Fara í efni

MÁLFLUTNINGUR SEM RÍMAR VIÐ SKYNSEMINA

Katrín X 2013
Katrín X 2013

Hvers vegna átti Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, auðvelt með að svara fyrir stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Sjónvarpinu í kvöld? Það var ekki einvörðungu vegna þess að hún er vel máli farin og rökföst, heldur vegna hins að hún talar fyrir stefnu sem rímar vel við skynsemina.
Það sem Vinstrihreyfingin grænt framboð getur státað af á liðnu kjörtímabili eru meðal annars áherslur í skattamálum. Þar er óhætt að dæma VG af verkum sínum sem hafa gengið út á að gera skattkerfið réttlátara, létta sköttum af láglauna- og millitekjufólki en þyngja þá á hinum aflögufæru. Breytingar okkar eru þrepaskipt skattakerfi, verðtrygging persónuafsláttar og þar með skattleysismarkanna, auðlegðarskattur, breyting á fjármagnstekjuskatti og auðlindagjald. Það er til umhugsunar fyrir kjósendur hvað það þýðir að breyta skattkerfinu í fyrra horf eins og hótað hefur verið.
Við viljum engar skyndilausnir í atvinnumálum, sagði Katrín, þess vegna vildum við ekki stóriðju, heldur lögðum áherslu á margbreytileika í atvinnuuppbyggingu. Nefndi hún sérstaklega hinar skapandi greinar. Þessi atvnnustefna hefði skilað sér  í lækkandi atvinnuleysi og þannig óumdeilanlega verið til góðs. Rétt.
Margt annað var rætt. Ég vona að margir hafi hlustað.