Fara í efni

LEIÐSÖGUMENN VÍSA VEGINN...


Að mörgu leyti er ég sammála því sem formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, þau Geir H. og Þorgerður K. sögðu fyrir síðustu kosningar. Nefnilega að þegar öllu væri á botninn hvolft væri traust efnahagsstjórn brýnt velferðamál. Mér finnst þetta miklu skynsamlegra sjónarmið en við heyrðum frá forsætisráðherranum í vor leið þegar hann lét að því liggja að besta efnahgsráðið væri að gera ekki neitt! Hann fylgdi þeirri hugsun eftir í verki og aðhafðist ekki. Það heitir á fræðimáli að hafa samræmi í teoríu og praxis.
En varðandi efnahaginn og velferðina þá tel ég að traust efnahagsstefna og ábyrgð í velferðarmálum fari saman. Það sé einfaldlega ekki hægt að byggja upp öflugan efnahag án þess jafnframt að tryggja félagslegt réttlæti. Einmitt það hefur verið vanrækt á Íslandi á undanförnum árum.
Menn velta því nú fyrir sér hvort þau Geir H. Og Þorgerður K. ætli að nota sömu slagorðin - og kannski líka sömu plakötin - fyrir næstu kosningar. Það fer eflaust eftir því hve vel þeim þykir hafa tekist til undir þeirra leiðsögn á þessu kjörtímabili og á undangengnum kjörtímabilum sem þjóðin hefur notið leiðsagnar og verkstjórnar Sjálfstæðisflokksins.