Logsuðugleraugun og lögfræðingar frá Mílanó
Ef dæma skal af þeim lesendabréfum sem mér hafa borist í dag þá er fólki heitt í hamsi út af framkomu Impregilo og samstarfsaðila við verkamenn á Kárahnjúkum. Fólk veltir greinilega fyrir sér þýðingu Rómargöngu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra. Ljósmóðir spyr hvort hann sé að feta í spor fyrri tíðar manna og leita eftir syndaaflausn og Ólína veltir fyrir sér hvort ímynd Impregilo sé til umræðu í Róm enda hafi utanríkisráðherranum íslenska ætíð verið mjög annt um hana. Ólína segir m.a.: “Nú geta menn velt því fyrir sér hvort utanríkisráðherrarnir hafi verið að ræða statusinn á skótaui og nærskyrtum portúgalskra verkamanna í smæstu atriðum suður í Róm og hvort virðulegir embættismenn utanríkisþjónustu geti haldið uppi samræðum um svo hversdagslega nytjahluti. Líklegra þykir mér að okkar maður hafi í Róm lýst áhyggjum sínum af ímynd ítalska verktakafyrirtækisins…” Ég þakka þessum kjarnyrtu konum, Ólínu og ljósmóður, fyrir hugleiðingarnar.
Eitt fannst mér gott að heyra í fréttum í kvöld: Ekki aðeins á að senda 300 ullarsokka upp á hálendið heldur stendur einnig til að logsuðumenn fái hlífðargleraugu til nota við logsuðuna!. Þetta er sérstaklega þakkarvert og ég velti því fyrir mér hvernig þessi ákvörðun er tilkomin. Varla var þetta uppástunga frá lögfræðideild Impregíló? Það skyldi þó aldrei vera? Í fréttum fyrir fáeinum dögum var sagt að von væri á lögfræðingum frá Mílanó. Sannast sagna hélt ég að þeirra viðfangsefni væri að ná kostnaðinum niður. En þegar málið er gaumgæft betur þá skipta nokkur logsuðugleraugu litlu í samanburði við hin “ófyrirséðu” útgjöld sem kveðið er á um í samningum að verkkaupinn þurfi að greiða ef til þeirra stofnast. Það þarf oft á tíðum löglærða menn til að koma auga á slík útgjöld. Mér er sagt að lögfræðingar í Mílanó séu einmitt miklir fagmenn í því efni.