LILJU GUÐRÚNAR ÞORVALDSDÓTTUR MINNST
Á hillu á heimili mínu er að finna þessa muni, horn, völubein, stein og fleira. Á korti sem fylgdi þeim þegar mér voru færðir þeir var þessi vísa:
Gull vil ég þér gefa
úr gersemum þessa lands
sem upphefur allan efa
um ágæti sannleikans.
(Steini Þorvaldsson)
Gefandinn var Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir og vísan eftir Steina bróður hennar.
Þetta var fyrir þremur áratugum eða svo. Við Lilja Guðrún vorum nánir samherjar í verkalýðsbaráttu hjá BSRB og þegar ég hélt inn á vettvang stjórnmálanna blés hún mér baráttuanda í brjóst. Þetta var hennar máti að færa mér velfarnaðaróskir, með því að minna á mikilvægi sögulegrar arfleifðar með munum sem voru einkennadi fyrir gamla tíma. Svo voru orðin um sannleikann. Honum mætti aldrei gleyma.
Í dag er Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir kvödd frá Hallgrímskirkju í Reykjavík. Þar hefði ég vijað vera en get ekki því ég er staddur fjarri.
Þótt við Lilja Guðrún hefðum ekki mikil samskipti síðustu árin nema að ég sá til hennar á leiksviði og í kvikmyndum þá hélst alla tíð vinátta okkar á milli. Við vorum bandamenn í öllu því sem okkur þótti máli skipta á vettvangi verkalýðsbaráttunnar og síðar stjórnmálanna og skal þá ósagt látið hvort við vorum alltaf sammála um útfærslur og smáatriði. Það hreinlega veit ég ekki. Hitt veit ég að það er mikil eftirsjá að Lilju Guðrúnu Þorvaldsdóttur. Hennar mun ég ætíð minnast sem góðs vinar og málsvara góðra gilda.