Fara í efni

LEITAÐ AÐ RÖKUM LÍFSINS

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 23/24.06.18.
Flestum leikur hugur á að finna tilganginn í tilverunni, og jafnvel þótt menn komi ekki auga á hann, vilja þeir engu að síður skilja hvernig lífið varð til og hvernig það þróaðist.

Sumir eru ákafari leitendur en aðrir.

Það var fyrsta lexían sem mér fannst ég læra af lestri nýútgefinnar bókar eftir Guðmund Eggertsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands. Rök lífsins er heiti bókarinnar.

Hún fjallar um erfðafræðirannsóknir allt frá Aristótelesi til vorra daga. Hvers vegna Aristotelesi? Var hann ekki fyrst og fremst heimspekingur, meira að segja sjálfur heimspekingurinn, sem ásamt læriföður sínum Platóni, skapaði grunninn fyrir heimspeki Vesturlanda næstu rúmlega tvö þúsund árin? Haft hefur verið á orði að síðari tíma heimspeki sé fyrst og fremst neðanmálsgreinar, samþykki eða andmæli eftir atvikum, við hugsun þessara andans jöfra frá fjórðu öld fyrir Krist.

Vissulega var arfleifð Aristotelesar fyrst og fremst heimspekihugsun hans, en í bók sinni um rök lífsins fræðir Guðmundur Eggertsson okkur um það að alldrjúgur hluti vinnudags Aristótelesar, og í samræmi við það umfang ritverka hans, hafi snúið að líffræði.

Guðmundur tiltekur fjögur rit sérstaklega, Historia animalium, þar sem safnað hefur verið saman gífurlegum fróðleik um dýr, líkamsgerð þeirra, líffærafræði, lifnaðarhætti og atferli; De partibus animalium, sem fjallar annars vegar um aðferðafræði og hins vegar um líffærafræði dýra, De incessu animalium, sem fjallar um hreyfingar dýra og síðan yfirgripsmesta ritið, De generatione animalium, sem fjallar um flesta þætti líffræðinnar.
Heimspekingurinn og kennarinn vildi með öðrum orðum vita allt, skilja allt sem snerti tilveru okkar.

Lexía númer tvö er áminningin um að hinir miklu gerendur sögunnar höfðu tíma til að sinna öllu. Þetta höfum við líka lært annars staðar frá. Afkastamestu menn mannkynssögunar höfðu nefnilega tíma í allt, lesa bækur, ganga á fjöll, njóta tónlistar og rýna í Aristóteles. En skilyrðin voru ekki alltaf hagstæð.

Upphafsmaður nútíma erfðafræði segir Gumundur að hafi verið Austurríkismaðurinn Jóhann Mendel. Hann var af efnalitlu bændafólki kominn og þar sem fjárráð heimilsins dugðu ekki fyrir langskólanámi, ákvað hinn ungi Mendel að ganga í klaustur hjá vísindalega sinnuðum ábóta. Hann endaði sjálfur sem slíkur og þurfti að sinna rekstri klausturs jafnframt því sem hann gerðist frumkvöðull í mannkynssögunni. Þetta var á nítjándu öldinni.

Þriðja lexían snýr að Guðmundi Eggertssyni sjálfum. Hvað knýr hann til að skrifa alþýðurit um sögu erfðfræðinnar, mann sem nálgast háan aldur og  á að baki ótal ritsmíðar á háfræðilegum grunni?

Í inngangi að bók sinni segir hann okkur að hann hafi viljað segja  lesendum sínum frá rannsóknum merkra frumherja, því þar með megi ætla að við öðlumst skilning á sögu erfðafræðinnar. Frásagnir af frumherjunum séu „skrifaðar fyrir fróðleiksfúsan almenning en geta vonandi einnig orðið sérfróðum til nokkurs gagns og gamans."

Þarna finnum við fyrir anda upplýsingarinnar, Magnúsi Stephensen, sem öllum mönnum fremur hamaðist við það upp úr aldamótunum 1800 að uppfræða landslýðinn um gagn og nauðsynjar í tilverunni. Atorka hans átti sér engin takmörk.

Og þar erum við komin að fjórðu og lokalexíunni af bók Guðmundar Eggertssonar en hún lýtur að atorkunni og dugnaðinum, sem sumir einstaklingar búa yfir. Hvað skýrir þennan kraft? Er ekki líklegt að brennandi löngun til þess að skilja tilveruna og þá einnig örva aðra til að leita eftir slíkum skilningi, sé orkugjafi í sjálfu sér, eins konar eldsneyti andans; og að þetta skýri jafnframt  hvers vegna sumt fólk býr yfir, að því er virðist, óþrjótandi orku og reynist okkur öllum hinum svo gjöfult?

Spyr sá sem ekki veit, en einhvern veginn hljómar þetta í góðu samræmi við rök lífsins.