MEGUM VIÐ EKKI EIGA ÞETTA HÚS – HVERS VEGNA NÝJAN MILLILIÐ?
Viðskiptablað Morgunblaðsins birtir okkur samviskusamlega í vikunni tilkynningu frá Viðskiptaráði þar sem segir að “að íslenska ríkið sé ... í samkeppni við fasteignafélög um eignarhald og rekstur fasteigna”. Í fréttatilkynningunni segir enn fremur, samkvæmt frásögn Morgunblaðsins “að sýnt hafi verið fram á að reglulegt viðhald fasteigna sé mikilvægt til að tryggja hagkvæman rekstur þeirra. Reglulegt viðhald virðist hins vegar ekki hafa forgang í fasteignarekstri ríkisins. Því sé kannski eðlilegt að menn spyrji hvort ekki sé tími til kominn fyrir ríkið að losa um fasteignir í sinni eigu. Viðskiptaráð segir að ef ríkið myndi selja flestar fasteignir sínar og taka þær síðan á leigu eftir þörfum, væri sennilega um stærstu einkavæðingu íslenska ríkisins að ræða til þessa.”
Fasteignir ríkisins nema 50 milljörðum samkvæmt fasteignamati, að sögn Viðskiptaráðs, þegar undanskildar eru fasteignir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis.
Á undanförnum árum hafa stofnanir ríkisins verið sviptar húsnæði sínu og fengnar einkaaðilum í hendur. Gagnstætt því sem haldið er fram af Viðskiptaráði hefur þetta ekki reynst hagstæður bisniss fyrir ríkið. Eða hvers vegna skyldu menn halda að einkaaðilar leggi slíkt ofurkapp á að komast yfir þessar eignir? Ég held að allir geti tekið undir með Viðskiptaráði að “reglulegt viðhald fasteigna sé mikilvægt til að tryggja hagkvæman rekstur þeirra.” Og einnig að viðhaldi hafi ekki alltaf verið sinnt sem skyldi. Þegar hins vegar spurt er í framhaldinu hvort ekki sé af þessum sökum “tími til kominn fyrir ríkið að losa um fasteignir í sinni eigu”, skilja leiðir með Viðskiptaráði. Skyldi Viðskiptaráðið halda að viðhaldspeningurinn komi af himnum ofan? Það gerir hann ekkert frekar en þeir fjármunir sem nýir eigendur Þjóðleikhússins, skólanna og allra þjónustustofnananna ætla sér í hagnað eftir að þeir komast yfir þessar eiginir. Auðvitað verður það skattborgarinn sem kemur til með að blæða.
Er það ekki ágætt fyrirkomulag að ríkið eigi sínar fasteiginr og feli síðan verktakafyrirtækjum að annast ýmis viðhaldsverk eins og tíðkast hefur? Rétt er að láta hugmyndir Viðskiptaráðs um nýjan millilið lönd og leið.