MÁLSTAÐUR ÍSLANDS STYRKIST
Egill Helgason mætti með Silfur sitt á RÚV á sunnudag og færði okkur sjónarmið málsmetandi einstaklinga erlendis sem nú stíga fram hver á fætur öðrum og bera brigður á greiðsluskyldu Íslendinga í Icesave. Í þessum hópi eru Alain Lipietz, sem sæti hefur átt á Evrópuþinginu og Michael Hudson, prófessor við Missuori háskólann í Bandaríkjunum. Eva Joly, góðvinur Íslands var einnig í þættinum í útsendingu frá París en hún hefur haldið fram svipuðum sjónarmiðum. Sjá Silfur Egils: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4472547/2010/01/10/
Sama og Íselndingar hafa sagt
Þetta er í ætt við það sem Íslendingar hafa sjálfir haldið fram og er að finna í báðum útgáfum af fyrirvörum Alþingis, annars vegar frá í september og hins vegar frá í desemberlok:
sbr.:
..."Ekki hefur fengist leyst úr því álitaefni hvort aðildarríki EES-samningsins beri ábyrgð gagnvart innstæðueigendum vegna lágmarkstryggingar, þar á meðal við kerfishrun á fjármálamarkaði. Allt að einu hefur Ísland gengið til samninga við Bretland og Holland þótt það hafi ekki fallið frá rétti sínum til að fá úr þessu álitaefni skorið." sept
....."Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi..." des.
Liðstyrk frá fólki á borð við framangreinda einstaklinga eigum við að fagna en ekki reyna að finna á honum höggstað eins og hefur viljað brenna við - það eigum við að láta Breta og Hollendinga um. Þessir einstaklingar eru að taka undir okkar sjónarmið! Þeim hafa Bretar og Hollendingar hins vegar hafnað til þessa og er verkefnið að reyna að ná málinu út úr því öngstræti sem það er í, hugsanlega með gerðardómi sem báðir aðilar gætu sætt sig við eða aðkomu utanaðkomandi málamiðlara. Þetta er nú verið að ræða þverpólitískt og er það fagnanaðrefni. Hitt á einnig að vera á dagskrá, að ræða greiðslukjör. Eitt prósentustig í vöxtum til eða frá geta þýtt marga tugi milljarða. Þetta hljótum við að vilja taka að nýju upp við viðsemjendur okkar nú þegar viðhorfin breytast heima fyrir hjá þeim. Síðan eigum við að vera opin fyrir öllum málamiðlunarlausnum sem þjóna hagsmunum okkar.
Það er lífsspurning fyrir málstað Íslands að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tala málstað Íslands upp í Hollandi og Bretlandi og annars staðar innan Evrópusambandisns og gera sem flestum grein fyrir að Íslendingar hafa verið beittir rangindum, meinað um úrræði réttarríkis og látnir axla alltof þung vaxta-kjör og afborgunarskilmála.
Traust ræðst ekki bara af Icesave
Eftirfarandi þanka fékk ég senda frá íslenskum háskólakennara í Bretlandi: "Það er vonandi að sú athygli sem málið er að fá í erlendum fjölmiðlum gefi ástæðu til að kanna nánar málatilbúnað, í ljósi veikrar löggjafar og þess meðbyr sem við virðumst hafa um að loka ekki málinu á premis bankanna heldur að tekið verði tillit til fólks á Íslandi.
Ég hef hitt marga útlendinga fyrir sl. árið, bý og starfa í Englandi en er með náin tengsl við kollega á Norðurlöndunum, og sýnist á samtali við þá, að það sem stendur trausti á íslensku atvinnulífi (og Íslendingum) fyrir þrifum er ekki endilega lausn á Icesave, heldur að víðtækt uppgjör eigi sér stað; þó svo að bankarnir á Íslandi hafi verið endurskipulagðir fjárhagslega er lítið sem bendir til þess að breyting hafi verið á stjórnendum eða þeim gildum sem þar eru í hávegum höfð (nægir að nefna afskriftir á kúlulánum)."
Þessar ábendingar eru umhugsunarverðar.