MÁLÞING TIL HEIÐURS GUNNARI KRISTJÁNSSYNI
Síðastliðinn föstudag var haldið máþing til heiðurs dr. Gunnari Kristjánssyni, fráfarandi prófasti á Reynivöllum í Kjós - sjötugum - undir heitinu, Trú, Menning, Samfélag. Gunnar lætur nú af störfum fyrir aldurs sakir sem hljómar náttúrlega einsog samfélagslegt ákall um að endurmeta aldursviðmiðin sem við styðjumst við þegar starfslok eru ákveðin. Maðurinn eins og unglamb og aldrei líklegri til stórvirkja!
Málþinginu stýrði Ævar Kjartansson.
Ævar sagði allt það sem segja þurfti í inngangsorðum sínum sem voru góð - mjög góð - eins og búast mátti við frá honum.
Séra Gunnar Kristjánsson hefði sómt sér vel á biskupsstóli eða kennarastóli í háskóla, sagði Ævar, enda væri hann „sannur fulltrú hinnar evrópsku menntamannahefðar". Ævar Kjartansson gerðist jafnframt gamansamur og sagði að eftir að hann hefði séð heimildarmynd um prófastinn á Reynivöllum væri augljóst að enn væri eitt sætið sem hann hefði sómt sér vel á og það væri traktorssæti og þá við landbúnaðarstörf.
Að Reynivöllum hefði séra Gunnar setið með reisn ásamt Önnu konu sinni. Hann hefði „tekið sinn pól í hæðina" þar sem áhugasvið hans og menntun hefði notið sín. Hann hefði tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni um hvers kyns menningar- og framfaramál, en jafnframt stundað fræðastörf og gefið út eigin verk og annað sem til upplýsingar og framfara horfði. „Síðast en ekki síst", sagði Ævar Kjartansson, hefði prófasturinn á Reynivöllum „veitt valdsmönnum íslenskrar þjóðkirkju nauðsynlegt aðhald. Það má segja að Gunnar Kristjánsson hafi allan sinn starfsferil verið einörð en málefnaleg stjórnarandstaða innan íslensku kirkjunnar." Hann hefði verið „sérstök stofnun" í menningarlífinu undanfarna áratugi. „Við skulum vona að gagnrýni hans sljóvgist ekki þótt hann láti af störfum" klykkti Ævar út með að segja og bætti því við að full þörf væri „á öflugu öldungaráði, ekki bara í kirkjunni heldur íslensku samfélagi öllu. Oft var þörf en nú er nauðsyn."
Að ávarpi sínu loknu kynnti Ævar til sögunnar fjóra fyrirlesara sem fluttu fróðleg og afar góð erindi sem ekki verða rakin hér:
- Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson: Frjálslynda guðfræðin sem fulltrúi lútherskrar guðfræði
- Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir: "Mikilvægasta hlutverk prestsins" - prédikunarguðfræði Gunnars Kristjánssonar
- Dr. Hjalti Hugason: Gunnar og kirkjupólitíkin við aldahvörf
- Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir: Guð - maður - náttúra - í frjálslyndri og póst-húmanískri guðfræði.
Að loknum erindunum hófst almenn umræða og tóku þar allnokkrir til máls, þar á meðal séra Gunnþór Ingason og séra Geir Waage. Sjálfur skaut ég inn nokkrum orðum um framlag Gunnars Kristjánssonar til friðarumræðunnar, einkum á fyrri hluta níunda áratugarins þegar kalt stríð var háð í heiminum og vopnakapphlaupið í algleymingi. Þá hefði Gunnar Kristjánsson sýnt sjálfstæði og hugrekki. Nefndi ég einnig í þessu samhengi þáverandi biskup Íslands, Pétur Sigurgeirsson, og vék jafnframt orði að óvægnum póltískum leiðaraskrifum frá þessum tíma.
Að loknum þessum umræðum sté heiðursgesturinn í pontu og flutti þakkarorð, ekki mörg en innihaldsrík. Vísaði hann m.a. til framgöngu Frans, núverandi páfa, og bar saman róttæka hugsun hans við nálgun Lúthers þegar hann gerðist forgöngumaður umbyltinga innan kirkjunnar fyrir fimm hundruð árum. Séra Gunnar sagði það jafnan hafa gerst þegar kirkjan glataði sjálfstrausti sínu gerðist hún dogmatísk og legði áherslu á form og ritúal en gleymdi ætlunarverki sínu, sem væri „boðun fagnaðarerindisins". Í eðli sínu væri hlutverk kirkjunnar róttækt, sagði séra Gunnar, og skyldu kirkjunnar þjónar alla tíð hafa það hugfast. Það fór vel á því að prófasturinn á Reynivöllum kveddi með því að lofsama óttaleysið og róttæknina en hvort tveggja hefur einkennt störf hans og breytni alla tíð.
Að lokinni almennri umræðu flutti biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir, lokaorð og færði heiðursgestinum þakkir fyrir vel unnin störf.