MAMMA ER BEST, SNJÓR OG SÓL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 09/10.12.23.
Grein ásamt tilnefningu.
“Það var ljóðastund í dag, afi”, sagði barnabarn mitt dag einn og fór með ljóð fyrir afa. “Og svo vorum við líka að læra að ríma” og nú fékk afi kennslustund. Og hvað gerið þið meira í skólanum, spurði afi. “Þetta heitir leikskóli afi”. Og afinn hugsaði að helst þyrftu allir skólar að vera leikskólar. Og hvað finnst þér skemmtilegast í leikskólanum? “Mér finnst gaman þegar við erum að tala um orð. Í dag áttum við að hugsa um þrjú falleg orð.” Og hvað sagðir þú, spurði afi. “Ég sagði, mamma er best, svo sagði ég snjór og svo sól.” Þetta er bjart og fallegt sagði afi og hugsaði sitt.
Þetta er glefsa úr rökstuðningi mínum þegar ég fyrr á árinu tilnefndi leikskólann Hagaborg í Reykjavík til íslensku menntaverðlaunanna fyrir afbragðs kennslu og uppbyggjandi starf. Ekki varð tillaga mín hlutskörpust enda komu eflaust margar góðar tillögur fram sem síðan þurfti að velja úr. Ekkert nema gott er um það að segja og óska ég þeim sem hlaut verðlaunin til hamingju. Þykja mér þessi menningarverðlaun vera verðug og örvandi. Þau minna á að ef vilji er fyrir hendi og vel er á haldið er hægt að kenna ungun börnum svo margt. Góður leikskóli og grunnskóli geta komið börnum vel á veg í þroskaferlinu, nestað þau með fróðleik og góðum orðaforða.
Kem ég þá að efni þessa pistils, orðunum, skilningi á þeim, hvernig þau geta rímað saman, skapað blæbrigði og þannig dýpkað tjáningu okkar. Stundum finnst mér að sumum þeirra sem hafa beinlínis menntað sig til þess að gerast varðstöðumenn íslenskrar tungu sé mest umhugað um að afsaka og réttlæta málfátækt, málvillur séu ekki til, enda hljóti það að teljast vera rétt fyrir hvern og einn sem hann sjálfur segir. Hver ætti að vera þess umkominn að finna að málfari fólks?
Auðvelt er að láta sannfærast af slíku tali á þeirri forsendu að enginn eigi að ráða yfir öðrum. Þar að auki taki tungumál stöðugum breytingum og ef staðið sé um of gegn slíkum breytingum, hætti tungan að þróast, sem varla geti verið eftirsóknarvert. Þannig hafi íslenskan, svo við höldum okkur við hana, að mörgu leyti breyst til góðs í tímans rás. Ekki þurfi annað en að lesa texta frá þeim tíma sem danskan var á góðri leið með að afbaka málið að því er okkur flestum finnst nú. Allt er þetta rétt.
En þá er það spurningin um forræðishyggju annars vegar og uppbyggilega fræðslu hins vegar. Ég held að maður geti verið fylgjandi því tvennu í senn, að vilja ekki láta skipa sér fyrir og skamma sig annars vegar og hins vegar að fá leiðbeiningu og uppörvun um gott málfar. Á Íslandi hefur það verið eins konar íþrótt að vanda mál sitt og aðlaga heiti á nýrri tækni íslenskri málhefð. Þannig hafa orðið til tölva og tækifæri og upphaflega átti Slysavarnafélagið að heita Björgunarfélag Íslands. Nei, við eigum að reyna með fyrirbyggjandi aðgerðum að koma í veg fyrir að bjarga þurfi fólki, sagði Guðmundur Björnsson, landlæknir sem átti hugmyndina að því heiti sem varð ofan á.
Öflugasti nýsköpunarmaður tungunnar var án efa listakskáldið góða Jónas Hallgrímsson. Hann bjó til orðin spendýr, skjaldbaka, mörgæs, sporbaugur, aðdráttarafl … svo að nokkur þeirra séu upp talin.
Þannig hafi íslenskan þróast og lagað sig að breyttum veruleika. Fram til þessa hefur þetta gerst með þvi að beita leiðsögn og andagift. Það hefur aldrei verið til góðs að láta reka á reiðanum. Það þarf stundum að hafa fyrir hlutunum. En sú aðferð sem án efa skilar mestum árangri er leikurinn að orðum að hætti Hagaborgar, að finna orð og hugtök sem eru rökrétt og gagnsæ og skila hugsun okkar best.
Íslensk tunga er stórkostlega rík og getur verið skemmtilegri að glíma við en allir tölvuleikir til samans. Það eru orð að sönnu svo vitnað sé í heiti bókar Jóns G. Friðjónssonar sem hefur að geyma um 2500 íslenska málshætti með skýringum, stórskemmtileg bók að blaða í. Þarna er góður efniviður í umræðu kennara um tungumálið, fjársjóður orða og hugsunar.
Nú hyggst Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra gera átak íslenskunni til varnar og sóknar. Það er vel. Um að gera að taka undir með ráðherranum. Svo mega atvinnurekendur gjarnan hvetja erlenda starfsmenn, ekki síst á veitingastöðum, að feta sig áfram í íslenskunni. Þetta ætti að vera sáraeinfalt: Góðan dag, hvað má bjóða þér, hér er reikningurinn, takk fyrir komuna, eygðu góðan dag. Því síðasta má sleppa nema með ufsiloni sem Bjarki Karlsson, málfræðingur og skáld, setti í orðið og gerbreytti þar með merkingunni – bjargaði okkur með snilldarbragði.
Og fyrr en varir eygir hinn erlendi maður bjartari daga. Smám saman verða fleiri orð á hans valdi og við förum öll að ríma saman. Skjaldbakan, mörgæsin og sporbaugurinn fá að lokum aðdráttarafl. Svo kemur snjórinn og sólin og allt verður bjart.
Hér að neðan birti ég svo textann sem ég sendi inn þegar ég tilnefndi Hagaborg til íslensku menningarverðlaunanna fyrr á þessu ári:
LEIKSKÓLINN HAGABORG TILNEFNDUR TIL ÍSLENSKU MENNTAVERÐLAUNANNA VEGNA FRAMÚRSKARANDI SKÓLASTARFS OG MENNTAUMBÓTA
Það skiptir máli að börnum líði vel. Það eitt ætti að nægja til að minna á hve mikla rækt þarf að leggja við leikskólann því það er hann sem tekur við börnunum þegar þau fyrst, ung og viðkvæm, fara úr foreldrafaðmi út í hinn stóra heim. Í nýrri nálægð þurfa þau að finna fyrir hlýju og öryggi.
Eftir því sem ég eldist og fylgist með fleiri kynslóðum vaxa úr grasi, verða að unglingum og síðan fullorðnu fólki, tel ég mig skilja betur hve frumbernskuárin eru mótandi – hvort sem er til góðs eða ills. Hvernig til tekst í uppeldis- og mótunarstarfi innan veggja leikskólans getur hreinlega skipt sköpum fyrir hvern og einn.
Ég hef alllengi fylgst með starfi í leikskólum, fyrst í gegnum áhugasama móður mína, síðan sem faðir og um skeið formaður BSRB. Þar var ég í nánu samstarfi við leikskólakennara og kynntist metnaði þeirra til að gera leikskólann að þeirri uppeldis- og menningarstofnun sem best gæti orðið. Ég hika ekki við að nota hástemmd orð um ásetning þeirra og eldmóð.
Þann orðaforða endurvakti ég þegar ég skrifaði lítinn pistil, Leikskólinn og ljóðin, í helgarblað Morgunblaðsins í desember 2015. Hann fjallaði um starfið í Hagaborg í Reykjavík þar sem barnabarn mitt var þá nemandi. Þá rann það upp fyrir mér hve margt lítil fimm ára stúlka lærði þar sem ég hélt að kæmi miklu síðar í þroska- og uppeldisferlinu.
Mest hreif mig hve mikið hún hafði lært um skáldskap og ljóð eins og sjá má á fyrrnefndri grein sem ég set hér að neðan sem eins konar fylgiskjal.
Svo gerðist það í vetur að annað barnabarn fór í Hagaborg. Rifjaðist þá upp fyrri reynsla. “Það var ljóðastund í dag, afi”, sagði barnabarnið dag einn og fór með ljóð fyrir afa. “Og svo vorum við líka að læra að ríma” og aftur fékk afi kennslustund. Og hvað gerið þið meira í skólanum, spurði afi. “Þetta heitir leikskóli afi”. Og afinn hugsaði að helst þyrftu allir skólar að vera leikskólar. Og hvað finnst þér skemmtilegast í leikskólanum? “Mér finnst gaman þegar við erum að tala um orð. Í dag áttum við að hugsa um þrjú falleg orð.” Og hvað sagðir þú, spurði afi? “Ég sagði, mamma er best, svo sagði ég snjór og svo sól.” Þetta er bjart og fallegt sagði afi og hugsaði sitt.
Og svo mikið hugsaði afinn um þetta að hann ákvað að tilnefna Hagaborg til verðlauna. Þar væri unnið svo merkilegt og mikilvægt starf að Hagaborg og hlutaðeigandi starfsmenn væru vel að viðurkenningu komnir.
Það skal tekið fram að áður en ljóst varð í mínum huga að réttmæt málefnaleg rök væru fyrir því að tilnefna Hagaborg og starfsmenn þar til menningarverðlaunanna ræddi ég við foreldra barna í Hagaborg til að fræðast um starfið þar eins og það blasti við þeim. Ummælin voru jákvæð og á einn veg: Skipulag væri gott, börnin glímdu við skemmtileg og þroskandi verkefni, hugað væri að hverju og einu barni og síðast en ekki síst þá liði börnunum þar vel – nokkuð sem ég tel að forgangsraða eigi umfram allt annað.
En einkunnagjöfin var með öðrum orðum eða öllu heldur í einu orði: Framúrskarandi!
Leyfi ég mér hér með að koma tilnefningu á framfæri.
Ögmundur Jónasson, kt.170748-4099
Eftirfarandi er fyrrnefndur pistill:
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 12/13.12.15.
LEIKSKÓLINN OG LJÓÐIN
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.
Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.
Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!
Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.
Ég heyrði litla stúlku, fimm ára gamla, syngja þetta ljóð Jónasar Hallgrímssonar fyrir ömmu sína án þess að reka nokkurn tíma í vörðurnar. Ég heyrði líka samtal þeirra að söngnum loknum. "Finnst þér þetta ekki fallegt amma? Þetta er eftir Jónas Hallgrímsson. Hann fótbrotnaði í Kaupmannahöfn þegar hann datt í stiga og þetta er kveðja heim til Íslands."
Ég spurði ömmuna hvort hún vissi hver hefði kennt barninu ljóðið og nestað það með þessum fróðleik. "Hún lærði þetta í leikskólanum, hún lærði þetta í Hagaborg."
Það er ekkert sjálfgefið að leikskólinn búi börnum uppeldi á þennan hátt. Aðrar aðferðir til fræðslu og afþreyingar geta verið auðveldari en sú að ganga með fimm ára börn inn í smiðju höfuðskálda Íslands.
Litla stúlkan söng ömmu sinni ljóðið á degi íslenskrar tungu. Sumir leikskólar hafa notað þennan dag, sem um árabil hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, til sérstaks menningarátaks og er það vel. Stundum munu einhverjir skólar hafa haft samráð sín í milli um verkefni og hef ég grun að svo kunni að hafa verið að þessu sinni. Ræð ég það af því að ég sá myndband, sem tekið var um þetta leyti, þar sem stúlka úr öðrum leikskóla rappaði Íslandskveðju Jónasar og gerði það vel!
Hvað sem því líður þá hefur leikskólinn Hagaborg með framgöngu sinni, að mínum dómi, skipað sér í flokk öndvegis menntastofnana og leikskólakennararnir þar minnt okkur á það með verkum sínum hve mikilvægu hlutverki þeir gegna.