Fara í efni

Látum ekki staðar numið upp með kaupið

Birtist í Mbl
Ákvörðun Alþingis um sérstök skattfríðindi alþingismanna hefur vakið mikla reiði í landinu. Samtök launafólks hafa mótmælt kröftuglega og krafist endurskoðunar. Í sama streng hafa tekið leiðarahöfundar dagblaða og þjóðarsálin logar. Allir þessir aðilar benda réttilega á að ein lög eigi yfir alla að ganga og þegar svo sé komið að sá, sem setur þjóðinni allri leikreglur, hafi sérstaka fyrirvara á gagnvart sér sjálfum þá sé illa komið.

Í þessu máli kristallast umræða síðustu mánaða um kjara- og skattamál. Við erum minnt á nauðsyn þess að allir borgi sinn skerf en vísi ekki ábyrgðinni og klyfjunum yfir á aðra. Ráðamenn hafa nú um nokkurt skeið tekið undir kröfur frá verkalýðshreyfingu og öðrum aðilum um að nauðsynlegt sé að gera stórátak í skattamálum enda talið að ríkissjóður hefði úr ellefu milljörðum meira að spila ef allir greiddu sitt. Nú hefur Alþingi fengið skýr skilaboð um að þjóðin fylgist með störfum þess og gerir kröfur til þess að menn þar á bæ séu sjálfum sér samkvæmir í þessu efni.

Þá er vitað að misrétti á milli hárra og lágra, karla og kvenna er aukið og viðhaldið með alls kyns duldum hækkunum sem hvergi koma fram í launatöxtum. Dæmi um þetta eru einmitt hinar umræddu skattfríu fjörutíu þúsundir ætlaðar þingmönnum. Þar er um dæmigerða dulda launahækkun að ræða. Þetta er dæmi um þann feluleik sem heldur láglaunafólki niðri og á ekki að líðast undir neinum kringumstæðum.

 

Umræða um tekjuskiptinguna

En við eigum ekki að láta hér við sitja. Við eigum að halda áfram með þessa umræðu. Nú þarf að skoða tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu opinskátt og heiðarlega. Og hér sakar ekki að menn líti í eiginn barm. Það vekur umhugsun að þegar fréttamaður á Stöð tvö sem fjallaði um þessi mál á fagmannlegan hátt var spurður að því hvað hann hefði í laun sjálfur svaraði hann því til að það mætti hann ekki upplýsa, það væri trúnaðarmál.

Ekki kann það góðri lukku að stýra þegar mönnum er beinlínis þröngvað til að þegja um eigin kjör. Fyrir ofan fréttamanninn standa síðan stjórnendur og enn ofar eigendur á himinháum kjörum. Þar erum við komin inn í heim fólks sem hefur falin og dulin kjör sem stranglega er bannað að ræða um. Þá sjaldan að fáum við innsýn í þennan heim hátekjufólksins, fjármálaspekúlantanna, er þegar skattskráin er kynnt. Þá fáum við vísbendingu um kjörin, eða ef til vill aðeins það sem mönnum hefur þóknast að gefa upp til skatts.

Nú er það svo að okkur kemur það öllum við hvernig við skiptum sameiginlegum þjóðartekjum á milli okkar. það er nefnilega samhengi á milli himinhárra launa annars vegar og hraksmánarlega lágra launa hins vegar. Það samhengi heitir kjaramisrétti. Þeim mun meira sem hátekjufólkið tekur til sín þeim mun minna er til skiptanna fyrir hina.

Og hvað með siðferðið? Nú væri hollt að hinir stóryrtu en vel höldnu leiðarahöfundar dagblaðanna leggðust í ofurlitla sjálfsgagnrýni og rifjuðu upp hvernig málgögn þeirra hafa látið þegar láglaunaliðið hefur ætlað að knýja sitt fram. Þá væri og ráð að hinn kjarnyrti framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, sem staðið hefur á öllum bremsum gagnvart láglaunafólki árum saman, settist, þótt ekki væri nema í örfáar mínútur, fyrir framan spegil í einlægu eintali sálarinnar áður en hann næst reiðir siðferðisvöndinn á loft.

 

 

 

Verkalýðshreyfingin sýni fordæmi

Kjör talsmanna verkalýðshreyfingarinnar eiga ekkert að vera undanskilin í þessari umræðu. Það á við um talsmenn hreyfingarinnar, bæði kjörna og ekki síður starfsmenn sem undanfarna daga hafa lagst í miklar siðferðilegar vangaveltur. Það hljóta að vera gerðar kröfur til okkar þegar fjallað er um kjaramisréttið í þjóðfélaginu, ekki síst þegar við höfum stór orð um aðra. Hvernig er þessu varið í okkar eiginn ranni? Ef við erum ekki sjálfum okkur samkvæm er hætt við að einhver fái óbragð í munninn.

Staðreyndin er sú að það er vitlaust gefið á Íslandi í dag. Svo hrikalega vitlaust er gefið að þúsundir fjölskyldna eru bókstaflega að kikna undan byrðunum. Við fáum upplýsingar frá Danmörku um fólk á helmingi hærra kaupi en greitt er fyrir samsvarandi störf hér heima. Við fáum staðfestingu á launaóstandinu hér í áróðursbæklingum sem ríkisstjórnin sendir nú út um allan heim til að sýna fram á láglaunaparadísina Ísland. Það er að segja paradís fyrir erlenda fjármálaspekúlanta.

 

Krafan er um hið sama og til ráðherra

Nú hafa talsmenn verkalýðshreyfingarinnar talað. Krafan fyrir láglaunafólkið er sú sama og ráðherrum hefur verið skammtað af kjaradómi - sérstöku þjónustutæki íslenskra forréttindahópa til langs tíma. Nú er spurningin þessi: Er ekki rétt að láta kröfuna standa jafnvel þótt ráðherrahækkunin yrði dregin til baka og ákvörðunin um hinar skattfríu spesíur líka? Er ekki kominn tími til þess að launafólk taki höndum saman og haldi áfram því verki sem menn kváðust ætla að byrja á með svokallaðri þjóðarsátt árið 1990?

Þá myndaðist víðtæk samstaða um að hefjast handa um uppbyggingarstarf í launataxtakerfinu samhliða því sem gerð yrði uppstokkun á ýmsum sviðum efnahagslífsins. Sú tilraun stóð í fáeina mánuði en fjaraði síðan út. Frá þessum tíma hefur launafólk meira og minna öslað um í fjörugrjótinu á sama tíma og fjárgróðamenn hafa hagnast sem aldrei fyrr. Þessu þarf launafólk að snúa við. Og þar á ég við allt launafólk.