Fara í efni

LÍFEYRISSJÓÐUR STARFSMANNA RÍKISINS MEÐ HAGKAUP UNDIR SMÁSJÁ

Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins segist í bréfi sem mér barst í dag munu fylgjast með framvindu áfengissölu Hagkaupa og vísar í eigendastefnu LSR þar sem segir m.a. „að sjóðurinn geri kröfu um að félög sem hann fjárfestir í sýni ábyrgð gagnvart félagslegum þáttum, umhverfislegum þáttum og að starfað sé í samræmi við góða stjórnarhætti. Jafnframt hvetur sjóðurinn félög til að sýna ábyrgð gagnvart félagslegum og umhverfislegum þáttum í starfsemi sinni.“

Málið hafi þegar verið tekið upp við Haga hf sem heldur utan um eignarhald á Hagkaupum en þar eru lífeyrissjóðirnir stærstir eignaraðilar.

Einnig er minnt á það í yfirlýsingu LSR að lagaumhverfi áfengissölu í landinu sé til endurskoðunar en ósagt er látið hvort þar er átt við áform Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra, sem vill styrkja lýðheilsustefnu stjórnvalda, eða Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra, sem hefur áform um að veikja þá stefnu með því að auðvelda sem mest aðgengi að áfengi, þar á meðal með netpöntunum hjá Hagkaupum og öðrum dreifingaraðilum.

Stjórn LSR hefur þegar tekið málið upp við Haga hf og er það þakkarvert.

Svar LSR við bréfi sem ég skrifaði sjóðsstjórninni hinn 28. ágúst síðastliðinn barst mér í dag.

Eftirfarandi er bréf mitt til LSR frá í ágústlok og síðan svarið frá í dag.

Meðfylgjandi erindi óska ég eftir að verði komið á framfæri við stjórn og varastjórn LSR.
Ágæti framkvæmdastjóri og ágæta stjórn LSR.

Erindi mitt krefst ekki málalenginga en sem fylgigagn sendi ég vefslóð á grein sem ég hef birt opinberlega. Þar er varpað ljósi á málaleitan mína.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 13,45% í Högum (A deild 11,37% og B deild 2,08%) samkvæmt vefsíðu Haga 27/8 sl. Hagar eiga svo aftur verslunina Hagkaup.

Stjórnendur Hagkaupa hafa lýst því opinberlega yfir að til standi á næstunni að hefja netsölu með áfengi og er henni lýst þannig að viðskiptavinurinn fái áfengið annað hvort sent heim til sín eða hafi viðkomu í versluninni og fái áfengið afhent þar. Með öðrum orðum, Hagkaup er að taka upp smásölu á áfengi en hún er sem kunnugt er óheimil samkvæmt landslögum. Einkaleyfi á smásölunni hefur ÁTVR.

Sem félagi í LSR mótmæli ég því að fyrirtæki í eigu sjóðsins stundi ólöglega starfsemi af þessu tagi og sem félagi í íslenska samfélaginu mótmæli ég því að grafið sé undan þeirri lýðheilsustefnu sem samþykkt hefur verið á Alþingi og allar helstu heilbrigðisstéttir landsins hafa fylkt sér um.

Ég óska hér með eftir því að erindi mitt verði formlega tekið fyrir á stjórnarfundi hið fyrsta og er tillaga mín sú að LSR komi á framfæri mótmælum við Haga og Haugkaup og krefjist þess að fallið verði frá ofangreindum markmiðum. Verði forsvarsmenn Haga/Hagkaupa ekki við þeim óskum dragi LSR þegar í stað allt hlutafé sitt úr Högum.
Ég óska eftir því að fá staðfestingu á móttöku þessa erindis svo og efnislegt svar þegar stjórnin hefur fjallað um það.

Hér er vefslóðin á áður nefnda grein sem fylgir erindi mínu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/adgerdir-heilbrigdisstetta-og-adgerdaleysi-lifeyrissjoda

Með kveðju,
Ögmundur Jónasson,
félagi í LSR
kt. 170748-4099“

Og LSR svarar í dag sem áður segir:

„… Stjórn LSR hefur tekið erindi þitt fyrir og fjallað um þetta mál almennt. Í framhaldi af umfjöllun og skoðun stjórnar hefur eftirfarandi yfirlýsing verið gefin út:

„LSR hefur átt samtal við forsvarsmenn Haga hf. í kjölfar þess að nýstofnað dótturfélag þess hefur hafið sölu áfengis í gegnum netverslun sem þjónustuð er af verslunum Hagkaups.

LSR á rétt um 13,5% eignarhlut í Högum hf. Í eigendastefnu LSR segir m.a. að sjóðurinn geri kröfu um að félög sem hann fjárfestir í sýni ábyrgð gagnvart félagslegum þáttum, umhverfislegum þáttum og að starfað sé í samræmi við góða stjórnarhætti. Jafnframt hvetur sjóðurinn félög til að sýna ábyrgð gagnvart félagslegum og umhverfislegum þáttum í starfsemi sinni.

Ýmsir hafa gagnrýnt þessa starfsemi Haga hf., þar á meðal samtök heilbrigðisstétta og forvarnarsamtaka, sem telja að með henni sé verið að auka aðgengi að áfengi, sem getur leitt til aukinna lýðfræðilegra og félagslegra vandamála. LSR deilir þessum áhyggjum og kallaði því eftir samtali við Haga hf. þar sem sjóðurinn áréttaði að félagið, í ljósi umfangs þess í íslensku efnahagslífi, beri mikla ábyrgð í sinni starfsemi. Sérstaklega ef ráðist er í aðgerðir á borð við þessar, þar sem augljóslega er reynt á þanþol bæði laga og samfélagslegrar ábyrgðar.

Fyrir liggur að lögmæti starfsemi netverslana með áfengi er til rannsóknar hjá yfirvöldum, ásamt því sem verið er að endurskoða lagaumhverfi áfengissölu í landinu. LSR mun áfram fylgjast með framvindu þessa máls og opna á frekara samtal við Haga hf. eftir því sem þurfa þykir.“

---------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.