Skeið ringulreiðar
Er stríðinu lokið og tekur nú friðurinn við? Þó að ýmsir hafi borið saman atburði miðvikudagsins við fall Berlínarmúrsins er það langt í frá að fall styttunnar á Fardús torginu í Baghdad tákni að stríðinu sé þar með lokið. Þessi atburður var vissulega táknrænn. Og það er hægt að lesa heilmikið út úr honum svo sem að ríkisstjórn Hussein hefur að mestu leyti misst öll völd. En það sem þetta táknar einna helst er að þetta stríð er nú komið á nýtt stig – skeið ringulreiðar, stjórnleysis, og óaldar. Nú er þetta ekki lengur svart-hvítt stríð þ.e. Bandaríkin og Bretar gegn ríkisstjórn Hussein heldur má segja að nú sé þetta komið út á grátt svæði og nú verða margir, blóðugir og óhefðbundnir bardagar háðir samtímis.
Á síðustu dögum hefur þetta verið mest áberandi í suðurhluta landsins. Eins og þið vitið eru sjíitar þar í miklum meirihluta. Nú þegar er valdabaráttan hafin og morðið í gær á Abdul Majid al-Khoei í Najaf er nokkur vísbending um það sem koma skal. Hafa ber í huga að morðið átti sér stað í mosku Imam Ali, sem er einn helgasti staður sjíita, en þar er sjálfur Ali grafinn, tengdasonur Múhameðs spámanns. Al-Khoei þessi hefur verið í útlegð í London síðusta áratuginn. Hann hefur rekið Al-Khoei stofnunina (sem ég hef nokkrum sinnum heimsótt í London og Montreal og eru með prýðisgott bókasafn. Þeir hafa unnið gífurlega mikilvægt starf til að vekja athygli á umhverfisspjöllum í Írak til dæmis. Ég hitti þó aldrei Abdul Majid sjálfan.) Hann var nýkominn til Írak og hafði komið með herdeildum Bandaríkjanna. Hann var semsé “okkar” maður. Það eru margir leiðtogar sjíita sem gera nú tilkall til þess að vera forvígismenn þeirra. Og Bandaríkjamenn voru búnir að stilla honum upp sem hinum æskilega leiðtoga. Það er ekki ljóst hvernig hann dó eða hvort hann dó vegna þess að hann var fylgismaður Bandaríkjanna. En þessi skelfilegi atburður inn á þessum helga stað er sannarlega ekki góð byrjun að koma á friðsæld í Írak.
Á sama tíma sat Paul Wolfowitz, aðstoðarvarnarmálaráðherra, fyrir svörum í bandaríska þinginu. Hann gaf mjög villandi upplýsingar þegar hann lýsti því yfir að sjíitar væru að vinna með Bandaríkjamönnum. Það sem var beinlínis rangt var að hann benti sérstaklega á “fatwa” (lagalegt álit) sem var haft eftir öðrum mikilvægum leiðtoga sjítta Ayatollah Ali Muhammad Sistani, sem er titlaður “a’alam al-ulama” (hinn lærði meðal hina lærðu) þar sem Sistani hvatti fylgismenn sína að aðstoða innrásarher Bandaríkjanna. Wolfowitz taldi þetta vera í fyrsta sinn sem sjíi kæmi fram með svona “pro-american” fatwa. Þetta hljómaði mjög vel nema að þegar fjölmiðlar greindu frá þessu fatwa fyrst fyrir um viku síðan kom strax fram yfirlýsing frá skrifstofu Sistani að hann hefði aldrei gefið út slíka yfirlýsingu. Væntanlega er þetta fatwa annað hvort fölsun eða þá gefin út af öðrum einstaklingi sem hefur ekki þá stöðu sem Sitani hefur.
En það kom fram í máli Wolfowitz að þeir hafa í hyggju að koma á bráðabirgðastjórn nú á næstu dögum. Þetta á að gerast í nokkrum þrepum. Í fyrstu verður herstjórn undir Tommy Franks og Jay Garner í forsvari meðan að Írakar halda “town hall meetings” þar sem á að ræða um framtíð landsins. Út frá því munu Írakar skipa bráðabirgðastjórn með framkvæmdavald og löggjafarvald en Bandaríkjamenn þá væntanlega með dómsvaldið. Hér kæmu Bandaríkjamenn að starfa þó fyrst og fremst sem ráðgjafar. Lokaskrefið verður svo þegar Írakar kjósa eigið þing og taka stjórn landsins í eigin hendur. Þetta er eiginlega nákvæmlega eins og Bretar höguðu hlutunum í Írak eftir heimstyrjöldina fyrri þegar Írak var í umboði þeirra frá Þjóðabandalaginu. Hafa ber í huga að Írakar líta ekki mjög jákvæðum augum á þetta skeið sögu sinnar og töldu afskipti Breta ekki hafa verið af hinu góða. Þá höfðu Bretar samráð við alþjóðasamfélagið (í gegnum Þjóðabandalagið). Í máli Wolfowitz í dag og samkvæmt nýlegum ummælum Bush er hlutverk Sameinuðu þjóðanna afar óljóst í Írak. Ég hef orðið var við það að reiði Bandaríkjamanna í garð SÞ sé enn töluverð. Ég veit ekki hvort að það sé pólítískur vilji að SÞ spili stórt hlutverk í uppbyggingu Írak vegna þess að það er litið svo á að Frakkar og Rússar geti komið inní leikinn í Írak í gegnum SÞ og spillt þannig fyrir Bandaríkjamönnum. Hins vegar gætu fjárhagslegar ástæður valdið því að SÞ komi inn til að hjálpa til með mannúaðarmálin ef Bandaríkjamenn treysta sér ekki að borga brúsann einir.
Wolfowitz gaf einnig til kynna að á meðan Írakar eru að ræða sína á milli í byrjun ferlisins, kemur uppbygging landsins til með að byrja fyrir alvöru. Það er semsé hér, þegar Bandaríkjamenn hafa völdin, þegar á að leggja nýjar símalínur, laga samgöngukerfið, kaupa ný vopn, og hefja viðgerðir í olíuiðnaðinum þar sem fjárútlát verða gífurleg. Það er ekkert að því að slíkar framkvæmdir eigi sér stað. Það er þó spurning hvort að Írakar sjálfir eigi ekki að ákveða þetta. Það er líka spurning hvernig þetta verður túlkað bæði í Asíu og Evrópu ef þetta lítur þannig út að uppbyggingin komi bandarískum fyrirtækjum fyrst og fremst til góða. Þegar hafa komið fram ýmsar vísbendingar um viðskiptahagsmuni þeirra sem eru við völd og því sem koma skal (til að mynda Richard Perle varð að segja af sér sem formaður varnarmálanefndar (reyndar situr þó áfram í nefndinni) vegna hagsmunaárekstra. Mörg vel tengd fyrirtæki hafa þegar fengið verkefni í Írak sem úthlutuð voru í lokuðum útboðum þar sem einungis bandarísk fyrirtæki máttu taka þátt.
Eins og þið hafið væntanlega frétt er sveit Bandaríkjamanna að bíða átekta í Kúweit til að hefja “reconstruction” í Írak. Þessi hópur á líka að sjá um mannúðarmál. Sá sem er í forsvari fyrir þessum hóp er Jay Garner, fyrrum hershöfðingi sem undir það síðasta starfaði hjá fyrirtækinu sem framleiðir Patriot og Sparrow eldflaugakerfin. Hann á að vera yfir “reconstruction og humanitarian assistance.” Arabísk dagblöð hafa verið mjög gagnrýninn á hann og líta á hann tortryggnum augum. Það er bent á það að hann hefur verið viðloðandi Jewish Institute of National Security Affairs í Bandaríkjunum (http://www.jinsa.org/about/about.html) og skrifaði undir yfirlýsingu árið 2000 sem hrósaði Ariel Sharon fyrir að sýna stillingu (“restraint”) í stríðinu gegn Palestínumönnum. Arabísku blöðin hafa lýst honum sem harðlínu síonista sem er umhugað fyrst og fremst um öryggi Ísrael en ekki velferð Íraka. Hvort hann sé í þessari stöðu til þess að þjóna hagsmunum Ísrael veit ég ekki. En það er ljóst að arabar í nágrannalöndunum líta svo á að svo sé. Skoðanir hans á deilu Palestínumanna og Ísrael eru ekki í samræmi við viðhorf íbúa Írak. Ég hefði haldið að heppilegra væri að velja mann til forystu í Írak sem hefði ekki svo óvinsælar og umdeildar skoðanir.
Ég vissi ekki hvort að ég ætti að gráta eða hlæja þegar fréttir birtust að Bretar væru búnir að velja Íraka til forystu í Basra. Þegar breski herforinginn var spurður hver það væri, sagði hann “some sheikh”. Hann vissi semsé ekki hvað hann hét. Og þegar hann var spurður hvernig hann var valinn gaf hann til kynna að hann hafi verið sá fyrsti sem gaf sig fram. Semsé mjög vel undirbúin aðgerð.
Myndirnar af fólkinu að ræna og rupla eru hrikalegar. Það er ljóst að vel flestar stofnanir ríkisstjórnarinnar hafa verið rændar og tölvur, húsbúnaður - reyndar allt lauslegt - hafi verið tekið. Fyrir utan sjálfan búnaðinn hef ég áhyggjur af því hvað verður um öll skjölin. Í skjölunum væri hægt að finna mikilvægar heimildir um stríðsglæpi ríkisstjórnar Hussein til dæmis. Það hefur alltaf verið talað um það að slík réttarhöld þyrftu að fara fram til að auðvelda þjóðinni að gera upp fortíðina. Ég hélt reyndar að Bretar og Bandaríkjamenn ætluðu sér að koma í veg fyrir þetta því nú verður líka erfiðara að fara í gegnum skjalasafnið til að sjá hvort eða hvar gjöreyðingavopn eru falin í Írak og hvort/hvar þau voru framleidd. Powell lýsti því yfir í febrúar og mars að bandaríska leyniþjónustan væri með upplýsingar um slík vopn. Það á ennþá að koma í ljós hvort að það sé rétt. Þegar uppreisnin átti sér stað 1991 réðust margir Írakar líka á söfn landsins. Það kæmi mér ekki á óvart ef nú væru margir sögulegir gripir horfnir úr söfnum landsins.
Í öllu þessu er ekki ljóst hver verða örlög Saddam Hussein. Það er vel hugsanlegt að hann sé látinn. Hvort sem hann er lífs eða liðinn vona ég að hann finnst. Það verður mjög mikilvægt fyrir Íraka að sjá með berum augum að hann sé ekki lengur við völd. Ef hann finnst ekki (einn blaðamaður hafði að orði að Hussein hafi fyrir löngu áttað sig á því hver sé besta leiðin til að fela sig frá Bandaríkjamönnum: klæða sig í gervi Ussama bin Laden) er hætt við því að allskonar sögusagnir komi á kreik sem muni gera allt pólítískt starf erfiðara. Það er alls ekki óhugsandi að hann hafi flúið til Tikrit, hafi hann átt þess kost, en það er fæðingarstaður hans. Sumir telja að hann hafi komið fyrir þar ýmsum mikilvægum stjórntækjum og að Tikrit hafi verið einskonar varaaflstöð ríkisstjórnar. Það verða bardagar við Tikrit á næstu dögum, en hann hefur verið eftirlætissonur borgarinnar (um 250,000 manns búa þar). Ef það væri einhver staður í Írak sem hefði tilhneigingu til að verja Saddam Hussein, væri það Tikrit.