Fara í efni

"MEÐALHÓFSREGLAN" VIÐ FRAMSAL AUÐLINDA ÞJÓÐARINNAR

Stjórnarfrumvarp um lagareldi er réttilega harðlega gagnrýnt utan þings og innan. Einkum hafa staðið deilur um sjókvíaeldi á laxi, sem Landsamband veiðifélaga og fleiri óttast að ógni íslenska laxastofninum. Þá er harðlega gagnrýnt að fyrirsjáanlegt er að með þessu fengju fiskeldisfyrirtæki heila firði til sjókvíaeldis ótímabundið. Í Noregi er fylgst grannt með framvindu mála því eigendur fiskeldisfyrirtækja við Íslands strendur eru að uppistöðu til norskir fjárfestar sem leita nú til Íslands eftir auðfengnari gróða en heima fyrir.
Mínar sjónir beinast sérstaklega að því að ríkisstjórnin skuli leyfa sér að afhenda auðlindir þjóðarinnar, firði landsins til afraksturs varanlega.
Hélt ég að við hefðum brennt okkur svo rækilega á kvótaráninu að hefðum vit á að sýna nú fyrirhyggju.

Stöldrum ögn við lögin um stjórn fiskveiða.

Í fyrstu grein þess lagabálks er kveðið skýrt að orði:
“Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildinni.”

Þrátt fyrir þetta afdráttarlausa orðalag ganga heimildir til að nýta nytjastofna á Íslandsmiðum kaupum og sölum eins og um séreign væri að ræða og það sem meira er, heimildirnar eru veðsettar eins og tíðkast með almennar eignir. Með öðrum orðum, þessi skýrt orðaða lagagrein hefur verið teygð og túlkuð í þágu kvótahafa og á kostnað almennings, islensku þjóðarinnar.

Forundran

Með þetta í huga horfa menn í forundran til frumvarps sem nú liggur fyrir þinginu um sjókvíaeldi. Stóðu margir í þeirri trú að, í það minnsta, þeir stjórnmálamenn, sem hafa gefið sig út fyrir að vilja auðlindir lands og sjávar í þjóðareign, gerðu allt sem unnt væri til að tryggja almannarétt og girða fyrir að nýtingarréttur þróaðist yfir í ígildi eignarréttar. Því er nú aldeilis ekki fyrir að fara. Heiti og síðan orðalag 33. greinar umrædds lagafrumvarps um lagareldi tekur af allan vafa:

“33. grein
Ótímabundin rekstrarleyfi.

Uppfylli rekstrarleyfishafi öll skilyrði laga þessara og reglna settum með stoð í þeim skal rekstrarleyfi til sjókvíaeldis vera ótímabundið. Rekstrarleyfi skulu sæta breytingum samkvæmt lögum og reglum á hverjum tíma sem og afturköllun skv. XII. kafla laga þessara”.


Þetta er allt þarna
: Framsal, leiga og veðsetning.

“39. gr. Framsal og flutningur laxafjölda milli smitvarnasvæða

Rekstrarleyfishöfum er heimilt að flytja laxafjölda á milli smitvarnasvæða enda sé staðfestingar Matvælastofnunar á flutningnum aflað fyrirfram og skal slík staðfesting gefin út eigi síðar en viku eftir að Matvælastofnun hafa borist öll gögn til þess að staðfesta megi flutning milli smitvarnasvæða. Að teknu tillit til skiptihlutfalls áhættumats erfðablöndunar getur laxafjöldi viðkomandi rekstrarleyfishafa breyst við flutning milli smitvarnasvæða. Matvælastofnun skal í staðfestingu sinni skv. 1. málsl. tilgreina breytingu á laxafjölda við flutning milli smitvarnasvæða. Rekstrarleyfishöfum er heimilt að framselja laxahlut til annarra rekstrarleyfishafa með sömu skilyrðum og breytingum og greinir í 1. mgr. Í tilkynningu til Matvælastofnar um flutning milli rekstrarleyfishafa skal greint frá kaupverði eða leiguverði laxahlutar. Rekstrarleyfishöfum skal með sama hætti heimilt að leigja laxahlut til annarra rekstrarleyfishafa, þó ekki til eldis meira en tveggja kynslóða í senn sem aldar eru óslitið af leigutaka að teknu tilliti til hvíldartíma. Að því loknu skal leigusala skylt að selja viðkomandi laxahlut eða nýta hana til eigin eldis. Hafi rekstrarleyfishafi veðsett rekstrarleyfi sitt ásamt laxahlut skal rekstrarleyfishafi afla samþykkis veðhafa áður en sótt er um framsal eða leigu laxahlutar til Matvælastofnunar. Rekstrarleyfishafi eða veðhafi geta óskað eftir því að veðsetningar rekstrarleyfis sé getið í skrá skv. 1. mgr. Rétt skráning veðsetningar er á ábyrgð veðsala og veðhafa en ekki Matvælastofnunar.”

Viðbrögð ráðherra við gagnrýni í engu samræmi við lagafrumvarpið

Sjávarútvegs- og matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, vísar allri gagnrýni á bug, m.a. um úthlutun leyfa, að búið hafi verið að úthluta öllum leyfum, segir hún, þegar hennar flokksmenn hafi komið í ráðueytið.
Þetta held ég að hljóti nú sem komið er að vera aukaatriði að því leyti að málið er stærra en svo að það snúist um flokksábyrgð þótt vissulega beri að horfa til þess sem stjónmálaflokkar lofa og svíkja eftir atvikum. En úthlutun hefur engu að síður átt sér stað í tíð núverandi ríkisstjórnar og hlýtur hún öll að bera ábyrgð á henni.
Og í þessu samhengi hlýtur að þurfa að nefna að þetta virðist ekki heldur alls kostar rétt hjá Bjarkey, að allt sé þegar klappað og klárt varðandi úthlutun leyfa. Í ákvæði IV til bráðabirgða í frumvarpi hennar segir: “Um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi, sem borist hafa Matvælastofnun fyrir 1. júlí 2023 og sem ekki hafa verið endanlega afgreiddar fyrir gildistöku laga þessara, skal fara samkvæmt eldri lögum.”

Ljóst er hins vegar að þegar leyfin verða samþykkt munu þau taka til þessara nýju leyfishafa og einnig þeirra sem starfað hafa samkvæmt eldri lögum þar sem kveðið er á um leyfi til 16 ára. Í bráðabirgðaákvæði VI við frumvarpið segir að lögin skuli vera afturvirk : ”Öll rekstrarleyfi skv. lögum nr. 71/2008 um fiskeldi sem eru í gildi við gildistöku laga þessara skulu breytast í ótímabundin leyfi við gildistöku laganna…”

Á mannamáli heitir þetta varanlegt framsal, nokkuð sem flokkur matvælaráðherra hefur alla tíð sagst vera andvígur þótt gjörðirnar fyrr og nú hafi verið á annan veg.

Af og frá segir Bjarkey

Þetta er af og frá svarar ráðherra, aldeilis ekki varanlegt framsal, innkalla megi rekstrarleyfi “hvenær sem er”. Í viðtali á vísir.is segir ráðherrann orðrétt: „Ég lít ekki svo á að í rauninni sé um varanlega nýtingu auðlindarinnar að ræða. Heldur sé þetta leyfi sem hægt er í rauninnni að grípa inn í hvenær sem er.“

Þegar að er gáð er vissulega hægt að afturkalla rekstraleyfi en aðeins þegar rekstrraraðilar hafa beinlínis gerst brotlegir við lögin eða nýta sér ekki heimildir sínar, annað hvort beint eða þá óbeint með því að leigja þær ekki frá sér.

Þannig segir m.a. í 40. grein um innköllun og útboð laxahlutar:

Sé laxahlutur ekki nýttur samfellt í tvö ár, í heild eða hluta, annaðhvort með eigin notum rétthafa eða útleigu, skal innkalla samsvarandi laxahlut

Og í 65. grein segir:

“Matvælastofnun getur afturkallað rekstrarleyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra. Einnig er heimilt að afturkalla leyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn skilyrðum rekstrarleyfis …”

Hvernig á að skilja meðalhóf – eða á það ekkert að skiljast?

Kemur þá að meðalhófinu margfræa sem óþægilega oft er gripið til þegar verja á vondan málstað eða sveipa ranglæti óljósri lagalegri dulúð sem kerfið eitt fái skilið.

Þegar ráðherra er spurður hvers vegna leyfisveitingr séu ótímabundnar og hvers vegna þeir sem hafi leyfi til 16 ára skuli fá ótímabundna framlengingu.

„Það er talið standast betur stjórnarskrárbundin réttindi um meðlhóf. Að mér er tjáð þá væri hæpnara að beita jafn ströngum viðurlögum og frumvarpið er í rauninni að leggja til ef ofan á tímabundið leyfi, sem telst í sjálfu sér vera íþyngjandi."

Sama eigi við um auðlindagjald það skal ekki lagt á enda sé það “íþyngjandi” fyrir fyrirtæki í örum vexti og “rétt að gefa þeim svigrúm til þess”.

Með öðrum orðum, hvers kyns takmörkun á leyfisveitingum í árum talið, eða gjaldtaka er íþyngjandi, eins konar viðurlög, að mati ráðherra. En ef meðalhófsregla á að tryggja að allir sitji við sama borð, þeir sem hafa rétt til 16 ára og hinir sem fá ótkamrakaðan rétt, kom það þá aldrei til tals að snúa þessu við, að allir fengju 16 ára leyfi? Eða var það talið of íþyngjandi viðurlög?

Er öll pólitík horfin úr pólitíkinni? Spyr sá sem ekki veit.

Viðtal við matvælaráðherra, https://www.visir.is/g/20242561753d/eig-endur-sjokviaeldis-thurfa-ekki-ad-greida-aud-linda-gjald

Ummæli af þessu tagi vekja litla hrifningu hjá Landvernd og náttúrverndarsamtökum sem eru efins um að sjókvíaeldi af þeirri stærðargráðu, sem ríkisstjórnin sér fyrir sér, sé æskileg fyrir okkur sem búum við villtan laxastofn að ógleymdum gjöfulustu fiskimiðum heims. Í þessu sambandi er horft til Norðmanna sem nú tala um mengun af völdum sjókvíaeldis sem alvarlegt – og varanlegt til næstu framtíðar.
(Sjá ummæli framkvæmdastjóra Landverndar, https://nyr.ruv.is/frettir/innlent/2024-04-25-thetta-frumvarp-ma-ekki-verda-ad-logum-411218
og snarpa grein Gunnlaugs Stefánssonar https://www.visir.is/g/20242560887d/norskur-skammtimagrodi )
Svo er hér slóð á skrif VG þingmanns með sérnám í fiskifræði og vatnavistfræði, Bjarna Jónssonar. Hans orð hafa greinilega ekki náð eyrum þeirra sem stóðu að stefnumótuninni, https://www.visir.is/g/20232464539d?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR1b3X14qm-GmTkl4jWFuFA9ALLpuHAU2RvEE-huwyeZitlrYVcMxoJC2Tw_aem_AZmXbvkFKqWm2wM6-PSyKjGwiFYTsSSZGQbmaKUbiKvhSxeSJGHtBETE_hsfIwE4wzZeegGVAXItOx2TFmdfL9Gi  

Nóg komið

Nú leggur ráðherra Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fram frumvrp þar sem fram kemur vilji til að skapa þessum iðnaði aðstæður til að hann geti vaxið sem örast og sem allra mest.

Það sem að uppúr stendur í mínum huga er að hér er enn eitt dapurlegt dæmið um eftirgjöf Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs við peninga- og gróðaöflin, ekki bara innlent heldur alþjóðlegt auðvald, því þangað mun afraksturinn renna.
Ég spyr, er ekki nóg komið - og það fyrir löngu síðan?

Myndin er tekin af vef Landverndar.

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.