LÝÐRÆÐIÐ FÓTUM TROÐIÐ...FRAMHALD
Ég greindi félaga mínum frá því í trúnaði, að það væri ég, sem hefði skrifað um aðkomu Samorku að stækkun álversins í Straumsvík. Hann gerði strax athugasemd við að ég skrifaði ekki undir nafni. Það virkaði ekki sterkt að fara í felur með skoðanir sínar. Ég tek undir þetta, en þau mál og málavextir geta komið upp að þegnarnir verða að geta tjáð sig undir dulnefni. Þegar svo er tel ég engin betur til þess fallinn en þingmaður minn og formaður BSRB, að birta á síðu sinni slíkar athugasemdirnar telji hann þær birtingarhæfar og eigi erindi í þjóðfélagsumræðuna.
Hvað um það, eftirfarandi ástæður eru fyrir því að ég kýs að láta ekki nafns míns getið eru:
Ég er rafiðnaðarmaður.
-Öll stærstu rafiðnarfyrirtæki landsins eru tengd málinu á ýmsa vegu.
-Samorka, Rafiðnarsambandið, bæjarstjórar, hagsmunapólitíkusar og fleiri hafa beit sér í málinu. Sumir af meiri hörku en við eigum að venjast.
-Inngrip Alcans í "lýðræðislega" umræðu hér á landi er kafli útaf fyrir sig. Næsta skref er að kosta starfsemi samtaka og flokka sem eru risanum þóknanlegir.
-Andstaða við Alcan getur í framtíðinni komið niður á fyrirtæki, sem er með starfsmann innanborðs, sem beitti sér gegn risanum á sínum tíma, hvernig sem málið fer.
Að sjálfsögðu hættum við ekki afkomu fjölskyldu okkar að óþörfu. Hitt er svo alvarlegra mál að málfrelsið og lýðræðið skuli vera byggt á svo veikum grunni.
Fyrrum starfsmaður Landsvirkjunar
Athyglisverðar, umhugsunarverðar og jafnframt ógnvekjandi vangaveltur. Takk fyrir bréfið.
Kv. Ögmundur