LEIÐSÖGUMAÐURINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 22/23.08.15.
Einu sinni heyrði ég af ungri leiðsögukonu sem fór með hóp ítalskra ferðamanna um Ísland. Verkefnið var ekki auðvelt. Allan þann tíma sem hópurinn dvaldist hér á landi var úrkoma svo mikil að ekki sást lengra en fáeina metra frá rútunni sem flutti ferðalangana til að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða. Og eins og við vitum þá þarf Ísland gott skyggni.
Ef vel á að vera þarf vissulega meira til; að aðkomumenn fái fræðslu um landið, hvernig það varð til, hvernig það byggðist og um mannlífið fyrr og nú, fái með öðrum orðum að kynnast víddum sem gera land og þjóð áhugaverð.
En þetta ferst okkur gestgjöfunum misjafnlega vel úr hendi. Það sannaðist í fyrrnefndri heimsókn Ítalanna. Það fór nefnilega svo - eða þannig heyrði ég söguna-, að svo kyngimögnuð hafi frásögn leiðsögukonunnar verið, að ferðalangarnir urðu hreinlega uppnumdir og kváðust aldrei hafa komið til eins heillandi og spennandi lands og Íslands. Höfðu þeir þó ekkert séð!
En þeir höfðu hins vegar leiftrandi frásögn að styðjast við, áhugann og ímyndunaraflið. Það fylgdi sögunni að minningin lifi enn í huga hinna ítölsku ferðalanga.
Aðra litla sögu kann ég um mikilvægi leiðsögumannsins. Hún er frá í sumar. Við erum stödd í Víkingasafninu í Reykjanesbæ. Þar er að finna skipið sem hagleikssmiðurinn Gunnar Marel smíðaði og sigldi, ásamt áhöfn sinni, þöndum seglum alla leið til Vesturheims, Vínlands og Nýju Jórvíkur á árinu 2000.
Leiðsögumaður kemur í safnið með hóp bandarískra ferðamanna. Þar eru á ferð verkfræðimenntaðir eftirlaunamenn. Leiðsögumaðurinn segir frá fyrri tímum og þeim munum sem eru til sýnis. Að lokum snýr hann að skipinu góða: „Í því eru fimm þúsund handsmíðaðir naglar, sjáiði þennan!" Og svo tók við leiftrandi frásögn um lögun skipsins og smíðis- og verkvit forfeðra okkar. „Og þetta tókst þeim fyrir meira en þúsund árum, og hafði þó enginn farið í háskóla!" Nú var hlegið.
Eftir stendur þetta: Á ferðamannalandinu Íslandi er orðið til nýtt lykilstarf; hefur reyndar verið þýðingarmikið lengi, en nú þegar ferðamennskan er orðin ein helsta atvinnugrein okkar skiptir ekki litlu máli hverjir taka á móti Ítölunum og Ameríkönunum og öllum hinum. Það skiptir máli að hágæðafólk taki á móti gestum lands og þjóðar fyrir okkar hönd; fólk sem talar af þekkingu og viti og býr yfir þeim eiginleikum að geta gert lítinn nagla að ævintýri og rigningarsortann svo spennandi að allt það sem handan hans er, hljóti að vera ómótstæðilegt.
Í formála Saxo að sögu Dana, frá því um 1200, segir að hún hefði aldrei verið skrifuð án aðstoðar frá Íslandi því það sem þar skorti á í lífsgæðum hafi menn bætt upp með viti. Ætli það eigi ekki við enn í dag að vitið skipti máli þegar land og þjóð koma fyrir gestsauga.