Fara í efni

LAUNAMUNUR KYNJA ER EKKI EINI LAUNAMUNUR SEM VERT ER AÐ SKOÐA

Í morgunútvarpi í dag var fjallað um fæðingarorlof karla. Rætt var við hæstráðendur í banka. Spurt var hver ástæða væri fyrir því að karlar fari síður í fæðingarorlof en konur en sérstaklega var fjallað um hátekjuhópinn. Var það vegna launataps? Það getur verið erfitt að sjá á eftir þeim peningum sem tapast, eða hvað? Vegna þaks sem er á greiðslum fer maður með tvær milljónir á mánuði niður í 480 þúsund en viðmiðunarþakið á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er 600 þúsund og er að hámarki greidd 80% af því. Þetta var fullkomlega eðlileg spurning og svarið var líka heiðarlegt. Bankamaðurinn sagði aðra þætti ráða en launatapið. Mér varð þó hugsað til þess hve langt við erum komin frá heimi lágtekjufólksins, launamannsins sem er með aðeins brot af því sem hátekjukarlinn bæri úr býtum í fæðingarorlofi þrátt fyrir launaskerðingu!

Það sem hins vegar kórónaði þessa umræðu voru þau orðaskipti sem fylgdu í kjölfar þessa. Er launamunur í bankanum – það er á milli kynja? Svar: Eini munurinn sem vert er að skoða er launamunurinn á milli kynja, hvort sömu laun eru greidd fyrir sambærileg störf...

Þennan launamun á vissulega að skoða enda eindregin krafa reist um það og nýlega eftirminnilega undirstrikuð af hálfu þjóðarinnar.Undir hitt get ég ekki tekið að þetta sé eini launamunurinn sem vert sé að skoða. Launamunurinn í þjóðfélaginu er að færast í ískyggilegt misréttishorf. Bilið á milli láglaunafólks og hátekjufólks er orðið að risastórri gjá sem aðskilur þjóðina. Aðskilnaðargjár eða aðskilnaðarmúrar eru ekki aðeins ranglátir. Þeir eru hættulegir. Þeir svipta okkur því sem við eigum sameiginlegt. Það er fátt sem sameinar þann sem fær greiddar tvær milljónir króna á mánuði fyrir vinnu sína og hinn sem fær eitt hundrað þúsund krónur, annað en jörðin sem þeir ganga á. Þótt þeir búi í sama landi lifa þeir ekki í sama samfélagi. Að vísu sameinar velferðarþjónustan okkur öll – ennþá. Að henni eigum við öll jafnan aðgang. Þegar við erum orðin mikið veik og lögst á sjúkrahús veit enginn lengur hvernig við höfum þénað um dagana. Velferðarþjónustan er þannig sameinandi. Þetta skiptir miklu máli. Það skiptir máli að við séum ein þjóð í landinu. Sameinuð þjóð getur fengið miklu áorkað. Sundrað samfélag morknar innanfrá. Þess vegna skiptir velferðarkerfið máli. Og þess vegna er vert að skoða launamuninn. Ekki bara á milli kynja, heldur allra, karla og kvenna.