Fara í efni

LÍKGEYMSLUGJALDIÐ

 

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 12/13.04.25.


Það er næsta augljóst að líkgeymslugjaldið, sem mig langar til að fara nokkrum orðum um, er ekki eins stórt að umfangi og ýmis önnur skattheimtu- og útgjaldamál hins opinbera. Fjarri því.

Það er til dæmis langur vegur frá því að vera einu sinni samanburðarhæft við fyrirsjáanlegar skattahækkanir og einnig fyrirsjáanlegan niðurskurð vegna aukinna hernaðarútgjalda Íslendinga. Allt er þar fyrirsjáanlegt því ríkisstjórnin hefur marglýst því yfir, og það meira að segja með miklum tilfinninga-tilþrifum, að Íslendingar muni fara að dæmi annarra Evrópuþjóða og hlíta boði Washington um að stórauka hernaðarútgjöld sín.
Þetta er náttúrlega stórmál og þá bæði útgjöldin og undirgefnin.

En hvað sem líður öllum samanburði ætla ég að leyfa mér að halda því fram að líkgeymslugjald sé á sinn hátt stórt mál. Ekki vegna þess að það komi til með að skipta sköpum í ríkisfjármálunum þótt aldrei skuli vanmetið að margt smátt þar getur gert eitt stórt. Heldur vegna hins, að það hefur samfélagslega þýðingu.

En hvað er þá líkgeymslugjaldið? Því er auðlýst. Það er einfaldlega gjald sem verður innheimt fyrir geymslu á látnu fólki. Ef jarðarför dregst á langinn eins og stundum hendir ef fjölskylda hins látna er búsett erlendis eða veikindi valda töfum á því að útför geti farið fram, þá verður innheimt leiga fyrir legupláss hins látna í líkhúsi.

Ekki hefur komið fram hve hátt gjaldið verður en ég minnist þess að þegar málið kom til umræðu í tíð fyrri ríkisstjórnar, að stefnt væri að „hóflegu gjaldi“.

Í rauninni þarf engum að koma þessi gjaldheimta á óvart því hún er í samræmi við það hvert stjórnmálin stefna nú samfélaginu. Öll samskipti manna eru á góðri leið með að verða á grundvelli viðskiptasambands. Peningar eru miðillinn, verð getur verið hátt eða lágt, sanngjarnt eða ósanngjarnt, en fyrir allt skal rukkað. Hjálpsemin birtist þá í hófsömu verði, afslætti, jafnvel undanþágu frá gjaldi eins og tíðkast á sumum sviðum þar sem gjald er innheimt, en börn og aldraðir þá undanþegnir. En almenna reglan er greiðsla fyrir veitta þjónustu eða vöru. Með öðrum orðum, allt verður að vöru.

En þá er líka komið að alvöru málsins. Erum við samþykk því að samskipti fólks verði með þessum hætti, aldrei hægt að gera eitt né neitt án þess að það sé fært til bókar, debet eða kredit? Ef stofnun vill veita samstarfsaðila aðstoð eða sýna liðlegheit, þá er það vissulega hægt, en það skuli menn vita að það kostar.

Ég man það vel þegar samstarf ríkisútvarpsstöðvanna á Norðurlöndum tók að færast í þennan farveg. Ég var þá starfandi á Ríkisútvarpinu. Við gerðum allt fyrir norrænar systurstofnanir og nutum aftur hjálpsemi þeirra út í hið óendanlega.
Bókhaldsregluhugsunin hélt innreið sína um miðjan níunda áratuginn og eins og gerist í tískunni almennt þá kom þessi breyting til í öllum stöðvunum nær samtímis. Vissulega var það svo þegar ég um þetta leyti gerðist fréttamaður Sjónvarpsins á Norðurlöndunum, að ég naut eftir sem áður ríkulegrar aðstoðar í störfum mínum frá öllum norrænu systurstofnunum. En ég fór að skynja að greiði gerður okkur varð að tölu í dálkum bókhaldsins.

Gætum við ekki sammælst um það sem samfélag að setja bókhaldshugsuninni einhver takmörk, reisa einhverjar skorður? Erum við ekki til í að vera samfélag í það minnsta á viðkvæmustu stundum lífsins eins og við andlát þeirra sem standa okkur nærri?

Hvernig væri að sleppa líkgeymslugjaldinu?

Tökumst á um vígvæðinguna - skattlagningu og niðurskurð hennar vegna - en höldum friðinn þegar þessi jarðvist er kvödd.
Að leiðarlokum verði allir jafnir og posavélar helst hvergi nærri.

-------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/