Fara í efni

MEÐ HEIÐU Á SKÍRDAG EN Á LEIÐ TIL PUERTO RICO

Heiða - pönkari
Heiða - pönkari
Páskar eru í mínum huga mikil útvarpshátið - þá sýnir Ríkisútvarpið hvað í því býr og verður gaman að fylgjast með dagskránni yfir páskana, það er að segja að því marki sem ég næ henni því á sunnudag held ég til Puerto Rico í boði alþjóðasamtaka opinberra starfsmanna, Public Services International, PSI. Þetta eru samtök með 20 milljón félagsmenn í 154 ríkjum, að mínu mati öflugustu og uppbyggilegustu/gagnrýnustu alþjóðasamtök launafólks í heiminum. Hefur svo verið um langa hríð.

Þetta eru samtökin sem kafað hafa hvað dýpst í alþjóðaviðskiptaumhverfið, sýnt Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Alþjóðabankanum og Aljóðagjaldeyrissjóðnum mest aðhald allra.

Í Puerto Rico mun ég flytja erindi og taka þátt í umræðu, m.a. um alþjóðaviðskiptasamninga, ágengni vogunarsjóða gagnvart auðlindum og sókn þeirra í að eignast þá samfélagsinnviði sem gefa eitthvað af sér. Puerto Rico minnir um margt á Ísland í aðdraganda hrunsins. Meira um það síðar.

Þessar línur eru hins vegar fyrst og fremst skrifaðar til að þakka henni Heiðu, Ragnheiði Eiríksdóttur, fyrir skemmtilegan þátt að kvöldi skírdags. Í þættinum, Skírdagskvöld með Heiðu lék hún lög sem hittu beint í hjartastað gamals blús/beat aðdáanda sjöunda og áttunda áratugar aldarinnar sem leið.

Hún lék einnig tónlist frá síðari árum og spjallaði skemmtilega og af innsæi um hana. Frá því er skemmst að segja að alltaf hitti Heiða í mark hjá mér.