Fara í efni

Er stríðið hafið?

Það má segja að stríðið sé hafið. Það er að segja orðastríðið. Hatrammar
deilur eiga sér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, milli forystumanna
Arabaríkjanna og meðal íraskra útlaga.

Fyrir stuttu var merkileg stund í sjónvarpssögu Bandaríkjanna þar sem
barist var um athygli almennings. Fyrst kom ræða Bush þar sem hann lýsti
langtíma markmiðum stríðsins gegn Írak og svo stuttu seinna kom viðtal Dan
Rather við Saddam Hussein í þættinum 60 minutes II.

Ræðu Bush hefur verið lýst sem hálfgerðri tímamótaræðu. Að mínu mati er þar fullmikið í lagt því hann var einungis að tíunda það sem hefur margsinnis verið nefnt í ræðu og riti undanfarna mánuði. En það var margt frekar merkilegt í ræðunni engu að síður og staðsetningin og tímasetningin athyglisverð. Bush vildi greinilega vera á undan Hussein og kom fram í sjónvarpinu u.þ.b. 90 mínútum á undan. Hann flutti ræðuna við American Enterprise Institute í Washington sem er mjög íhaldsamur hugmyndabanki (think tank) þar sem meðal annars Lynne Cheney, eiginkona varaforsetans, starfar. Þessi stofnun,  (http://www.aei.org), ásamt Washington Institute of Near East Policy(http://www.washingtoninstitute.org) og almannatengslastofunni Benador Associates (http://www.Benadorassociates.com) hafa verið mjög áhrifamiklar í stjórnartíð Bush og verið leiðandi í umræðunni í málefnum Mið-Austurlanda.
Það er með ólíkindum hversu margir af starfsmönnum þessara stofnana eru nú
í lykilstöðum víðsvegar um stjórnkerfið. Þetta hljómar kannski eins og
allsherjar samsæriskenning en það er alls ekki svo. Þvert á móti. Þetta er
ósköp venjuleg þróun. Þegar Bush tók við embætti og repúblikanar fengu
frekari ítök í framkvæmdavaldinu var það alls ekki óeðlilegt að ríkisstjórn
Bush leitaði eftir ákveðnum sérfræðingum til að fylla stöður í stjórnkerfinu. Af skiljanlegum ástæðum vill hún frekar hafa fólk innanbúðar sem aðhyllist svipaða hugmyndafræði og forvígismenn stjórnarinnar.

Þeir sem sjá um málefni Mið-Austurlanda fyrir Bush koma upp til hópa frá
þessum stofnunum. Almennt séð má skilgreina þetta fólk sem "neo-conservatives" eða "neo-cons" í bandarískum stjórnmálum. Þetta eru
"haukar" í varnarmálum og eru oftast nær mjög tryggir stuðningsmenn
ríkisstjórnar Ísraels, en öryggi Ísraels er einskonar akkeri í stefnu þeirra
gagnvart Mið-Austurlöndum. Það er einkennandi fyrir þá sem fylgja þessari
hugmyndafræði að vilja beita sér fyrir því að Bandaríkjamenn nýti það  gífurlega hernaðarlega afl sem þeir hafa yfir að ráða til að hámarka enn frekar efnahags- og pólítíska stöðu Bandaríkjanna á alþjóðlegum vettvangi. Þegar öryggismál urðu miðpunktur allra athafna Bush-stjórnarinnar eftir 11. september mat ríkisstjórn Bush það svo að til þess að vinna bug á hryðjuverkastarfsemi þyrfti að sýna vilja Bandaríkjanna til að nota sinn gífurlega hernaðarstyrk. Sú lexía sem þeir lærðu frá 11. september var að þær hefðbundnu aðferðir sem voru ríkjandi í kalda stríðinu, svo sem ”öftrun” eða fæling, til að koma í veg fyrir árásir frá óvininum væru ekki lengur líklegar til árangurs. Hvernig er hægt að fæla menn sem eru í sjálfsmorðshugleiðingum? Þar af leiðandi hefur Bush-kenningin, sem grundvallast á "preemptive strikes" (fyrirbyggjandi aðgerðir) verið ríkjandi í öryggismálum núverandi stjórnar.

Þessi sýn byggist einnig á ákveðnu viðhorfi gagnvart fólki og stjórnmálamönnum í Mið-Austurlöndum. Vegna þess að fólk í Mið-Austurlöndum hefur ávallt lifað undir harðstjórn er álitið að íbúar Mið-Austurlanda virði einungis valdamikla einstaklinga í stjórnmálum. Þeir hafa haldið því fram að í stjórnmálum Mið-Austurlanda sé það talið veikleikamerki ef einhver sýnir tilhneigingu til að semja. Það sem hefur háð Bandaríkjunum í samskiptum þeirra við Mið-Austurlönd, samkvæmt þessari hugmyndafræði, er að fólk í Mið-Austurlöndum ber ekki nægjanlega mikla virðingu fyrir Bandaríkjunum. Ýmsir áhrifamiklir leiðtogar svo sem Saddam Hussein og Bin Laden telja að Víetnam-veikin sé enn að hrjá bandarískt þjóðfélag og að stjórnvöld geti ekki þolað stríð sem gæti kostað mikið mannfall í herafla sínum. Þetta var sannarlega viðhorf Husseins þegar hann tók ákvörðun að ráðast inn í Kúveit 1991 og Bin Laden hefur líka viðrað álíka skoðanir. Þegar spurningin "af hverju hata þau okkur" kom uppá yfirborðið var henni svarað af fylgismönnum þessarar hugmyndafræði að ástæðan fyrir því að fólk hati
Bandaríkjamenn sé að fólk óttist þá  ekki nægjanlega mikið. Það
verður að sýna "overwhelming force", eins og eitt af slagorðum Persaflóastríðsins 1991 gekk út á , til að fá fólk á okkar band. Sé það
augljóst að það borgi sig ekki að berjast gegn okkur þá munu allir kappkosta að vinna með okkur.

Þegar þessi bakgrunnur er hafður í huga er bjartsýni Bush í fyrrnefndri ræðu skiljanlegri. Árásin gegn Írak er að hans sögn byrjunin á ákveðnu ferli sem mun koma af stað allsherjar lýðræðisbylgju í Mið-Austurlöndum. Það er greinilega ekki nóg að koma á "Regime Change" í Írak heldur á að umbylta allri pólítískri hefð bæði í Írak og víðar.

Það er sannarlega þörf á því að breyta um áherslur í stjórnmálum
Mið-Austurlanda. Og öll getum við verið sammála um að lýðræði sé æskilegra
fyrirkomulag en það sem nú er í flestum ríkjum á þessu svæði. En bjartsýni bandarískra stjórnvalda er grundvölluð á allmörgum þáttum og gerir ráð fyrir að allt gangi upp samkvæmt bókinni. Það er: Við ráðumst inní í Írak og eftir
stutt og afmarkað stríð náum við góðum tökum á landinu. Þá byggjum við það upp á ný, komum á traustum og lýðræðislegum stofnunum, blásum lífi í
efnahaginn, og sjáum til þess að allir, hvort um sé að ræða Túrkomana, Kúrda, sjía eða sunní Araba,  lifi í sátt og samlyndi í Írak. Þegar íbúar nærliggjandi landa sjá hversu vel gengur í Írak og sjá jafnframt að Bandaríkjamenn, sem verða nú með stórar bækistöðvar í lýðræðisríkinu Írak,
séu tilbúnir að beita vopnavaldi til að koma á lýðræði, sé þess þörf, munu
íbúarnir sjálfir steypa einræðisherrum sínum af stóli. Ef þetta gerist ekki
sjálfkrafa verður kannski nauðsynlegt fyrir Bandaríkjamenn að hlutast tímabundið til um málefni þessara landa með hervaldi. Og þegar komið er á
lýðræði í nærliggjandi löndum, sem gæti tekið nokkur ár, jafnvel áratug eða
svo, verður loksins hægt að einbeita sér að málefnum Palestínu og Ísrael.

Er þessi sviðsmynd líkleg? Vissulega er hún hugsanleg. Í gegnum tíðina hafa
Vesturlandabúar oftast nær ofmetið jákvæðni eigin stefnu og vanmetið óánægju íbúa þessa svæðis. Þess vegna hefur það frekar verið tilhneigingin heldur en hitt að áform Vesturlanda hafi yfirleitt haft þveröfug áhrif. Það eru
fjöldamörg dæmi þess svo sem sjá má af sögu Líbýu, Líbanon, Írans og Alsírs. Sá möguleiki að hlutirnir gangi ekki upp samkvæmt bókinni er eiginlegra líklegri ef tekið er mið af sögu Mið-Austurlanda.

Það var athyglisvert að í ræðu Bush að hann nefndi ekki al-qaeda né Bin
Laden á nafn. Ég held meira að segja að hann hafi ekki minnst á 11. september. En hann gerði hið alvarlega ástand sem nú ríkir milli Palestínumanna og Ísraela að umtalsefni. Lykilsetningin var   "As progress
is made toward peace, settlement activity in the occupied territories must
end." Hér er margt óljóst til að mynda hvað sé "progress" og einnig hvað sé
átt við með "activity." Það er verið að slá þessu á frest og orðfæri Bush var
alls ekki ólíkt því sem hann sagði  24. júní og 6. apríl 2002 og eins má minna á ummæli hans frá nóvember 2001 um málefni Ísraels og Palestínu. Hér var sem sé ekki ný stefna hjá Bush heldur útfærsla á eldri stefjum. Það er verið að setja hlutina í salt. Þessi málefni tilheyra sem sé framtíðinni og virðast grundvallast á því að allt gangi uppí Írak. Status quo verður status quo.

Það lítur alls ekki vel út í þessum efnum. Það er ekki nóg með hvernig
ríkisstjórn Sharons í Ísrael er nú samansett. Eins og hefur komið fram í
ísraelska dagblaðinu Haaretz hefur Sharon skipað nefnd sem á að endurskoða
eða þurrka út "vegvísinn" (road map) sem kvartettinn svokallaði kom fram með. Þrátt fyrir yfirlýsingar Bush um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna
hafa svipaðar yfirlýsingar ekki komið frá ríkisstjórn Sharons. Aðferðir og
viðbrögð Sharons til að koma á friði milli Ísrael og Palestínu hafa verið
að beita hervaldi. Sharon hefur lýst því yfir að það væri pólítískt
sjálfsmorð fyrir Ísraela að semja við þessar aðstæður. Hann telur greinilega
að ef hann gerði tilraun til að semja við Palestínumenn yrði það túlkað sem
veikleikamerki. Það sé líklegra til árangurs að sýna styrk sinn. Ástandið
er þó sýnu verra en það var þegar hann komst til valda. Og úr því
að þessi aðferð hefur ekki gengið upp þar, af hverju er þá líklegt að hún reynist árangursrík ti að koma á friði í Írak eða víðar? Þó að Bush hafi lýst framtíð Íraks á mjög jákvæðan hátt er ekki hægt að sjá glætuna í
friðarumleitunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Ekki er það til að auka á bjartsýni þegar þær fréttir berast að Elliot Abrams, sem var sakfelldur í Iran Kontra málinu á sínum tíma en tók nýlega við embætti deildarstjóra í málefnum Ísraels og Palestínu  í Öryggismálaráði Bandaríkjanna (National Security Council), hafi verið að hreinsa til á sínum bæ og rekið marga einstaklinga, svo sem
Ben Miller og Hillary Mann, sem tilheyra hinum hófsamari öflum. Abrams hefur margsinnis lýst því yfir að hann beri mikla virðingu fyrir hugmyndafræði og aðferðum Sharons. Á sínum tíma gagnrýndi Abrams kröftuglega þá ákvörðun Ehud Barak að draga herlið Ísraela út úr Líbanon. Að mati Abrams, eins og reyndar Sharons, var ástæðan fyrir því að intifadan hin síðari hófst, sú að Palestínumenn túlkuðu þessa aðgerð Barak sem veikleikamerki hjá Ísraelum og því væri heppilegur tími til að hefja uppreisnina. Barak vildi semja og það var sem sé skilið sem veikleiki. (Þið sjáið hvað þessi hugmyndafræði hefur margvísleg áhrif.)  Þess í stað hefur Abrams stutt Sharon í að sýna afl og styrk Ísraela. Þessar uppsagnir hjá öryggismálaráðinu sýna þó að áhrif Abrams eru að aukast til muna og ekki líklegt að alvarlegar friðarumleitanir eigI sér stað á næstunni.

Að lokum tvennt:

1) Eins og þið hafið sennilega frétt  er mikið rætt um að koma á einhvers konar herstjórn í Írak að Hussein liðnum sem verður undir forystu bandaríska hershöfðingjans Tommy Franks. Hann á að gegna svipuðu hlutverki í Írak og MacArthur í Japan forðum. Það er frekar óheppilegt en nafn hans "Franks" er það sama og múslimar kölluðu Evrópubúa hér á öldum áður, sérstaklega á tímabili krossferðanna. Á arabísku er það "al-faranj", sem var vísun til þess að þetta voru "Frakkar" sem stóðu fyrir þessum árásum og er ekki alltaf notað nú til dags í mjög jákvæðri merkingu. Þegar hefur fyrirhuguð árás Bandaríkjanna verið kölluð "krossferð" og hún borin saman við krossferðir fyrri alda. Og ekki mun líða á löngu þar til staðfesting þess efnis mun birtast í nafni þess sem mun stjórna Írak, þ.e. Tommy Franks, eða Tommy "al-Faranj". (Þið munið kannski að Bush notaði "krossferð" eða "crusade" til að lýsa stríðinu í Afghanistan sem olli miklum úlfaþyt.)

2) Fyrir þá sem eru áhugasamir um að skoða ýmis leynileg gögn um samskipti
Bandríkjanna og Írak sem hafa nýlega verið gerð opinber er eftirfarandi slóð mjög athyglisverð:

http://www.gwu.edu/~nsarchiv/NSAEBB/NSAEBB82/

Sérstaklega áhugaverð er úttekt frá 1983:
http://www.gwu.edu/~nsarchiv/NSAEBB/NSAEBB82/iraq19.pdf

 
Með kærri kveðju, Magnús
Þorkell Bernharðsson