Leiðbeinandi í lýðræði
Fjölmiðlar vestanhafs gera mikið úr því þessa dagana hve mikið Bush Bandaríkjaforseti leggur upp úr því að honum sé ætlað það sögulega (trúarlega?) hlutverk að boða Írökum lýðræði að vestrænni fyrirmynd. Nú hefur verið skýrt frá því að John Negroponte verði skipaður sendiherra í Írak. Hann er núverandi sendiherra BNA hjá Sameinuðu Þjóðunum. Bandarískir fjölmiðlar rifja nú upp feril þessa manns. Staðnæmast þeir margir hverjir við þann tíma er hann gegndi stöðu sendiherra lands síns í Mið-Ameríkuríkinu Hondúras á níunda áratug síðustu aldar. Samkvæmt frásögn í bandaríska blaðinu Baltimore Sun, lét bandaríska leyniþjónustan CIA mikið að sér kveða í Hondúras í sendiherratíð Negropontes, þjálfuðu m.a. sérsveitir, sem stunduðu mannrán og gegndarlaust ofbeldi með grimmilegum pyntingum. Þegar þessi mál hafi borið á góma á Bandaríkjaþingi, herma fjölmiðlar, hafi maður gengið undir manns hönd að hylma yfir með hinum sérþjálfuðu ofbeldismönnum og hafi sendiherrann þáverandi gegnt þar lykilhlutverki.Þetta er maðurinn, sem nú er fengið það mikilvæga hlutverk að verða Írökum fyrirmynd um vönduð og eftirsóknarverð vinnubrögð. Og ekki nóg með það: Honum er ætlað að gerast leiðbeinandi í lýðræði.