MÆLI MEÐ SALNUM Í DAG - EFTIR ÚTIFUNDINN Á AUSTURVELLI
Á blaðsíðu 44 í Morgunblaðinu - menningarsíðunni - segir frá sérstakri menningarsamkomu í Salnum í Kópavogi í dag. Yfirskriftin er Suðrænir tónar, blær að austan og gamli Bach.
Þarna leggja þau saman frændsystkin, Ögmundur Þór Jóhannesson, gítarleikari og frændkonur hans tvær, gler- og textíl listakonurnar Sigrún og Ólöf Einarsdætur.
Sigrún og Ólöf eru löngu kunnar af verkum sínum og eftirsóknarvert að sjá þau verk sem þær sýna í anddyri Salarins en anddyrið verður opið fyrir sýningargesti áður en Ögmundur Þór tekur gítarinn sér í hönd klukkan 17.
Ég hef áður sótt tónleika með gítarsnillingnum unga og hrifist af leikni hans. Mæti að sjálfsögðu í dag. Fer í Kópavoginn að loknum útifundi.
Mæli með eftirfarandi dagskrá:
Fjöldaganga frá Hlemmi, kl.14.
Útifundur á Austurvelli kl. 15.
Kaffi hjá VG á Suðurgötunni kl. 15:45.
Síðan gler- og textílsýning í anddyri Salarins og tónleikar Ögmundar Þórs Jóhannessonar kl. 17. Innihaldsríkur dagur.
Eflaust eru aðrar sýningar og listviðburðir í dag. Hver velur fyrir sig. Að sjálfsögðu. En svona ætla ég að velja: Að enda daginn hjá Ögmundi í Salnum. Það er ekki bara nafnið sem er flott. Frábær músíkant!
__________________________________________________________-
Svona segir Gunnhildur Finnsdóttir frá í Morgunblaðinu í dag:
Ögmundur Jóhannesson leikur einleiksverk fyrir gítar í Salnum
Rjóminn af meistaraprófinu
gunnhildur@mbl.is
ÖGMUNDUR Jóhannesson lauk framhaldsnámi í gítarleik frá Universität Mozarteum í vor með hæstu einkunn og er nú að koma sér á framfæri sem sjálfstætt starfandi tónlistarmaður í Berlín. Hann leikur á tónleikum í Salnum í dag þar sem hann ætlar að leika úrval af þeim verkum sem hann æfði fyrir lokaprófið. Um leið opna frænkur hans, þær Sigrún og Ólöf Einarsdætur, sýningu á gler- og textílverkum í fordyrinu. Yfirskrift tónleikanna er Suðrænir tónar, blær að austan og gamli Bach.
„Efnisskráin á ýmislegt sameiginlegt með debút-tónleikunum mínum í Salnum 2005. Þá var ég með það besta úr BA prógramminu mínu, nú verður þetta rjóminn af meistaraprófinu mínu, tónlist frá ýmsum stíltímabilum. Ég spila eigin útsetningu á partítu eftir Bach sem mastersritgerðin mín fjallaði um."
Mikilvæg gítarverk
Önnur verk á dagskránni eru Equinox eftir Takemitsu, sónata eftir Castelnuovo-Tedesco, Due Canzone lidie eftir d'Angelo og sónata eftir José. „Þemað í mínu námi hefur verið að komast í gegnum mikilvægustu verkin sem skrifuð hafa verið fyrir gítar."
Hingað til hefur hann ekki helgað sig einni tónlistarstefnu umfram aðrar. „Ég er nokkurn veginn jafnvígur á öll tímabil klassískrar tónlistar. Núna er ég sérhæfður í einleik á gítar, en mig langar í framtíðinni til þess að steypa mér út í kammermúsík."
Ögmundur vinnur nú hörðum höndum að því að skapa sér tækifæri í tónlistarheiminum. „Ég vinn við kennslu í Berlín og er að setja saman fleiri verkefni þar og víðar. Ég er til dæmis að fara að spila á Myrkum músíkdögum í febrúar og ég ætla að reyna að vinna heilt íslenskt prógramm fyrir það. Það er eitthvað sem ég myndi vilja taka upp og gefa út og í framhaldinu kynna það á erlendri grundu. En markaðurinn er spennandi og ég er bara nýbyrjaður."
Í hnotskurn
» Ögmundur er fæddur 1980 og útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Kópavogi vorið 2000.
» Tónleikarnir hefjast klukkan 17 í dag í Salnum.