Lýðræðissinnar fagna úrslitum í Venezuela
Úrslitin í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Venuzuela eru lýðræðissinnum víðast hvar í heiminum að skapi. Það á hins vegar fyrst og fremst við um lýðræðissinna. Ekki aðra. Ekki til dæmis George Bush, Bandaríkjaforseta. Talsmenn Hvíta hússins í Washington sögðu eftir að niðurstöður atkvæðagreiðslunnar lágu fyrir að þeir myndu ekki viðurkenna úrslitin fyrr en öll kurl væru komin til grafar.
Margur heldur mig sig
Þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin að kröfu stjórnarandstöðunnar í Venzuela og var kosið um það hvort forseti landsins Hugo Chavez skyldi vikið frá völdum. Hann var kosinn í lýðræðislegum kosningum árið 1998. Allar götur síðan hefur stjórnarandstaðan haldið uppi stöðugum andróðri gegn honum og stjórn hans – og allan tímann hefur stjórnarandstaðan notið beins og óbeins stuðnings Bandaríkjastjórnar. Bush Bandaríkjaforseti, maðurinn sem komst til valda með kosningasvindli fyrir tæpum fjórum árum, talar nú um brögð hafi verið í tafli í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Venezuela – margur heldur mig sig. En heldur reyndist kauði seinheppinn því ekki leið á löngu þar til óhlutdrægir aðilar sem fengnir höfðu verið til að fylgjast með kosningunum, þar á meðal Jimmy Carter fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sögðust treysta sér til að staðfesta að kosningarnar hefðu farið heiðarlega fram. Formaður Samtaka Ameríkuríkja, Cesar Gaviria, tók undir þetta.
Okkur til umhugsunar
En hugleiðum eftirfarandi: Í Írak hefur lýðræðislegum kosningum verið frestað aftur og ítrekað á meðan verið er að einkavæða eignir Íraka og færa þær í hendur bandarískra fyrirtækja og nú er Bush nýbúinn að skipa stjórn í Írak. Hún var ekki kosin. Hún var skipuð og er leppur hernámsliðsins. Þessi stjórn er í lagi segir Bandaríkjaforseti. Í Venezuela var það hins vegar þjóðin sem kaus forseta. Það gengur ekki segir Bush Bandaríkjaforseti og bætir því við að í Washington ætli þeir ekki að viðurkenna úrslitin!
Vangaveltur Gregs
Gregory Palast heitir þekktur fréttamaður sem áður hefur verið vísað til hér á síðunni. Hann þekkir vel til mála í Venezuela og er nú staddur þar. Hann sendir pistla sína í BBC, Guardian, Baltimore Chronicle og fleiri fjölmiðla. Gregory Palast veltir vöngum yfir því hvað valdi andúð Bandaríkjastjórnar á Chavez. Sennilega væri það olían. Venezuela er fimmti stærsti olíuframleiðandi í heiminum – og enn stærri þyrnir í auga Bandaríkjastjórnar en forsetaembættið heima fyrir hafi verið – að mati Gregory Palasts - áhrif Venezuelaforseta innan Samtaka olíuútflutningsríkja, OPEC. Chavez hafi samið ágætlega við Clinton stjórnina en eftir að olíuhagsmunir Bandaríkjanna voru fyrir alvöru búnir að ná tökum á bandaríska stjórnkerfinu, aðallega í gegnum Dick Cheney, varaforseta, hafi ekkert minna dugað en að koma Chavez af forsetastóli.
Dollurum pumpað í andóf og undirróður
Gregory Palast segir ljóst að auðstéttin í Venezuela hafi notið ríkulegs stuðnings Bandaríkjastjórnar við að grafa undan Chavez. Gregory Palast lýsir ágætlega í pistlum sínum auðkýfingum og ríku miðstéttarfólki í mótmælagöngum skrækjandi gegn ofbeldi stjórnvalda. Og í hverju skyldi það ofbeldi hafa verið fólgið? Chavez og hans samstarfsmenn vilja jafna kjörin í landinu, til dæmis koma einhverjum hluta jarðnæðis í hendur bláfátækra bænda og sjá til þess að stærri hluti olíuauðsins komi inn í samneysluna. Andstæðingar ríkisstjórnar Venezuela segja hana hins vegar sóa olíuauðnum. Ef til vill er hér átt við nýlega ákvörðun um að auka útgjöld til heilbrigðismála! Gregory Palast segir að 84% olíuauðsins fari nú í einkahendur, 16% til þjóðarinnar. Chavez vilji auka hlut hins opinbera í 30%. Burt með manninn segja olíufurstarnir. Burt með manninn segja þeir Dick Cheney og Georg Bush. Eflaust eru einhverjir fleiri tilbúnir að enduróma þetta kall. Það á hins vegar ekki við um bláfátæka alþýðu Venezuela og er það vel.
Það er hins vegar umhugsunarefni hve fasísk í orði og æði bandarísk stjórnvöld eru eins og sakir standa.
Grein Gregory Palast er að finna á þessari slóð.