Fara í efni

LJÓSVETNINGAGOÐI ÞJÓÐKIRKJAN OG UMBURÐARLYNDIÐ

kirkjuþing - ÖJ
kirkjuþing - ÖJ
Ávarp á Kirkjuþingi
„En nú þykir mér það ráð, að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og
friðinn."
Svo mælti Þorgeir Ljósvetningagoði fyrir þúsund árum. Og þjóðin er enn á þessu máli. Því hér er ekki fjallað um trú heldur sið. Við fylgjum kristnum sið og síðan geta menn efast um trúarhita okkar hvers og eins og staðfestu. Kannski erum við sum heit í trúnni þegar við lendum í hafvillum og kólnum svo aftur þegar sér til lands, einsog Jón Helgason ýjaði að.

Ef skip mitt í villum um höfin hrekst
og himintunglanna leiðsögn bregzt,
en sjórinn þýtur með þungum niði,
þín ég leita drottinn.
En þegar hafrænan ljær með lið
og landið rís yfir hafsins svið,
svo þekkja má hinar þráðu hafnir,
þér ég neita drottinn.

Kristni er trú en kirkjan er siður. Um það var deilt á Alþingi árið þúsund hvort hafa ætti heiðinn sið á Íslandi eða kristinn sið. Þorgeir taldi kristnina á sigurbraut og andóf væri vonlítið. Því skyldi kristni í lög tekin. Síðan var mönnum frjálst hvort þeir vildu trúa á hinn hvíta Krist eða hinn almáttuga Ás, allt eftir sannfæringu sinni. Þessi regla hefur gilt síðan. Og þjóðin var spurð um þetta aftur nú þúsund árum seinna. Það er góð regla að taka málið upp á þúsund ára fresti. Það er eins nálægt dagatali eilífðarinnar og við dauðlegir menn getum skilið.
Og þjóðin svaraði og komst að sömu niðurstöðu og Þorgeir. Við skyldum hafa kristinn sið.
Snorri segir svo frá í Heimskringlu að skömmu eftir kristnitöku hafi Sighvatur skáld þá nýkominn frá Íslandi átt orðastað við Ólaf konung Haraldsson, sem við Íslendingar kölluðum jafnan Ólaf digra.
"Ólafur konungur spurði eftir vendilega hvernig kristinn dómur væri haldinn á Íslandi. Þá þótti honum mikilla muna ávant að vel væri því að þeir sögðu frá kristnihaldinu að það var lofað í lögum að eta hross og bera út börn sem heiðnir menn og enn fleiri hlutir þeir er kristnispell var í."
Enn er misjafnt hvernig okkur ferst kristnihaldið og er þá átt við siðinn sjálfan. Deilt er um mannanna verk og mun svo verða áfram. En Þjóðin var spurð um sið og svarið var afgerandi. Þess vegna verður kirkjan enn um sinn eign þjóðarinnar. Og þjónar kirkjunnar því þjónar okkar allra og þjóðin og kirkjan munu fylgjast að í blíðu og stríðu og verða ekki aðskilin. Kirkjan verður að umbera þjóðina og þjóðin verður að umbera kirkjuna, ekki síður en Veðurstofan verður að umbera innanríkisráðherrann og allir verða að fyrirgefa öllum að lokum.
Sums staðar er kristnihaldið einsog var undir Jökli, eilítið sérviskulegt en kærleiksríkt og hjálpar fólki í hinni hversdagslegu önn í gleði og sorg.  Jón Prímus sagði að almættið væri eins og snjótittlingur sem öll veður hafa snúist gegn. Og þótt kirkjan sé ekki almáttug þá hefur henni kannski stundum liðið einsog snjótittlingi í óveðri. Og það hefur þjóðin líka reynt á undanförnum árum. Því saga kirkjunnar og þjóðarinnar verður ekki auðveldlega slitin í sundur.
Umburðarlyndi var það veganesti sem Þorgeir Ljósvetningagoði fékk íslensku kirkjunni. Vonandi hefur það elst vel því margir eru þeir sem hjartað leiðir í aðra átt í trúarlegum efnum. Og vonandi getur umburðarlyndið sameinað okkur öll.
Ég finn að landið er að rísa. Við finnum öll að landið er að rísa. Ísland er að stíga á fætur. Erfiðleikarnir eru vissulega ekki að baki. Enn mun það taka tíma - hugsalnega langan tíma - að vinna okkur út úr þeim vanda sem við höfum átt við að stríða vegna efnahagshrunsins og lýðræðiskreppunnur sem hruninu fygdi.
En okkur mun takast það; okkur mun takast að sigrast á erfiðleikunum. Þjóðin veit að leiðin út úr vandanum er ekki að höggva á rótina til að ganga inn í nýja veröld sögulaus og allslaus.
Hún veit að við eigum að horfast í augu við okkur sjálf; greina það góða í okkur og okkar arfleifð og menningu og næra þá góðu rót sem hún er sprottin af.
Þetta þarf kirkjan að gera og það veit ég að hún mun gera. Óttalus, staðföst og sterk. Það er sú kirkja sem þjóðin greiddi atkvæði um.
Það er sú kirkja sem þjóðin ákvað að ætti að vera með okkur um ókominn tíma.
Niðurstaða þjóðarinnar er áskorun á hendur kirkjunni. Ég veit að hún mun svara kalli þjóðarinnar; rísa undir þeirri ábyrgð sem ætlast er til að hún axli sem þjóðkirkja.
Ég er hingað kominn til að óska þjóðkirkjunni á Íslandi góðs um ókominn tíma. 
http://kirkjan.is/2012/11/saga-kirkju-og-thjodar-ekki-audveldlega-slitin-i-sundur-avarp-innanrikisradherra-a-kirkjuthingi/