Maðurinn með hattinn stendur upp við staur ...
Gild rök voru á sínum tíma færð fyrir því að tveggja þrepa virðisaukaskattur leiddi til undanskota og væri á margan hátt erfiður í framkvæmd. Með fækkun skatteftirlitsmanna og minni áherslu ríkisstjórnarinnar á að uppræta skattsvik má draga þá álytkun að hætturnar sem varað var við á sínum tíma séu ennþá meiri nú en þá. Af þessum ástæðum brostu menn í kampinn, glottu við tönn eða hristu hausinn í forundran þegar Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, lofaði því að fella niður virðisaukaskatt á landsbyggðinni kæmist hann einhvern tíma að ríkisstjórnarborðinu. Þar hefur Guðni setið um hríð en lítið fer fyrir því að fella niður vaskinn í dreifbýli. Nú hefur ungur og örugglega vel meinandi varaþingmaður höggvið í sama knérunn og vill hann fella niður virðisaukaskatt á barnafötum. – Skilar slíkt góðri búbót til barnafjölskyldna, sagði varaþingmaðurinn sem líka er aðstoðarmaður verðlagsmálaráðherra Framsóknarflokksins. Örugglega er þetta hugsað sem þjóðþrifamál en ef til vill væri ráð að líta í leiðinni á skattleysismörk og tekjuskatta og hvað best myndi gagnast fátækum barnafjölskyldum. Það mætti líka hækka barnabæturnar aftur sem hafa ítrekað verið skertar á undangengnum áratug og eru nú undir þeim mörkum sem þær voru í fyrir áratug. Það myndi gagnast barnmörgum fjölskyldum. Það mætti líka lækka sjúklingaskattana, hin svonefndu þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu, sem sannanlega leggjast þyngst á barnafjölskyldur og eru farnir að valda því að efnalítið fólk leitar ekki lækninga. Kannski það verði Jónína Bjartmarz, formaður heilbrigðis- og trygginganefndar, sem flytur þingsályktunartillögu framsóknarmanna um lækkun sjúklingaskattanna? Ekki hafast þeir að við ríkisstjórnarborðið. Ef mig misminnir ekki var það Halldór Ásgrímsson, einn helsti talsmaður stjórnarandstöðunnar þáverandi, sem dró ríkisstjórnarflokkana sundur og saman í virðisaukaskattsmálinu og taldi sig geta sýnt fram á stórháskalegar afleiðingar margþrepa virðisaukaskattskerfis. Guðna Ágústssyni og aðstoðarmanni verðlagsráðherrans er bent á slóðina www.althingi.is því þar geta þeir fundið gildu rökin gegn tillögum sínum og hugrenningum. Rökin eru að vísu ekki popp-pólitík, en þau eru fram sett af þeim alþingismanni sem kemst næst því að hafa gefið sig út fyrir að vera sérfræðingur í skattamálum, formanni Framsóknarflokksins.