Fara í efni

LÝÐHEILSUSTÖÐ HUNSUÐ - ALÞINGI VERÐSTÝRIR ÓHOLLUSTUNNI OFANÍ BÖRNIN !


Hinn fyrsta mars lækkar verð á matvöru vegna lækkunar á virðisaukaskatti á matvæli niður í 7%. Nú er þessi skattur í tveimur þrepum, annars vegar 14% og hins vegar 24,5%, þannig að um verulega breytingu er að ræða. Frá sama tíma verða vörugjöld sem nú eru lögð á matvæli (að undanskildum sykri og öðrum sætindum) einnig felld niður. Þannig er um að ræða talsverða lækkun á matvöruverði. Mismikla þó. Hvar skyldi lækkunin vera mest? Lækkunin er mest á gosdrykkjum og sykruðum drykkjum! Því þótt sykurinn og sætindin séu undanskilin hvað vörugjöldin varðar þá gildir hið sama ekki um gosið og sykurdrykki. Þessir vöruflokkar voru í efra skattstiginu og á þeim hvíldu vörugjöld. Nú fjúka vörugjöldin og þeir verða færðir í lægra vöruskattsþrepið.
Þegar lög um þessar breytingar voru sett í haust fékk Alþingi bréf frá Lýðheilsustöð þar sem þess var eindregið óskað að gos- og sykurdrykkir yrðu ekki lækkaðir. Fyrir þessu voru færð mjög sannfærandi rök þess efnis að hér væri um að ræða óhollustu sem rangt væri að verðstýra ofan í ungmenni landsins.

Í bréfi Lýðheilsustofnunar segir m.a.: „Vert er að benda á að rannsóknir sýna að verðnæmi gosdrykkja er töluverð og verðlækkun þeirra hefur mest áhrif á neyslu þeirra þjóðfélagshópa sem almennt er erfitt að ná til með heilsuhvetjandi skilaboðum. Í því samhengi má nefna að unglingar eru mjög næmir fyrir verðbreytingum. Einnig ber að geta þess að næmni þeirra sem neyta mikils magns gosdrykkja er töluverð. Verðbreyting hefur hins vegar minni áhrif á þá sem drekka sykraða gosdrykki í hófi. Hér er því um að ræða aðgerð sem mun hafa neysluhvetjandi áhrif á unglingana okkar og þá sem nú þegar neyta mikils magns gosdrykkja.“

Ég hvatti til þess við umræður um málið á Alþingi í desember að fallið yrði frá þessari ákvörðun og þess í stað farið að ráðum Lýðheilsustöðvar. Ekki fékk það sjónarmið almennan stuðning í þinginu utan þingflokks VG. Þó voru á því undantekningar. Þingmenn úr röðum Sjálfstæðismanna, sem eiga bakgrunn í heilbrigðiskerfinu, sýndu sjónarmiðum Lýðheilsustöðvar skilning og var svo að skilja á þeim að unnið yrði að því að sannfæra ríkisstjórnina um að breyta um kúrs áður en lögin tækju gildi hinn fyrsta mars.
Á fundi Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis nú í vikunni tók ég málið upp að nýju og spurðist fyrir um framgang þess. Þau svör fengust að ekki hafi verið fallist á að verða við óskum Lýðheilsustöðvar. Nú spyr ég: Hvers vegna að setja á fót stofnun sem hefur það hlutverk að ráðleggja stjórnvöldum um stefnu í manneldismálum en hunsa síðan sjónarmið hennar þegar á reynir? Vega þyngra peningahagsmunir gosdrykkjaframleiðenda en heilsufar barna og unglinga?

Ég mun leggja til á Alþingi fyrir mánaðamótin að á lögunum verði gerð breyting í anda þess sem Lýðheilsustöð hefur óskað eftir og verður fróðlegt að fylgjast með atkvæðagreiðslunni um það efni.   

Sjá fyrri umfjöllun um þetta efni: HÉR og HÉR

Bréf Lýðheilsustöðvar til Alþingis í desember:
Reykjavík, 5. desember 2006
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald og virðisaukaskatt á matvælum.
Á Alþingi hefur verið lagt fram frumvarp er varðar breytingu á lögum um vörugjald og virðisaukaskatt á matvæli, ásamt lögum um gjald af áfengi og tóbaki. Samkvæmt frumvarpinu mun virðisaukaskattur af matvælum lækka úr 14% og 24,5% í 7% auk þess sem vörugjald af matvælum, öðrum en sykri, sykurvörum og súkkulaðivörum, verður fellt niður.
Það vekur athygli að gosdrykkir og sykraðir svaladrykkir eru ekki undanskyldir niðurfellingu vörugjalds, líkt og önnur sætindi. Niðurstaðan er því sú að þessir drykkir eru meðal þeirra matvara sem koma til með að lækka hlutfallslega mest þegar bæði kemur til lækkun á virðisaukaskatti úr 24,5% og niðurfelling á vörugjaldi (8 kr/lítra). Þessar aðgerðir samræmast ekki manneldissjónarmiðum sem ættu að vera lögð til grundvallar breytingar sem þessar. Hins vegar er jákvætt að vatn á flöskum skuli vera undanþegið vörugjaldi. Slíkt gjald ætti aftur á móti að vera áfram á ölllum drykkjum með viðbættum sykri.
Íslendingar hafa ekki farið varhluta af offitufaraldrinum sem eykst stöðugt í öllum löndum Evrópu sem og heiminum. Yfir helmingur fullorðinna og fimmti hluti barna hér á landi er yfir kjörþyngd. Þó að ýmsar jákvæðar breytingar hafi orðið á mataræði hér á landi á undanförnum árum hafa einnig orðið neikvæðar breytingar. Neysla gosdrykkja er gífurleg og drekka unglingsstrákar mest af gosi og sykruðum svaladrykkjum, eða að meðaltali tæpan lítra á dag, og 55% af sykri í fæði þeirra kemur úr gosdrykkjum (Landskönnun á mataræði 15-19 ára, 2002). Þótt unglingsstúlkur drekki minna er neysla gosdrykkja of mikil hjá flestu ungu fólki. Mikið magn gosdrykkja og annarra sykraðra svaladrykkja hefur verið tengt við aukna tíðni ofþyngdar og offitu, ásamt öðrum þáttum, því er mikilvægt að reyna að takmarka neyslu þessara orkuríku drykkja. Niðurstöður rannsóknar á mataræði 9 og 15 ára barna (Rannsóknastofa í næringarfræði, 2003-2004) leiddi í ljós að þriðjungur orku hjá 15 ára börnum kemur úr fæðuflokkum sem gefa mjög lítið af vítamínum, steinefnum og trefjum, þ.e. fæðuflokkum eins og drykkjarvörum (öðrum en mjólk), sælgæti, ís, kökum og kexi. 
Þessar tölur, sem nefndar hafa verið, greina frá meðaltalsneyslu en breytileiki á milli samfélagshópa er mikill. Rannsóknir, sem gerðar hafa verið á áhrifum verðbreytinga á fæðu, hafa sýnt að verðlækkanir virka neysluhvetjandi.
Vert er að benda á að rannsóknir sýna að verðnæmi gosdrykkja er töluverð og verðlækkun þeirra hefur mest áhrif á neyslu þeirra þjóðfélagshópa sem almennt er erfitt að ná til með heilsuhvetjandi skilaboðum. Í því samhengi má nefna að unglingar eru mjög næmir fyrir verðbreytingum. Einnig ber að geta þess að næmni þeirra sem neyta mikils magns gosdrykkja er töluverð. Verðbreyting hefur hins vegar minni áhrif á þá sem drekka sykraða gosdrykki í hófi. Hér er því um að ræða aðgerð sem mun hafa neysluhvetjandi áhrif á unglingana okkar og þá sem nú þegar neyta mikils magns gosdrykkja.
Þann 16. nóvember sl. var undirritaður í Istanbúl í Tyrklandi sáttmáli milli Evrópulanda og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, um baráttuna við aukna tíðni ofþyngdar og er Ísland aðili að þeim samningi. Í sáttmálanum eru stjórnvöld kölluð til ábyrgðar auk þess sem kallað er eftir enn meiri samstöðu og samvinnu milli allra hagsmunaaðila en verið hefur: opinberra aðila, iðnaðarins og einkamarkaðar, frjálsra félagasamtaka, einstaklinga og fjölskyldna.
Því skýtur skökku við að á sama tíma skuli stjórnvöld hér á landi leggja til breytingar á sköttum og gjöldum sem leiða til lækkunar á verði sykraðra gosdrykkja og þar með væntanlega um leið aukinnar neyslu þeirra.
Virðingarfyllst,
Anna Elísabet Ólafsdóttir,             Inga Þórsdóttir,                         Hólmfríður Þorgeirsdóttir,