Hussein er ekki Írak og Írak ekki Hussein
Það er oft tilhneiging, eins og ég hef reyndar bent á í ræðu og riti, að persónugera stjórnmál Mið-Austurlanda. Þó að slík áhersla sé skiljanleg vegna þess að vissar persónur hafa verið mjög áberandi og “strong-man politics” er frekar einkennandi í stjórnarfari einræðisríkja, þá er þessi tilhneiging þó á margan hátt villandi. Hún er á hinn bóginn mjög þægileg fyrir okkur því að hún einfaldar málin á allan hátt. En persónugerving vandans gerir það að verkum að einblínt er á þá einstaklinga sem eru í forsvari, þeir verða undirrót alls hins illa, vandinn sjálfur holdi klæddur. Og þá er gert ráð fyrir að með því að fjarlægja persónuna sé hægt að leysa vandamálið. Þar af leiðandi er lögð höfuðáhersla á persónuna Bin Laden til dæmis frekar en hina stórhættulegu hugmyndafræði Al-Qaeda, sem og á persónu annarra einstaklinga, eins og t.a.m. Saddam Hussein, Yasser Arafat, Ghaddafi, í umfjöllun fólks um Mið-Austurlönd. Með því að leggja áherslu á persónur er þar með verið að líta framhjá öðrum samfélagsþáttum vandans og ekki síst að reyna að komast að því og upplýsa hverjar séu rætur pólitískra vandamála Mið-Austurlanda.
Það er einkum á tvennan hátt sem þessi áhersla hefur birst á undanförnum mánuðum og dögum: Hin sífellda umræða um stjórnarskipti í Írak (og að bola Hussein frá völdum) og hins vegar handtökur forystumanna Al-Qaeda.
Í vikunni var Khalid Sheik Muhammad handtekinn í Pakistan. Hann hefur verið einn af forvígismönnum al-qaeda. Það fannst mikið af mikilvægum upplýsingum hjá honum sem munu vafalaust stuðla að því að finna fleiri meðlimi Al-Qaeda, ekki síst Bin Laden. Ennfremur fannst mikið af áfengi í herberginu hans (hann er sem sé bersýnilega ekki bókstafstrúar þegar kemur að áfengisnotkun). Það sem er eftirtektarvert við handtöku hans er að hún var gerð opinber um leið. Hugsanlega hefði verið betra að greina ekki frá henni fyrr en nokkrum dögum síðar til að geta betur nýtt sér þær upplýsingar sem þar fundust. Nú eru félagar hans enn varari um sig og munu kannski flýta þeim aðgerðum sem þeir eru að skipuleggja. Vissulega var þetta góð auglýsing fyrir Bandaríkjastjórn til að sýna fram á að stríðið gegn hryðjuverkum sé á fullu en spurningin er hvort ekki hefði verið hægt að fresta birtingu upplýsinganna í nokkra daga til að nýta þær betur. Það er líka athyglisvert að þeir forvígismenn Al-Qaeda sem hafa verið handteknir hafa ekki sýnt of mikla andstöðu eða reynt sjálfsvíg í þeim tilgangi að handtaka þeirra komi ekki niður á málstaðnum. Það voru margir neðanjarðarhópar í Suður-Ameríku sem vildu frekar deyja en vera handteknir og gerðu ráðstafanir til þess. Þetta er sannarlega einkennilegt þar sem forystumenn hreyfingarinnar hafa sett sjálfsvíg á ákveðinn stall í baráttuaðferðum sínum.
En það atriði sem ég vildi benda á í þessu sambandi er að firna mikil áhersla hefur verið lögð á að ná forystumönnum Al-Qaeda, svo sem Bin Laden. Það hefur gert það að verkum að umræðunni um hverjir gerast meðlimir Al-Qaeda og af hverju og hvernig hægt er að koma í veg fyrir fleiri meðlimi þessarar hreyfingar hefur verið ýtt til hliðar. En því miður er Al-Qaeda og hugmyndafræði þess miklu meiri og víðtækari en þessar tilteknu persónur. Með því að ná Bin Laden eða Al-Zawahiri verður þar með ekki bundinn endi á Al-Qaeda. Lítið hefur verið gert til að veita hugmyndafræði þess andstöðu eða skapa andrúmsloft sem gerir þátttöku í álíka hópum óaðlaðandi. Ég er ekki að segja að það eigi ekki að leita að þessum persónum. Það er þó mikilvægt að tengja málstaðinn ekki bara við persónurnar. Þó svo að Bandaríkjamenn nái að handtaka Bin Laden er það þar með alls ekki endalok Al-Qaeda, langt í frá.
Er þá komið að persónunni Saddam Hussein. Hussein er ekki Írak og Írak er ekki Hussein. Með því að bola Hussein frá verða ekki öll vandamál Írak leyst. Þegar við metum feril Husseins út frá stjórnmálasögu Írak hefur ferill hans að einhverju leyti ekki verið svo frábrugðinn öðrum stjórnmálamönnum sögunnar. Hussein er að vissu leyti birtingarmynd stjórnmálasögu Íraks og afrakstur þess kerfis. Hann hefur vissulega tekið mun afdráttarlausari og stórtækari ákvarðanir en fyrirrennarar hans og þær hafa haft gífurlegt ofbeldi í för með sér fyrir Íraka og aðra. Fáir íraskir stjórnmálamenn eru með tærnar þar sem hann hefur hælana. Í staðinn fyrir að vera nýtt blað í sögu Íraks hefur hann frekar verið ýkt eða róttækt stef í sögu Írak. Með því að fjarlægja Hussein er ekki þar með sagt að það sem hann stendur fyrir og að þær aðferðir sem hann hefur beitt muni líða undir lok í Írak.
Þegar rætt er um stjórnarskipti (regime change) sem allsherjarlausn á vandamálum Íraks og Mið-Austurlanda almennt séð virðist vera sem horft sé framhjá þeim þáttum sem framkölluðu þennan tiltekna einstakling til að byrja með. Að steypa Hussein af stóli verður sennilega tiltölulega einfalt, held ég. Og það er þægilegt að einfalda stöðuna með því að einblína á hann og hans stjórn. En það sem tekur við verður miklu erfiðara. Vandamálin munu hrannast upp og verða öllu flóknari þegar á að koma á farsælu og lýðræðislegu ríki í Írak. Fyrir það fyrsta þarf að eiga sér stað allsherjar uppbygging á efnahag og stofnunum landsins (ráðuneyti, skólar, heilbrigðisstofnanir, herinn). Þá þarf að skapa samvinnuanda milli hinna ólíku þjóðarbrota og ættbálka í Írak. Síðast en ekki síst þarf að skapa nýtt viðhorf til stjórnmála og endurmeta söguna á ný. Hvernig munu Írakar túlka þessa eyðileggingu sem mun eiga sér stað við það eitt að bola Hussein frá og munu þeir líta á hana sem eðlilega fórn? Vel flest blöð í Mið-Austurlöndum sem ég hef lesið fjalla ekki mikið um þetta mál sem olíustríð heldur sem nýjasta kaflann í heimsvaldastefnu Vesturlanda. Koma Írakar til með að meta þetta stríð sem frelsun á eigin landi eða sem birtingarmynd heimsvaldastefnunnar?
Sú áhersla að persónugera stjórnmálin hefur líka verið við lýði í deilunni milli Palestínu og Ísraels. Núverandi leiðtogar Ísraels hafa ekki viljað semja við Arafat (ólíkt því sem var 1993-2000) og telja að persóna hans sé þrándur í götu friðarins. Í stað þess að reyna að finna allsherjarlausn á þessari deilu, sem tekur mið af þörfum og aðstæðum bæði Palestínumanna og Ísraelsmanna, eru viðræðurnar í biðstöðu meðal annars vegna þess að ríkisstjórn Sharons vill ekki semja við Arafat. Sharon segir að í Palestínu verði að eiga sér stað “regime change”, stjórnarskipti. En mun afstaða Palestínumanna breytast og verða allt önnur, t.a.m. um réttindi flóttamanna, um Jerúsalem, og viðhorf þeirra um hvað sé vænlegt í friðarviðræðunum, sérstaklega hvernig landamæri sjálfstæðs ríkis Palestínu eigi að líta út þegar Arafat hættir störfum? Ég efast um það.
Með því að gera persónurnar að kjarna málsins er ekki verið að fjalla um hin alvarlegu samfélagslegu vandamál sem eru ríkjandi í Mið-Austurlöndum. Og með því að einblína á einstaklinginn er horft framhjá því að það er ýmislegt sem Vesturlandabúar hafa gert á þessum slóðum sem ekki er alltaf svo jákvætt. Þar af leiðandi er ekki fjallað á gagnrýninn hátt hvort að stefna Vesturlanda gagnvart Mið-Austurlöndum sé til þess líkleg að stuðla að friði og velsæld. Þess í stað er kastljósinu beint að vondu körlunum. Er þessi áhersla á einstaklinginn aðferð til að fría okkur ábyrgð?
Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðunum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Umræðan hefur orðið þess valdandi að upphaf hins formlega stríðs hefur dregist á langinn (það er þegar verið að berjast í suðurhluta Íraks í “no fly zones”). Þessi bið hefur verið alveg óþolandi fyrir marga hér í Bandaríkjunum enda er tíminn frekar knappur. Það eru margir innan Bandaríkjastjórnar sem eru ævareiðir og telja að þessi seinkun hafi valdið álitshnekki fyrir Bandaríkin. Það er hætt við því, ef fram fer sem horfir, að í framtíðinni gætu þessir aðilar, svo sem Cheney og Rumsfeld, sýnt fram á það að Bandaríkjamenn græði ekkert á því að bíða eftir einhvers konar samþykki SÞ. Þeir telja að þegar stríðinu verði lokið eigi að virkja SÞ með friðargæslusveitum og að annast hjálpar- og þróunarstarf sem verður væntanlega gífurlega brýnt. SÞ sem stofnun er því bara gagnleg eftir stríð, en ekki fyrir stríð. Bush og hans menn hafa sagt að þetta mál sé ákveðin prófraun fyrir SÞ og með því að styðja ekki væntanlegt stríð uppfylli SÞ ekki hlutverk sitt og sé orðið að tilgangslausum snakkklúbbi. Aðrir hér segja þó að þessi umræða á vegum SÞ sýni einmitt að SÞ sé starfi sínu vaxið. En í því andrúmslofti sem nú ríkir óttast ég að þetta mál leiði til þess að Bandaríkjamenn muni hugsa sig tvisvar um næst ef þeir hafa uppi áform um að íhlutast í málefni annarra ríkja með hervaldi.
Að lokum fernt:
1) Það vakti töluverða athygli að tyrkneska þingið skyldi ekki samþykkja tillöguna um að leyfa Bandaríkjamönnum aðgang að tyrknesku landsvæði. Vel yfir 80% Tyrkja eru mótfallnir stríðinu og þetta sýnir að þingmenn þar í landi taka mið að einhverju leyti af almenningsálitinu. Það hefur þó ekki verið fullreynt hvort þetta sé endanleg ákvörðun og ég geri fyllilega ráð fyrir að þegar öllu verður á botninn hvolft komi Bandaríkjamenn til með að nota Tyrkland sem bækistöð fyrir bandaríska herinn. En athyglisvert er að Bandaríkjamenn ætla sér í stríð, meðal annars til að koma á lýðræði í Mið-Austurlöndum en áform þeirra eru um stundarsakir erfiðari vegna þess að lýðræðislega kjörnir fulltrúar í ríki í Mið-Austurlöndum, tyrneskir þingmenn hafa lagst gegn því.
2) Það hefur ekki verið mikið fjallað um það að í Íran fóru fram sveitarstjórnarkosningar um daginn. Það sem var merkilegt, og alls ekki uppörvandi, var að þátttakan var óvenjulítil (um 49% og ekki nema um 12% í Teheran) og að umbótasinnar (sem eru frjálslyndari) náðu sér ekki á strik. Til að mynda náðu harðlínuöflin (fulltrúar lagaklerkanna) 14 af 15 sætum í Teheran. Þetta sýnir ef til vill að Íranir séu að gefast upp á að breyta samfélagi sínu innan frá. Ennfremur hefur umræðan um Íraks-stríðið valdið því að harðlínuöflin hafa styrkst. Þó að velflestir Íranir séu alls ekki fylgjandi núverandi stjórnarfari og stjórnvöldum óttast þeir líka að land þeirra verði næsta “öxulveldi hins illa” á ratsjá Bandaríkjanna.
3) Sextugur karlmaður var handtekinn í verslunarhúsi í New York - fylki vegna þess að hann gekk um í bol sem á stóð “Peace on Earth” (ögrandi boðskapur það!). Honum var síðan sleppt lausum. Vegna þess að verslunarhúsið er í einkaeign mega eigendur láta fjarlægja þá aðila sem þeir telja að séu “disrupting commerce”, truflandi fyrir viðskipti.
4) Það er með ólíkindum hversu mikið Bandaríkjamenn hatast við Frakka þessa dagana. Þó svo að Þjóðverjar, Rússar, Kínverjar, Tyrkir og Belgar hafi líka gagnrýnt málarekstur Bandaríkjastjórnar eru það fyrst og fremst Frakkar sem hafa orðið fyrir barðinu á bandarískum almenningi. Hér eru lokum nokkur sýnishorn af “bumperstickers”, slagorðum sem fólk setur á bíla sína, sem ég hef séð og heyrt af á undanförnum dögum:
a) Boycott French Whines (ekki wines heldur “whine” – að væla); b) First make Iraq a crater, then talk to France later; c) Fry France … not potatoes; d) Wack Iraq … crack Chirac; e) Bomb Iraq ... Au Revoir Chirac; f) Shock Chirac; g) I see London … I see France … Look who does the chicken dance; h) French fry the thief of Baghdad; i) Saddam scores with French whore; j) Flush hard … It’s a long way to Paris; k) I see Paris … I see France … the French can kiss my freakin’ A--; l) Chirac is wack … attack Iraq.
Magnús Þorkell Bernharðsson