur fer tekið alvarlega á Íslandi. Þegar ráðið samþykkir einróma ályktun um að aðskilja beri almennt réttarfar annars vegar og pólitískt hins vegar þá taka menn það alvarlega. Samþykkt þings Evrópuráðsins átti sér nokkurn aðdraganda. Gerð var skýrsla í einni af nefndum þingsins og á grunni hennar var síðan gerð samþykkt á þingi Evrópuráðsins í síðustu viku. Það var hollenskur þingmaður sem gerði  framangreinda skýrslu og við umfjöllun hennar í viðkomandi nefnd kom Þuríður Backman, fyrrverandi formaður sendinefndar Íslands á þingi Evrópuráðsins, á framfæri ýmsum athugasemdum um staðreyndir máls.
Þuríður var fylgjandi málshöfðun á hendur Geir H. Haarde á sínum tíma og má gagnrýna hana fyrir það, ef menn eru þeirrar skoðunar að málshöfðun hafi verið röng, en síður fyrir hitt að koma á framfæri ýmsu sem lýtur að staðreyndum málsins við umfjöllun Evrópuráðsins. Hið síðara hefur hins vegar orðið ofan á í umræðu síðustu daga og er það í anda íslenskrar umræðurhefðar (því miður) að gera einn ábyrgan fyrir afglöpum margra.

Út á það gengu einmitt málaferlin gegn Geir H. Haarde, að gera einn mann ábyrgan -  „að einn maður átti nú að svara -  með fangelsisdóm yfir höfði sér - fyrir allt sem úrskeiðis hafði farið í áralöngum aðdraganda hrunsins þar sem fjöldi manns hafði komið að verki, með beinum eigin aðgerðum eða aðgerðarleysi sínu. Í mínum huga er undirgefni  við valdið engu síður ámælisverð en sjálf valdbeitingin." (Tilvitnun í grein sem ég skrifaði í Fréttablaðið 19. Janúar 2012).

Í þeirri umræðu sem nú fer fram segjast margir þeirra sem studdu málaferlin gegn Geir H. Haarde ekki hafa átt annarra kosta völ og vísa í lögin um Landsóm og niðurstöður nefndar sem Alþingi skipaði til að far yfir skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.

Þetta eru hins vegar haldlítil rök því álitsgerð þessarar nefndar gekk fyrst og fremst út á að bæta vinnubrögð á Alþingi og  hefði mönnum  verið hollara að einbeita sér að þeim þætti.  Atli Gíslason, formaður nefndarinnar, var óþreytandi að benda á einmitt þetta.  Hvað síðan lögin áhrærir þá hljótum við að skoða það samhengi sem lagabókstafur hverju sinni er nýttur til, og hér var samhengið pólitískt. Krafist var fjársekta og fangelsisdóms yfir stjórnmálamanni, sem ekki verður sagt annað um en að sé vandaður og heiðarlegur einstaklingur sem alltaf hafi viljað landi sínu og þjóð allt hið besta. Ég hef áður gert grein fyrir því hve fáránleg sjálf ákæran var. Lögin um Landsdóm geta aldrei orðið skálkaskjól í réttlætingu þessara málaferla, þar verður að skoða ískalt sakargiftirnar sem fram voru bornar og þeirrar refsingar sem krafist var. 

Í blaðagreininni sem áður er vitnað til í Fréttablaðinu 19. janúar 2012 segir m.a. : „Ég hef orðið var við að margir halda að um það sé að ræða að Landsdómur fáist við rannsókn á því sem gerðist á landamærum glæpsamlegra ásetningsbrota annars vegar og pólitískra axarskafta hins vegar. Svo er ekki. Það eru axarsköftin sem eru til skoðunar og auk þess þröngt afmökuð í aðdraganda hrunsins. Hins vegar er ekki að undra að fólk haldi að miklu meira sé undir, því krafist er fjársektar og fangelsisvistar, allt að tveimur árum. Í vitund manna og þegar málið verður skoðað í sögulegu lósi síðar meir er hætt við að það taki á sig stærri mynd. Sú mynd er á ábyrgð okkar sem að þessu stöndum."

Í umræðu um þetta mál þarf að vanda sig. Ömurlegt er að sjá hrunverjana hneykslast, þá sem sátu á þingi eða voru utanþings og framfylgdu pólitískri kreddu, og bjuggu þannig í haginn fyrir mesta hrun Íslandssögunar. Það var rangt að ákæra Geir H. Haarde fyrir þær sakir sem á hann voru bornar. Það var líka rangt að koma í veg fyrir að kæran yrði afturkölluð þegar ljóst var að fyrir því var að myndast meirihluti á þingi um áramótin 2011/2012. Þetta skulum við ræða en jafnframt forðast að gera einn einstakling ábyrgan fyrir afglöpum margra.

Þuríður Backman gerir grein fyrir því sem gerðist á þingi Evrópuráðsins hvað þessi mál snertir í grein hér á síðunni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/thuridur-backman-skrifar-ad-gera-rang-faerslur-ad-sannleika 

Ég vísa hér í slóðir á greinar sem ég skrifaði um málið í janúar árið 2012 þegar ég lagðist á sveif með þeim sem vildu afturkalla ákæruna á hendur Geir H. Haarde.

Skrif á heimasíðu: Ákæran gegn Geir:  https://www.ogmundur.is/is/greinar/akaeran-gegn-geir

Fréttablaðið: Mistök á að leiðréttahttps://www.ogmundur.is/is/greinar/mistok-a-ad-leidretta

Morgunblaðið: Við gerðum rangthttps://www.ogmundur.is/is/greinar/vid-gerdum-rangt