Málstofa um menntamál: Beðið um skóflu og kaðal en fá teskeið og tvinna
Í dag fór fram mjög fróðlegt og vekjandi málþing á vegum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um menntamál. Fyrirlesarar nákunnugir öllum skólastigum fluttu erindi en að þeim loknum fóru fram almennar umræður. Drífa Snædal ritari VG stýrði ráðstefnunni. Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG setti málþingið og reifaði málin almennt auk þess sem hún gerði grein fyrir málefnavinnu á vegum flokksins á þessu sviði.
Leikskólakennarar:Öll skólastigin ber að líta á sem samfélagsþjónustu
Þröstur Brynjarsson, varaformaður Félags leikskólakennara, reið á vaðið með afar fróðlegu erindi. Hann gerði grein fyrir sögu leikskólans og þeirri hugmyndafræði sem hann væri reistur á. Hann sagði að miklu skipti að vel tækist til á þessu fyrsta skólastigi. Viðhorf til leikskólans væru að breytast. Iðulega liti fólk þó svo á að hlutirnir gerðust af sjálfu sér innan veggja leikskólans en þegar komið væri inn í grunnskólann gerðu menn sér hins vegar grein fyrir kennaranum sem geranda. Að hluta til væri það aðferðafræðin sem villti mönnum sýn, í leikskólanum væri samvinna lykilatriði og í því samhengi væri "leikur gerður lærdómsríkur". Hann sagði að hugmyndafræði leikskólans ætti að sínu mati erindi inn í yngstu bekki grunnskólans. Þröstur gerði að umræðuefni hvort gera eigi fimm ára bekk skólaskyldan og þá hvar hann skyldi vistaður. Taldi hann fráleitt annað en hann yrði áfram innan vébanda leiksólans. Hann sagði að grunur léki á að áhugi sumra sveitarstjórnarmanna að færa elsta aldurshópinn í leikskóla í grunnskóla væri tilkominn vegna þess að þeir teldu sig komast ódýrar út úr því dæmi!
Þröstur Brynjarsson sagði brýnt að gera leikskólann gjaldfrían þannig að börnum yrði ekki mismunað. Hrósaði hann VG fyrir að leggja á þetta áherslu í síðustu kosningabaráttu. Sagðist hann hafa vonað að Íslendingar yrðu fyrstir Norðurlandanna til að gera leikskólann gjaldfrían. Svíar hefðu þó orðið fyrri til því ákveðið hefði verið að gefa öllum fjögurra og fimm ára börnum þar í landi rétt til að sækja leikskóla án endurgjalds í þrjá klukkutíma á degi hverjum. Þröstur kvaðst telja mjög mikilvægt að líta á öll skólastigin sem samfélagsþjónustu sem beri að veita án endurgjalds. Fólki finnist þetta liggja í augum uppi gagnvart öðrum skólastigum en leikskólanum. Þessu þyrfti að breyta. Þá þyrfti að auka skilning á því hvernig búið væri að leikskólastiginu. Þess væru dæmi að 40 börn væru í skóladeild en ættu að mati sérfróðra manna að vera eigi fleiri en 18 til 20. Þá kom Þröstur inn á atriði sem ég tel vera mjög mikilvægt að halda á loft og það er hve lengi börn eigi að sækja skólann á degi hverjum og yfir árið. Hann sagði að hann þekkti til þess að börn væru tíu klukkutíma á dag í leikskóla og væri það ófært. Þá sagði hann mikilvægt að innleiða sama fyrirkomulag í leikskóla og á öðrum skólastigum með hléi yfir sumarið þannig að allur hópurinn og kennarar hefðu samleið, að samfella væri tryggð.
Þröstur minnti á að samkvæmt upplýsingum OECD ynnu íslenskir karlar lengstan vinnudag á byggðu bóli og atvinnuþátttaka kvenna væri meiri hér en annars staðar. Þetta hefði sínar afleiðingar og samvera fjölskyldunnar væri minni fyrir vikið hér á landi en annars staðar. Þessu þyrfti að breyta og gera þyrfti foreldrum kleift að vera meira og lengur samvistum með börnum sínum. Uppeldis- og menntastefnu væru settar skorður af þeirri félagslegu umgjörð sem við hrærðumst í. Undir þetta skal tekið með Þresti Brynjarssyni, varaformanni Félags leikskólakennara, og einnig hitt sem hann vék að í máli sínu, hve miklivægt það er að búa vel að leikskólakennarastéttinni hvað varðar kjör.
Grunnskólakennarar: Menntastefnuna ber að skoða heildstætt
Í erindi sínu kom Finnborgi Sigurðsson, formaður Félags grunnskólakennara víða við.Hann sagði að það sem stæði grunnskólastiginu fyrst og fremst fyrir þrifum væri fjárskortur. Hann sagði að í lagaumgjörð skólastigsins væri bærilegur sveigjanleiki fyrir einstaka skóla til að skipuleggja sig á eigin forsendum. Skólunum væru hins vegar settar skorður af ytri aðstæðum. Til dæmis væru aðstæður aðrar í smáum skóla en stórum. Þannig væri fámennasti grunnskóli landsins með þrjá nemendur en sá fjölmennasti 900 en það er á Selfossi. Alls væru 70 skólar með færri en eitt hundrað nemendur. Skólum færi fækkandi eftir því sem sveitarfélög sameinuðust en alls væru enn 190 grunnskólar í landinu. Fyrst og fremst væru það fjárveitingarnar sem settu skólunum skorður. Sumsstaðar væru fjárveitingar ríflegri en það lágmark sem kveðið væri á um í lögum. Annars staðar héldu sveitarfélögin sig við lágmarkið og það einfaldlega dugði ekki til. "Við biðjum um skóflu og kaðal en fáum teskeið og tvinna", sagði Finnbogi.
Finnbogi kvað mikilvægt að skoða menntastefnuna heildstætt, þ.e.a.s. öll skólastigin í samfelldri keðju. Hann sagði að grunnskólakennarar vildu losna við samræmd próf en hugsanlega kæmi til álita að hafa "samræmd könnunarpróf" og þá jafnvel inntökupróf í framhaldsskóla. Í umræðum að loknu erindi Finnboga var fjallað um stöðu fatlaðra barna og einnig tvítyngdra, reynslu af móðurskólum í Reykjavík, þar sem sérstakir styrkir væru veittir til skóla til að sérhæfa sig á tilteknum sviðum, þá var rætt um hugmyndir um aðgreiningu kynjanna í skólum. Varðandi fatlaða og börn af erlendu bergi brotið var svo að skilja að mjög mismunandi væri hvernig þessu væri sinnt og væri það háð sveitarfélaginu. Vitnaði Finnbogi í stuðning við tvítyngda í Reykjavík og varðandi þá sem þyrftu á stuðningi að halda væri mikilvægt að hafa gott stuðningskerfi. Finnbogi lýsti þeirri skoðun sinni, að æskilegt gæti verið að aðgreina kynin. Því væri stundum haldið fram að strákar væru eyðilagðir á því að vera látnir "klipppa, líma og lita" og haga sér eins og prúðar stúlkur í stað þess að komast í sandkassann "og kljást við verkefni" við slíkar aðstæður. Sannast sagna kemur mér á óvart hve mjög þessi viðhorf virðast vera að sækja í sig veðrið innan skólans og skal ég játa að þetta gengur í berhögg við mínar skoðair. Fróðlegt væri að fá um þetta meiri umræðu á opinberum vettvangi.
Í kjaramálum var Finnbogi afdráttarlaus og sagði að fengi hann einhverju ráðið yrði horfið frá því launakerfi sem innleitt hefði verið á síðustu árum, en þeirri spurningu hafði verið beint til hans hvort æskilegt væri að einstaklingurinn þyrfti að sækja rétt sinn til atvinnurekandans eins og einstakloingsbundin framgangskerfi gerðu ráð fyrir.
Framhaldsskólastigið: Frá orðum til athafna
Varaformaður Kennarsambands Íslands og jafnframt formaður Félags framhaldsskólakennara, Elna Katrín Jónsdóttir, skýrði lagaramma framhaldsskólastigisns og greindi frá því hvernig hann hefði tekið breytingum í áránna rás. Hún sagði að í reynd væri til mjög vel mótuð menntastefna, hún hefði hins vegar aldrei að fullu komist í framkvæmd. Tók hún sem dæmi að lagaumgjörð og skipulag væri byggð á þeirri hugmyndafræði að samþætta beri bóknám, verknám og listnám. Þetta hafi hins vegar aldrei gengið eftir og þætti sér sýnt að skilin væru jafnvel að skerpast á milli bóknáms annars vegar og annarra greina hins vegar. "Hærri veggir eru nú á milli bóknáms og starfsnáms en áður", sagði Elna Katrín og að " háir veggir milli skólastiga torveldi nám á mörkum þeirra og sveigjanleika í námi".
Hún sagði að veruleikinn væri iðulega annar en lög og reglur kvæðu á um. Þannig hefði framhaldsskólinn að forminu til staðið öllum opinn um langt skeið. Fyrir rúmum þrjátíu árum þegar hún sjálf hefði hafið framhaldsskólanám hefði aðeins fimmtungur hvers árgangs farið í framhaldsskóla. Þetta skyldu menn jafnan hafa í huga þegar mennta- og skólastefna væri til umræðu. Eitt væri að líta á lög og reglur, annað væri að hyggja að framkvæmdinni. Þá væri mikilvægt að skilgreina hlutina rétt. Hugsanlega hefðu menn beint sjónum sínum um of að vanköntum í stefnu og lögum í stað þess að horfa til framkvæmdarinnar og þá ekki síst fjárveitinga. Hennar skoðun væri sú að það sem hrjáði menntakerfið væri að menn hefðu einfaldlega ekki komist frá orðum til athafna.
Elna Katrín gagnrýndi hvernig staðið væri að fjárveitingum til framhaldsskólans á grundvelli reiknilíkana sem ekki stæðust. Þá varaði hún við fálmkenndum ákvörðunum og "kollsteypum", sem ekki byggðu á yfirvegaðri stefnumótun. Hvatti hún ráðstefnugesti til þess að kynna sér rökstuðning kennara á heimsíðu Kennarsambands Íslands, ki.is , um þau álitamál sem hæst bæri, svo sem varðandi styttingu náms til stúdentsprófs.
Formaður Félags framhaldsskólakennara sagði að ríkisstjórnin stefndi að því að stytta framhaldsskólann og jafnframt að í þeim ranni væri litið svo á að samræmd stúdentspróf væru rökrétt framhald af framhaldsskólalögum frá 1996.
Elna Katrín sagði það vera sína skoðun og ábendingu til stjórnvalda að taka heildstætt á málum í stað þess að grauta í einstökum málaflokkum án tillits til þess sem gert væri á tengdum sviðum. "Skapið framhaldsskólanum betri starfsskilyrði, treystið honum fyrir viðfangsefnum sínum, sýnið honum áhuga, verið krítísk en látið hann síðan í friði við að vinna verkin sín," sagði Elna Katrín Jónsdóttir í niðurlagsorðum sínum.
Félag prófessora: Ekki skólagjöld, meira fé í rannsóknir
Þórólfur Þórlindsson formaður Félags prófessora, ræddi almennt um stöðu háskólastigsins og vék sérstaklega að þeirri umræðu sem hæst ber nú um stundir, það er hvort leggja beri skólagjöld á nemendur á háskólastigi. Þórólfur kvaðst vera þessu mjög mótfallinn og stríddi þetta gegn grundvallarsjónarmiðum sem hann taldi mikilvægt að menn fylktu sér um. Hann benti einnig á að við framkvæmdina myndi sitthvað koma upp á sem orkaði mjög tvímælis. Ætla menn til dæmis að verðleggja allt nám eins, má ekki ætla að háskóladeildum komi til með að vegna misvel og að það ráðist af markaðsaðstæðum? Hvað með sveigjanleika í námi, þegar fólk vill sækja nám að hluta til á öðrum sviðum en þeim þar sem það stundar nám sitt að uppistöðu til.
Varðandi rannsóknir innan háskólanna bæri að hlú að grasrótarstarfi og ættu háskólamenn að njóta frelsis eftir því sem kostur væri.
Þórólfur gagnrýndi það reiknilíkan sem fjárveitingavaldið byggði fjárveitingar sínar til Háskóla Íslands á og kvað það meingallað. En hvernig á að fjármagna háskólastigið? Sífellt fleiri skólar koma fram á sjónarsviðið, þeir krefjast aðgangs að skatthirslum hins opinbera, vilja að jafnræði ríki með þeim og öðrum háskólum, einnig um rannsóknarf? Þessi spurning kom úr sal og í framhaldinu: Hvernig á að tryggja akademískt sjálfstæði, sem Þórólfur lagði áherlu á í erindi sínu að yrði varðveitt, ef jafnframt á að fjármagna rannsóknir úr sjóðum, óháð því hvar þær eru stundaðar, eins og ríkisstjórnin stefnir að. Hún hafi meira að segja fært yfirstjórn sjóðanna undir Stjórnarráðið. Mun þetta tryggja þann stöðugleika og öryggi í hinu akademíska umhverfi sem er forsenda þess að menn geti tekið ákvarðanir á eigin forsendum?
Þórólfur sagði að vandinn snerist í sínum huga fyrst og fremst um þær upphæðir, sem ætlaðar væru í rannsóknir. Hann teldi það hafa verið rangt að breyta fyrirkomulaginu og færa rannsóknarsjóði frá Rannís og undir miðstýrt pólitískt vald, það hefði einfaldlega þurft að veita meira fjármagni til rannsókna. Undir það skal tekið.
Fræðslunet Austurlands: Dýrmæt fjárfesting til langs tíma
Emil Björnsson frá Fræðsluneti Austurlands fjallaði um sí- og endurmenntun á landsbyggðinni. Emil sagði frá þeirri miklu uppbyggingu sem nú ætti sér stað á þessu sviði og greindi hann frá því að starfandi væru níu fræðslu- og símenntunarstöðvar á landsbyggðinni, sem margar rækju námsver af einu að örðu tagi. Fram kom að á meðal þeirra sem aðild ættu að netinu væru allir framhaldsskólar á Austurlandi og átta af níu háskólum í landinu.
Emil sagði að ekki léki nokkur vafi á því að uppbygging menntakerfis af þessum toga væri til þess fallið að efla landsbyggðina. Þetta væri byggðaþróun sem skilaði sér til langs tíma. Emil sagði að aðstandendum Fræðslunetsins reiknaðist til að um helmingur þeirra sem fengið hefðu þjónustu frá þessum geira menntakerfisins á Austurlandi hefðu ella þurft að flytja. Hann sagði að því miður hefðu menn einblínt um of á aðrar lausnir í byggðamálum en efling menntunar væri grundvallaratriði hvað þetta snertir og væri mikilvægt að halda því til haga.
Er að verða til netháskóli var spurt. Við erum ekki að búa til hefðbunda akademíu og of snemmt er að segja afdráttarlaust um hvert stefnir, sagði Emil Björnsson, en bætti því síðan við að öllu máli skipti að leyfa þeim sjálfum að vaxa innan frá: "Setjið ekki á okkur bönd."
Ég er ekki í nokkrum vafa um að þarna erum við að verða vitni af mikilli gerjun og nýsköpun og að einmitt þarna kunna að vera vaxtarsprotar sem ber að hlú að og leggja rækt við. Það skein í gegn í máli Emils að menn ættu að forðast að festa sig í lausnum sem nú væru fyrir hendi. Í stað þess ættu menn að horfa fram á veginn, skapa nýtt og tvinna saman. Þetta var alla vega minn skilningur á boðskap Emils Björnssonar.
Samantekt: Bæði form og innihald skiptir máli.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson , prófessor við Háskólann á Akureyri, kom undir lok málþingsins með "samatekt í ljósi menntunarrannsókna". Framlag Ingólfs var fróðlegt og skemmtilega krítískt. Hann sagði menn mjög upptekna af umræðu um aðgang að námi og væri það eðlilegt. "En hvað með innihaldið? Eigum við að berjast fyrir frjálsum aðgangi að menntastofnunum sem bjóða upp á ólýðræðislegt innihald? Eigum við að treysta fagfólkinu? Á að ritstýra námsefninu?" Ingólfur vísaði í dæmi ( í Bandaríkjunum) þar sem hægri sinnað fólk vildi hafa hönd í bagga með námsefni og væru menn þá komnir nærri því að vilja hafa óeðlileg áhrif á rannsóknarvinnu. Ingólfur sagði þó að eðlilegt væri að samfélagið hefði skoðun á aðferðum og innihaldi en léti engu að síður fagfólk um vinnuna.
Ingólfur gerði að umtalsefni þá spennu sem væri á milli fagmanna og stjórnmálamanna, þ.e. á milli frumkvæðis og miðstýringar.
Ingólfur varpaði fram þeirri spurningu hvort menn teldu unnt að fyrirskipa fjölbreytni. Hann kvað svo ekki vera. Hins vegar réði skipulagsformið hver tilhneigingin yrði í því efni. Tók hann dæmi, sem mér þótt frumlegt og skemmtilegt. Hann gagnrýndi þá afstöðu kennara að vilja búta árið niður þar sem allir ættu samleið, innan skólans, t.d. í frí og úr fríum. Hvers vegna ekki láta nemendur koma inn í skólann á mismunandi tímum, til dæmis hæfu sex ára börn nám í grunnskóla þann mánuð sem þau fylla sex ár? Þessi aðkoma að skólanum á mismunadi tímum sem þó er miðuð við einstaklinginn, mun að öllum líkindum stuðla að því að einstaklingurinn og hans þarfir komi til með að sitja í fyrirrúmi.Á þessa leið mælti Ingólfur Ásgeir.
Varðandi styttingu framhaldsskólans varpaði Ingólfur Ásgeir fram þeirri spurningu, hvort ekki kæmi fremur til álita að lengja grunnskólann?
Almennt varaði Ingólfiur við mikilli miðstýringu: "Trúarbraðagðakennarar vilja samræmd próf."
Boðskapur Ingólfs þótti mér vera sá, að í ýmsum efnum þyrfti samræmingu en við ættum að láta fagfólki eftir að vinna sín verk. En samfélagið ætti að vera vakandi. Undir þetta vil ég taka.
Þessi ráðstefna á vegum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fannst mér fræðandi og vekjandi. Þátttakendur urðu held ég allir margs vísari og umræðan á ráðstefnunni gerði þá án efa betur hæfa til að taka þátt í umræðu um þennan mikilvæga málaflokk. Sú umræða þarf að byggja á yfirvegun og þekkingu og að sjálfsögðu einnig gagnrýnni hugsun; að menn séu tilbúnir að hugsa hlutina upp á nýtt. Innlegg Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar var til þess fallið að láta okkur sjá ýmsa hluti í nýju ljósi. Lifi gagnrýnin hugsun!