Enn um Írak
Þó að enn sé verið að ræða um Írak á vettvangi Sameinuðu þjóðanna virðist eins og Bandaríkjamenn séu tilbúnir og reiðubúnir til að fara út í þetta stríð án þess að samþykki SÞ sé, að þeirra mati, þörf. Það verður tiltölulega auðvelt að sannfæra almenning hér í Bandaríkjunum um réttmæti þessarar ákvörðunar enda hefur fólk hér, sérstaklega þeir sem eru hægra megin í pólítíkinni ekki mikið álit á þeirri stofnun. Það er þó frekar ólíklegt að sama sé uppá teningnum í Bretlandi.
Ef/þegar þetta stríð hefst, er stóra spurningin um andstöðu og varnir Íraka, hvort eða hvernig þeir geti spornað við framrás Bandaríkjanna. Í þessu sambandi eru nokkrar stöður mögulegar. Eins og ég hef nefnt áður mun fyrsti þáttur stríðsins einkennast af yfirgripsmiklum loftárásum Bandaríkjanna. En í næsta þætti mun hið flókna samfélag Írak gegna veigameira hlutverki. Írakski herinn hefur áttað sig á því að það er fátt sem þeir geta gert til að verjast þessum stórfelldu loftárásum. Þess vegna, allavega samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef haft aðgang að, snúast ráðstafanir þeirra fyrst og fremst í kringum það að verjast gegn öðrum hluta stríðsins – þ.e. það stríð sem færi fram á landi og þá sérstaklega í þéttbýli.
Sumir álíta að með loftárásunum kæmi fram óvenju mikil pressa á stjórn Íraka og þess vegna ekki ólíklegt að einhvers konar coup d´etat ætti sér stað. Slík hallarbylting yrði mjög æskileg fyrir Bandaríkin því þá gæti Bandaríkjastórn fagnað sigri og sagt að “regime change” hafi átt sér stað án þess að margir Bandaríkjamenn hafi látið lífi. Þetta er þó frekar ólíklegur þó alls ekki óhugsandi möguleiki. Á síðustu tuttugu árum hefur Saddam Hussein náð að byggja upp mjög (oft með mjög ógeðfelldum aðferðum) náinn og tryggan hóp herforingja. Margir af æðstu yfirmönnum hersins eru skyldir Hussein og því ekki líklegt að þeir svíki hann.
Líklegri möguleiki er að slík coup d´etat eigi sér stað þegar nokkuð er liðið á stríðið, ekki síst þegar bandaríski herinn nálgast Baghdad. Írakar hefur einmitt lagt mjög mikla áherslu á að verja Baghdad og að tæla bandaríska herinn í götubardaga þar og í öðrum stórborgum. Það verður mikla erfiðara fyrir Bandaríkin að berjast við Íraka í bæjum landsins frekar en á víðavangi. Helstu sérsveitir hersins verða staðsettar víðsvegar um í bæjunum til dæmis og eru reiðubúnar að berjast einar síns liðs vegna þess að ekki er ólíklegt að allur fjárskiptabúnaður verði rofinn í loftárásunum. Þeir hafa komið fyrir töluvert af vopnum í þéttbýli. Það er kannski hér sem einhvers konar bylting gæti átt sér stað sem samanstæði þá af einstaklingum sem eru ekki úr innsta kjarna herforingjanna. Þessir einstaklingar myndu lýsa því yfir að þeir væru hin nýja stjórn Írak meðan að enn eru hersveitir hollar Hussein í Baghdad. Það er því hugsanlegt að Bandaríkjamenn nái mest öllu landinu á sitt vald en ekki sjálfri Baghdad. Hugsanlegt er að þeir telji að það borgi sig frekar að vinna með hinni hugsanlegu nýju stjórn heldur en að klára allt dæmið. Ef þessi staða kemur upp verður ákaflega erfitt að koma á stöðugleika í landinu og ekki ólíklegt að borgarastyrjaldir brytust út þar sem hinir ýmsu hópar reyna að ná sínu fram.
En hvernig sem þeir ná völdum og hvort það verður með aðstoð einhvers úr her Írak eða ekki, verða Bandaríkjamenn að mæta mörgum mjög erfiðum ákvörðunum. Það er þegar töluverð togstreita innan ríkistjórnarinnar um hversu langt Bandaríkjamenn eigi að ganga og hversu langvarandi þetta hernám á að vera. Varnarmálaráðuneytið, þar sem andi neo-cons svífur yfir vötnum, vill allsherjar uppstokkun á íröksku þjóðfélagi þar sem róttækar breytingar ættu sér stað á stofnunum og stjórnmálum landsins. CIA og utanríkisráðuneytið, hinsvegar, eru frekar á því að breyta fyrst og fremst um stjórnendur landsins en halda stofnunum og stjórnmálahefð þess almennt til haga. Fyrri leiðin er miklu metnaðarfyllri og tæki mun lengri tíma og krefðist meiri viðveru Bandaríkjanna.
Í þessu sambandi koma írösku útlagarnar væntanlega til með að eiga töluverðan hlut að máli. Útlagarnir eru almennt á því að mynda einhverskonar sambandsríki. Þó velflestir hópar séu sammála um þessa hugmynd eru þeir ósammála um hvað ætti að vera grundvöllur þessa sambandsríkis. Kúrdar vilja að það skiptist eftir þjóðarbrotum (ethnicity) því þar með gætu þeir haldið áfram að stjórna norðrinu, en Sunní arabar vilja að landinu sé skipt niður í þrjár einingar landfræðilega meðan að sjíitar hafa lagt áherslu á skiptingin fari eftir trúardeild manna. En stóra spurningin er samt sem áður hvernig Írakar muni taka þessari nýju stjórn og veru Bandaríkjahers í landi þeirra. Vissulega fer sú afstaða nokkuð eftir framgangi stríðins og hvort allsherjar borgarastyrjöld hafi herjað á landið. Þó að Bandaríkjaher sé greinilega tilbúinn að heyja hinn hernaðarlega þátt stríðsins (eins og sprengjutilraun þeirra í Florida á “MOAB” sprengjunni gefur til kynna) hef ég miklar efasemdir um að þeir séu eins tilbúnir að kljást við hið ótrúlega flókna pólítíska, félagslega og efnhagslega verkefni sem bíður þeirra í Írak.
Að lokum:
A) Guðfræðingar við Al-Azhar háskólann í Egyptalandi, en þessi stofnun er elsta og jafnframt virtasti guðfræðiskóli meðal súnní Muslima, lýstu því yfir um daginn að ef Bandaríkjamenn réðust á Írak sé það réttlætanlegt og forsvaranlegt að Muslimar heyji “jihad” gegn Bandaríkjamönnum. Þessi yfirlýsing er athyglisverð að því leytinu til að Al-Azhar er mjög íhaldssöm stofnun og er að mörgu leyti mjög tengd ríkisstjórn Egyptalands. Það er þess vegna alls ekki óhugsandi að ríkisstjórn Mubarak hafi lagt blessun sína yfir þessa yfirlýsingu. Eftir 11. september 2001 lýstu guðfræðingar þessarar stofnunar yfir að árásin á New York og Washington hafi ekki verið “jihad”. Það eru mjög margir sem taka mark á yfirlýsingum Al-Azhar og því eru þetta mjög alvarleg ummæli.
B) Fréttir af kjarnorkustarfsemi Íran komu fram í vikunni en byggingu kjarnorkuvers þar er að mestu leyti lokið. Þó að tilgangur versins sé að framleiða orku er vissulega möguleiki að þar muni einnig fara fram framleiðsla á kjarnorkuvopnum. Nú eru semsé hinar tvær þjóðirnar í “öxulveldi hins illa” komnar mun lengra í þessum málum en Írak. Ég held að þessi frétt frá Íran sé alls engin tilviljun. Hún var beinlínis til þess gerð að sýna fram á að Íran sé nú með þróaða starfsemi, rétt eins og Norður Kórea, sem að eigin mati eigi að fæla frá hugsanlegum árásum á Íran.
C) Eins og þið hafið væntanlega frétt hefur mötuneytið í bandarísku þinginu hætt að matreiða franskar kartöflur. Þess í stað eru “frelsis” kartöflur í boði - “freedom fries”. Þetta er hluti af þessu almennu viðhorfi gagnvart Frökkum og sýnir jafnframt á hvaða plani hin málefnalega umræða er um þetta mál í sjálfu þinginu og á hvaða stigi þjóðernishyggjan er. Það má sem sé ekki hafa eitt né neitt með Frakka eða Frakkland að gera. Nú er verið að ræða einnig, enn sem komið er meira í gamni en alvöru, að það ætti líka breyta ýmsum öðrum heitum á matarréttum svo að í framtíðinni sæjum við “freedom horn”, “freedom toast”, “freedom dressing”, “freedom mustard” og “freedom kissing”. Þá hef ég heyrt því fleygt að skila eigi aftur frelsisstyttunni (statue of liberty sem er rétt fyrr utan New York) en Frakkar gáfu Bandaríkjamönnum þessa styttu á sínum tíma. Það þarf þó ekki að breyta nafninu á henni!
Skoðanakannanir meðal almennings í Arabaheiminum eru ekki mjög algengar. Á slóðinni http://www.bsos.umd.edu/SADAT/ME_SURVEY.HTM eru niðurstöður úr nýlegri skoðanakönnun sem er að mörgu leyti mjög athyglisverð ekki síst vegna þess að hún gefur til kynna hvaða viðhorf almenningur hefur gagnvart Bandaríkjastjórn og hversu líklegt fólk telur að friður og lýðræði ríki í Mið Austurlöndum í framtíðinni.
Það verður núna nokkuð hlé á þessum pistlum. Ég fékk nýlega spennandi starfstilboð (því miður ekki á Íslandi) frá Williams College (www.williams.edu) sem er gamall og mjög virtur liberal arts college í Massachusetts fylki með alveg frábærum nemendum. Ég verð næstu daga að kynna mér aðstæður þar og leita að húsnæði. Svo verð ég nokkra daga í London þar á eftir en þar mun ég halda fyrirlestra um þjóðernishyggju í Írak og uppbyggingu landsins á fyrstu árum þess. Ef það er eitthvað tiltekið efni sem ykkur langar að ég taki fyrir í næsta pistli látið mig endilega vita.
Með innilegri kveðju, Magnús Þorkell