Fara í efni

LJÓTT AÐ HRÆÐA FÓLK

Það er ekki fallega gert að hræða okkur skattgreiðendur með yfirlýsingu um áður óþekkta skuld upp á heila 680 milljarða sem enginn hafði hugmynd um!

Við nánari athugun kemur hins vegar í ljós að þetta er engin skuld heldur áætlun verktaka um hve mikið megi hafa af ríkissjóði vegna viðhalds og viðgerða sem þeir telja ekki hafa verið fullnægjandi á liðnum árum.

Ég hef engar efasemdir um að viðhaldi sé víða ábótavant. En þá á líka að segja eins og er og þess vegna áætla hvað tilteknar úrbætur myndu kosta. Það er allt annað en að reikna það inn í ríkisbókhaldið sem skuld.

Í frétt í Morgunblaðinu 13. febrúar segir á blaðsíðu 38:
„Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga birtu í gær skýrslu um ástand og framtíðarhorfur helstu innviða á Íslandi. Heildarniðurstaða skýrslunnar er mikil innviðaskuld sem beint dregur úr lífskjörum landsmanna. Fram kemur að skuld þessi nemi um 680 milljörðum króna og bent er á að hún veltist einungis áfram og verði stærri með hverju árinu. Lítið sé gert. Skuldin nemi um 14,9% af vergri landsframleiðslu og 10,1% af endurstofnvirði innviðanna. Mest sé það uppsöfnuð viðhaldsskuld í vegakerfinu eða um 265-290 milljarðar króna. Viðhaldsskuld í fráveitukerfinu er metið á um 65-98 milljarða króna. Ítarlega er farið yfir hvern og einn þátt skuldarinnar í skýrslunni. Í skýrslunni kemur fram að það sé sláandi að staða innviða hafi ekki batnað á undanförnum árum. Ónóg fjárfesting og viðhald hafi leitt til þess að ástand innviða sé víða ófullnægjandi. Því er slegið upp í skýrslunni að með réttu megi segja að viðhaldsskuldin sé form skuldasöfnunar af hálfu hins opinbera þar sem ríki og sveitarfélög eru að velta skuld yfir á komandi kynslóðir með því að fresta nauðsynlegu viðhaldi.”

En hvað er til ráða? Það er náttúrlega illt í efni þar sem stjórnmálamenn skilji ekki vandann séu ekki „með á nótunum“:


Þetta hefur Morgunblaðið hinn 20. febrúar eftir framkvæmdastjóra Colas en það er fyrirtæki sem framleiðir malbik fyrir Vegagerðina og vill greinilega framleiða meira malbik:



„Ég held að menn þurfi að fara dönsku leiðina,» segir framkvæmdastjórinn í viðtali við Morgunblaðið 20. febrúar, « Sund&Bælt, sem er hlutafélag í eigu hins opinbera og fjármagnaði til dæmis Eyrarsundsbrúna og brúna yfir Stóra-Belti. Það er gert með eigin fé og lánsfé, síðan eru innheimt veggjöld sem standa undir rekstrinum í 50-60 ár.”

Þetta er sem sagt það sem verið er að sækjast eftir, flýta framkvæmdum með því að láta okkur borga veggjöld. En draga þau þá ekki „úr lífskjörum almennings“, svo vitnað sé í fyrrgreindar yfirlýsingar Samtaka iðnaðarins?

Þessu mega þingmennirnir sem undanfarna daga hafa tekið undir í þessu sjónhverfingatali í ræðum á Alþingi og í skrifum í blöðum velta fyrir sér. Með málflutningi sínum minna þeir hins vegar á hve mikilvægt það er að hafa raddir almennings þar innandyra en ekki bara áróðursfólk fyrir verktaka.

Auðvitað eru verktakar góðra gjalda verðir og nauðsynlegir eftir atvikum. Þeir eiga hins vegar ekki að komast upp með hreinar blekkingar af því tagi sem hér hefur verið rakið.

----------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.

Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/