LÍFEYRISPARNAÐUR OG BANKABRELLAN
Margir hafa farið illa út úr söfnun viðbótarlífeyrissparnaðar hér á landi vegna óvarlegra fjárfestinga sumra sjóðsstjóra þeirra og tapið stórt hjá sumum. Mér fannst vera í farvatninu fall á þessum sjóðum í árslok 2007 og hvatti þá fólk til að setja þetta allt saman yfir á 100% verðtryggða reikninga og í dag er þetta fólk vel sett. Þess vegna hvet ég alla sem leggja þetta framlag sitt til hliðar að koma því strax í öruggt skjól í 100% verðtryggða reikninga og sýnist mér að sumir bankarnir bjóði allgóða nafnvexti allt upp í 21.9%. Bankarnir auglýstu grimmt og höfðu Avon sölumenn á göngum Kringlunnar svo mánuðum skipti að fá fólk inn í þessa gildru með gylliboðum en núna sitja landsmenn uppi með tap sem ekki voru í öruggu skjóli. Það sama er upp á teningnum á lífeyrissjóðunum sjálfum. Þeir hafa tapað stórt og þarf að setja þeim nýjar reglur hvað varðar útlán til kaupa á fyrirtækjabréfum að sömu reglur gildi um það eins og hinn almenna félagsmann að veð skuli fylgja ekki í hlutabréfum heldur fasteignum með sama veðsetningarhlutfall og félagsmenn og á ábyrgð stjórnarmanna, að öðrum kosti verði ekki lánað. Með nýju Íslandi þurfa að koma nýjar reglur í viðskiptalífi og Alþingi þarf að endurrita upp á nýtt lög um hlutafélög og persónuábyrgð eigenda með háan höfuðstól í byrjun lágmark 5.000.000 kr og starfsábyrgðartryggingu tryggingafélags. Hverjum dettur í hug að hlutafélag ljósriti sjálft sig til að undirrita lánalínur hjá bönkunum, fara í þrot og stofna bara annað úr rústunum með nýja kennitölu og ruslið skilið eftir. Þetta er ekki nýja Ísland og með nýjum heilbrigðum lánareglum bankanna minnka útlánatöp. Vanskil á vörslusköttum er hegningarlagabrot en ekkert er gert í því, hvorki af hálfu bústjóra né Fjármálaráðuneytis hingað til að kæra þau mál til lögreglu. Einkahlutafélög hafa sprottið upp eins og gorkúlur um land allt vegna einyrkja og greiða því ekki sjálf útsvar og sveitafélögin verða af útsvarstekjum sem setja þau í vanda en eigendur þessara félaga fá alveg sömu þjónustu og hinir sem greiða fyrir þá að hluta. Þessu þarf að breyta í nýju Íslandi allir undir árar í bátnum. Talið er að 110 milljarða vanti í uppgjör Landsbankans í Bretlandi en það er verðmiðinn á Westham fótboltaliðið hans Björgólfs gamla sem sagðist ekkert eiga eða hvað? Samson Properties er vel stætt og á nægar eignir og ekki er það í greiðslustöðvun. Sonurinn var að selja samheitalyfjaverksmiðju og gæti nýtt það fé til að endurgreiða inn í þrotabú Landsbankans því báðir hafa fengið tugi milljarða í arðgreiðslur á hverju ári frá kaupum hans af ríkinu. Er þetta ekki bara sanngjarnt?? Keppinautur hans á samheimalyfjamarkaði ein ríkasta fjölskylda Þýskalands lét glepjast af trú sjóðsstjóra vogunarsjóðs um að Wolksvagen hlutabréf myndu hríðfalla í verði en sportbílaforstjóri Porce gaf þeim langt nef og keypti stórt í skjóli nætur um helgi og vogunarsjóðurinn varð allt í einu 2600 milljarða evra í mínus og þurfti þýski auðjöfurinn að afhenda lykla af þrem bestu fyrirtækjum sínum vegna þáttöku í Gumball rallinu til að auka fé sitt. Öruggt má telja að þessi fjölskylda muni ekki koma nálagt vogunarsjóðum á næstunni. Alþingi þarf að banna með öllu alla slíka sjóði hér á landi framvirka gjaldeyrissamninga og aðra þá gjörninga sem gætu skapað þrýsting á gengi krónunnar og best væri að EU hysjaði upp um sig buxurnar og gerði slíkt hið sama því eyðileggingarmáttur þessara sjóða geta verið hamfara líkastir næst á eftir styrjöld.
Þór Gunnlaugsson