Fara í efni

MARKAÐSVÆÐING Í BOÐI SAMFYLKINGARINNAR


Kristján L. Möller, samgönguráðherra Samfylkingarinnar, efnir til hátíðar næstkomandi fimmtudag. Þá býður hann til stofnfundar hlutafélags um rekstur og þjónustu á Keflavíkurflugvelli.
Þar sem ég þekki til - í röðum starfsfólksins - þykir þetta ekki vera neitt sérstakt fagnaðarefni eða tilefni hátíðar enda veit fólk sem er, að ráðist er í hlutafélagavæðinguna með tvennt í huga: Í fyrsta lagi að hafa réttindi - og þá helst lífeyrisréttindi - af starfsfólki; starfsumhverfið verður að sögn sveigjanlegra eftir að réttindin hafi verið skert. Í hlutafélagi sé til dæmis hægt að segja starfsmanni upp starfi skýringarlaust, nokkuð sem ekki sé hægt í opinberum stofnunum. Í öðru lagi sé þetta leið til að hlú að forstjóraliðinu, sem með þessu móti komist út úr opinberu launaumhverfi og fái þess í stað skömmtuð kjörin úr hendi skilningsríks meirihluta í stjórn háeffsins. Slíkri skömmtunarstefnu til pólitískt útnefndra vildarvina sé unnt að framfylgja á bak við luktar dyr hlutafélagalaganna.
Samgönguráðherra Samfylkingarinnar sendi frá sér boðsbréf í dag til að minna á hvað standi fyrir dyrum. Í boðsbréfinu kom fram að aflokinni seremóníunni - þ.e. Þegar formbreytingin hefði átt sér stað og þá væntanlega með öllu tilheyrandi breytingum, lífeyrisrétturinn rýrður, réttindin takmörkuð og forstjórarnir komnir á hálaunafæribandið verði „boðið upp á léttar veitingar."
Sjálfur verð ég fjarri góðu gamni en gjarnan hefði ég kosið að gleðjast með fulltrúa ríkisstjórnarinnar af öðru og uppbyggilegra tilefni. En því miður verður að segjast sem er að slík tilefni gefast ekki mörg.