MANNRÉTTINDI ÁN SKILYRÐA
Najat Vallaud-Belkacem, er sá ráðherra í ríkisstjórn Frakklands sem fer með réttindi kvenna. Hún flutti ræðu á nýafstöðnu þingi Evrópuráðsins í Strassbourg þar sem hún fjallaði sérstaklega um réttindi samkynhneigðra og trans-fólks.
Najat Vallaud-Belkacem þótti mælast vel þegar hún sagði að hvar sem landslög hindruðu trans-fólk í því að efna til funda um réttindi sín eða kennara í því að útskýra fyrir ungum samkynhneigðum karli eða konu að þau væru engu síðri en annað fólk eða þar sem lögin væru á þann veg að ef samkynhneigt fólk sýndi hvort öðru blíðuhót þar sem aðrir sæju til, þá væri öryggi þeirra í voða stefnt, "þar er stefnt til fortíðar í mannréttindamálum."
Tilefni umræðunnar eru m.a. nýsett lög í Rússlandi sem fótumtroða mannréttindi samkynhneigðra og trans-fólks.
"Leiðin til að kenna börnum okkar að virða mannréttindi er að hólfa fólk ekki niður í hópa," sagði Najat Vallaud-Belkacem ennfremur og minnti síðan á "að erfitt væri að útskýra að gangkynhneigður einstaklingur og samkynhneigður væru jafnverðugir ef á daginn kæmi að annar byggi við lakari réttarstöðu í samfélaginu en hinn."
Þetta eru orð að sönnu eins fáranlegt og okkur flestum þykir að á þessu skuli þurfa að hafa orð. En svo lengi sem þess gerist þörf skal það gert. Einu sinni þótti þrælahald sjálfsagt mál. Síðan eftir mikla baráttu, harðvítuga, og þúsund milljón orð varð viðhorfunum breytt. Nú réttlætir enginn þrælahald.
Sjá nánar: http://hub.coe.int/en/web/coe-portal/press/newsroom?p_p_id=newsroom&tabs=newsroom-allnews