Má ekki Framsókn kynna sín störf?
11.05.2003
Hannes Hólmsteinn Gissurarson spurði þessarar spurningar í Silfri Egils í dag þegar auglýsingamennsku kosningabaráttunnar bar á góma í þættinum. Sem kunnugt er komst enginn flokkur með tærnar þar sem Framsóknarflokkurinn hafði hælana í auglýsingaglamri fyrir þessar kosningar. Verðugt væri að gera úttekt á pólitískum auglýsingum í aðdraganda kosninga á Íslandi. Þær færast jafnt og þétt í vöxt. Í viðræðum talsmanna stjórnmálaflokkanna í sjónvarpi í kvöld sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Samfylkingu, þetta einfaldlega fylgisfisk upplýsingaþjóðfélagsins. Steingrímur J Sigfússon form. VG benti réttilega á að þessar auglýsingar hefðu ekkert með upplýsingar að gera. Þær væru fyrst og fremst ímyndarsmíð. Fróðlegt væri að fá þau Hannes Hólmstein og Ingibjörgu Sólrúnu til að gera nánari grein fyrir máli sínu. Hannes Hólmsteinn gæti farið með okkur yfir flettiskiltin, og trúverðugleikaauglýsingarnar og skýrt fyrir okkur á hvern hátt Framsókn væri að kynna sín störf og Ingibjörg Sólrún myndi skýra fyrir okkur á hvern hátt flennistórar myndir af henni sjálfri í forsetastellingum er hluti af upplýsingasamfélaginu. Ég fæ ekki komið auga á neinar upplýsingar af viti sem verið er að koma á framfæri. Þessar auglýsingar sverja sig hins vegar í ætt við það sem allra lágkúrulegast er í neyslusamfélagi samtímans og eigi miklu meira skylt við að fá þjóð til að tyggja Wrigley tyggigúmmi en vitiborna pólitíska umræðu.