MARKMIÐ NÚMER TVÖ OG ÁTTA
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 05/06.01.19.
Undir lok nýliðins árs fór fram í Marrakesh í Marokkó merkileg ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna um fólksflutninga – reyndar einnig fundahöld ýmissa annarra stofnana og félagasamtaka sem nýttu tækifærið til að þinga um tengd málefni með sérfæðinga og áhugafólk víðs vegar að úr heiminum þarna samankomið.
Ástæðan fyrir því að ég var á staðnum var einmitt sú að ég hafði tekið að mér að stýra fundum á vegum alþjóða verkalýðssamtaka innan almannaþjónustunnar, um málefni farandverkafólks. Þar voru á meðal annarra mættir á einum slíkum fundi fulltrúar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, rannsóknarfræðimenn svo og fulltrúar ríkisstjórna Þýskalands og Filippseyja auk að sjáfsögðu fulltrúar verkalýðsfélaga.
Hvers vegna fulltrúar Þýskalands og Filkippseyja? Það var vegna þess að ríkisstjórnir þessara landa hafa komist að samkomulagi um að reyna að koma málefnum farandeverkafólks í skipulegri farveg en verið hefur. Sérstaklega er horft til starfsfólks á heilbrigðissviði sem á undanförnum árum og áratugum hefur flust í stórum hópum frá Filippseyjum til Þýskalands sem og reyndar frá mörgum öðrum þróunarríkjum til ríkari hluta heimsins. Þetta hefur haft í för með sér ýmis vandamál. Filippseyjar hafa þannig misst mikilvægt og verðmættt starfsfólk, sem menntað hefur verið með ærnum tilkostnaði; réttar- og réttindastaða fólksins hefur iðulega verið ótrygg og skuldbindingar móttökuríkisins hafa að sama skapi verið óljósar.
Úr þessu vilja menn greiða með samkomulagi. Þetta þykir til fyrirmyndar og vill verkalýðshreyfingin styðja við þessa jákvæðu viðleitni. Sem dæmi um vandann má nefna að í Súdan eru starfandi um níutiu starfsmannaleigur sem reyna að ná til sín öllu tiltæku menntuðu heilbrigðisstarfsfólki og ráða það til starfa erlendis, einkum í olíuríkjunum við Persaflóa. Það segir sig sjálft hvaða afleiðingar þetta hefur á sjúkrahúsum í Súdan.
Fyrrnefndri ríkjaráðstefnu í Marrakesh var ætlað að staðfesta Alþjóðasáttmála um farendur (fólksflutninga) en samhliða var annar samningur í burðarliðnum, Alþjóðasáttmáli um flóttamenn.
Ferli þessara tveggja sáttmála, sem ekki eru lagalega skuldbindandi - þótt að vísu sé um það deilt - er mismunandi, sá fyrri hlaut staðfestingu á ríkjaráðstefnunni í Marrakesh og síðan endanlega á Allsherjarþingi Sþ. Sá síðari fekk umfjöllun í hlutaðeigandi nefnd Sþ og fór í kjölfarið fyrir Allsherjarþingið til samþykktar.
Þessir samningar eiga það sameiginlegt að skapa grundvöll fyrir upplýsta umræðu um stöðu flóttamanna og síðan vonandi vettvang til aðgerða. Þannig er eitt af tuttugu og þremur markmiðum sem sett eru fram í samkomulaginu um fólksflutninga, að unnið verði að því að greiða úr mjög ruglingslegri umræðu um málefnið sem oftar en ekki hefur byggt á tilfinningum en ekki staðreyndum. Þannig verða fordómar til og er ágætt að hugleiða þýðingu þess hugtaks. Sem sagt allar upplýsingar upp á borðið. Síðan komist menn að niðurstöðu, ekki öfugt.
Mér þótti tvennt standa upp úr af hálfu talsfólks fátækra ríkja á þeim fundum sem ég sótti.
Í fyrsta lagi, að yfirleitt vill fólk alls ekki flytjast frá heimahögum sínum. Það hreinlega á ekki annarra kosta völ. Þessa hlið hefur að mínu mati verið vanrækt að ræða. Þar þurfa arðræningjar og stríðsmangarar þessa heims að íhuga sína ábyrgð, ekki síst gömul og ný nýlenduveldi. Að orsökum fólksflótta er vikið í markmiði númer tvö í framangreindum alþjþóðasáttmála um farendur. Markmið númer tvö mætti ræða á næsta NATÓ-fundi.
Þegar samfélag leggur á flótta veikist enn staða þeirra sem veikir voru fyrir. Það er áhætta að vera einsömul kona á flótta. Um stöðu munaðarlausra barna þarf ekki að hafa mörg orð. En okkur ber hins vegar skylda til að hafa um þau orð mjög mörg, til dæmis spyrja hvað hafi orðið um tíu þúsund börn sem komu fylgdarlaus til Evrópu í fyrra – og árið áður og þar áður líka, og eru nú horfin?
Í markmiði númer átta í Alþjóðasáttmála Sþ um farendur, segir að alþjóðasamfélaginu beri skylda til að stórefla leit að týndu fólki. Undir þennan lið flokkast því týnd börn.
Væri kannski ráð að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og spyrja hvort fólki þætti peningum sem við látum nú renna til að fjármagna hernaðarbandalag ef til vill betur varið í aðstoð við munaðarlaus börn á flótta?