MERKRA TÍMAMÓTA MINNST
Fyrir réttum hundrað árum, 18. júní árið 1915, var íslenskum konum tryggt kjörgengi til Alþingis svo og kosningaréttur í þingkosningum. Áður var hann kominn til sögunnar í bæjarstjórnum. Að fullu var kosningaréttur kvenna þó ekki tryggður til jafns við karla fyrr en árið 1920.
Á þessum sömu tímamótum hlaut fátækasti hluti þjóðarinnar einnig kosningarétt en með þeim skilmálum þó, að viðkomandi væri ekki í skuld við sveitarfélag sitt!
Fátæktin bitnaði á báðum kynjum en konur einar voru látnar gjalda kynferðis síns. Sú tilhugsun að konur skuli ekki hafa búið við áþekkan rétt og karlar hvað varðar þessi grundvallamannréttindi krefst þess beinlínis að staldrað sé við. Einmitt það hefur verið gert í dag og er það vel.
Kosningaréttur kvenna kom ekki átakalaust. Það kostaði mikla baráttu að fá kosningalöggjöfinni breytt. Kvenfrelsisalda sem gekk yfir mörg lönd hafði náð til Íslands. Íslenskar konur nutu þó ekki aðeins góðs af þessu umróti heldur voru þær einnig virkar sjálfar í baráttunni.
Í dag var efnt til sérstaks hátíðarfundar á Alþingi til að minnast þessara tímamóta. Forseti þingsins opnaði sögulega sýningu sem minnir okkur meðal annars á að þúsundum undirskrifta hafði verið safnað undir kröfuna um kosningarétt kvenna til Alþingis á árunum áður en rétturinn varð að veruleika. Það segir sína sögu um baráttuviljann að safna þetta mörgum undirskriftum í fámenninu fyrir eitt hundrað árum. Fjöldi undirskriftanna er til marks um mikla baráttu og vakningu.
Á Alþingi í dag var samþykkt þingsályktunartillaga um sérstakt framlag til jafnréttismála á komandi árum. Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum gegn einu atkvæði Sigríðar Andresen en hún hafð áður gert grein fyrir því að hún vildi hafa tillöguna á annan veg. Minnti hún okkur á það með atkvæði sínu á táknrænan hátt að kosningarétturinn og frelsið er hvoru tveggja til að nýta að nýta að eigin vild.
Hér er tillagan: http://www.althingi.is/altext/144/s/1445.html