MEIRA ÁL OG HEILBRIGÐA OKURVEXTI !
Í opnugrein í Morgunblaðinu í dag breiða þeir úr sér þingmennirnir Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki. Þeir telja sig kunna leiðir til að lækna efnahagsmein þjóðarinnar.
Þeir, sem aðrir, hafa af því áhyggjur að staða fjármálakerfisins kunni að vera slæm. Í Morgunblaðinu í gær vék Geir H. Haarde, forsætisráðherra einnig að dvínandi gengi íslensku bankanna erlendis. Þar sagði hann að sumir töluðu um að „viðskiptamódel bankanna" fæli í sér ábyrgðarleysi. Geir kvaðst ekki vilja taka sér það orð í munn. „En menn hafa verið djarfir." Og um þessa dirfsku segir forsætisráðherra ennfremur: „Ljóst er að staða bankanna, hvað varðar öflun nýs lánsfjár á erlendum mörkuðum, er núna mjög þröng, eins og allra annarra. En kunnáttumenn telja að það kunni að rætast úr því ástandi á næstu mánuðum. Ef ekki er staðan náttúrlega mjög alvarleg."
Úrræðaleysi Geirs
Hvað skyldi vera til ráða að mati forsætisráðherra þjóðarinnar? Ráðin sem hann hefur á hendi eru gamalkunn og lúin:
Í fyrsta lagi vill Sjálfstæðisflokkurinn meiri stóriðju. Í Morgunblaðsviðtalinu segist Geir telja að „það væri mjög heppilegt fyrir þjóðarbúskapinn, eins og horfurnar eru núna, að stórframkvæmdir á borð við Helguvík færu af stað og sama má segja um fyrirhugaðar stórframkvæmdir á Bakka við Húsavík sem að öllum líkindum yrðu tveimur árum síðar. Ekki sé því talað um að allt fari í gang samtímis. Vitað sé af fleiri hugsanlegum orkukaupendum, svo sem Alcan í Straumsvík, netþjónabúi á Keflavíkurflugvelli og fyrirtækjum sem vilji byggja upp starfsemi í Þorlákshöfn.."
Í öðru lagi er það Íbúðalánasjóður sem Íhaldið ætlar að fóðra bankakerfið á.: „Það er ómögulegt að Íbúðalánasjóður sé endalaust bitbein og deiluefni í stjórnmálum eða milli ríkisvaldsins og atvinnulífsins." Deila á milli hverra? Því svarar Geir ekki. Við vitum hins vegar að deilan stendur annars vegar milli bankanna og Sjálfstæðismanna sem ganga erinda þeirra og hins vegar allra annarra! Deilan er heimatilbúin Geir! Ef Sjálfstæðisflokkurinn ákveður að hætta að ganga erinda einkafjármagnsins og grafa undan Íbúðalánasjóði þá er engin deila lengur. Forsætisráðherra getur ekki neitað því í viðtalinu að bankarnir hafi staðið sig illa á húsnæðismarkaði. Formaður Sjálfstæðisflokksins orðar það svo að bankarnir hafi komið „fullgeyst inn í íbúðalánamarkaðinn" en það sé ekki rétt að líta á bankakerfið „sem einhvern sérstakan óvin íbúðareigenda eða húsbyggjenda."
Það er nú það. Hygg ég að margir sem hafa fengið að kenna á okri og aðgangshörku bankanna séu ekki allskostar sammála forsætisráðherra sínum.
Hvers vegna úthýsa lausnum sem hafa reynst vel?
En það er nákvæmlega á þessum stað sem þeir Bjarni og Illugi taka slaginn. Í Morgunblaðsgrein sinni í dag segja þeir að engin haldbær rök séu fyrir því að ríkið verði jafnvirkur þátttakandi á íbúðalánamarkaði og verið hefur: „Líta ber á nýja framtíðarsýn fyrir íbúðalánamarkaðinn sem mikilvægan þátt í því að skapa fjármálastarfsemi á Íslandi heilbrigða umgjörð og rekstrarskilyrði til framtíðar," segir í greininni.
Já, það er nefnilega það. Sjálfstæðisflokkurinn vill ganga að Íbúðalánasjóði dauðum (nema til að sinna félagslegum verkefnum sem ekki borga sig!!!). Með því að þröngva Íbúðalánasjóði til að draga saman seglin verði sköpuð „heilbrigð umgjörð" fyrir íbúðalánakaupendur! Ætlar Sjálstæðisflokkurinn aldrei að læra af reynslunni? Eða vill hann það ekki? Metur hann það sem svo að hagsmunagæsla fyrir fjármagnsöflin sé mikilvægari en hagsmunagæsla fyrir almenning?
Hugleiðum þá stöðu sem nú er uppi. Viðfangsefnið er slæm staða bankanna sem hafa farið illa að ráði sínu í fjárfestingabraski. Sem betur fer hefur enn tekist að afstýra meiri háttar þrengingum því íbúðakaupendur hafa átt sér bakhjarl í Íbúðalánasjóði. Nú er hins vegar lausn Íhaldsins á vanda bankanna að afhenda þeim íbúðakaupendur sem nauðuga viðskiptavini til að braska með og rétta þannig stöðu sína! Tvær flugur yrðu þannig slegnar í einu höggi að mati Sjálfstæðisflokksins: Bankarnir myndu dafna og íbúðakaupendur myndu greiða þeim heilbrigða okurvexti.
Gaman væri að fá nýtt viðtal við Geir H. Haarde og síðan meiri skrif frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þar sem þeir reyni að skýra fyrir okkur sem erum í tregari kantinum hvers vegna eigi að eyðileggja fyrirkomulag sem hefur reynst vel.