Miðja með hægri slagsíðu
01.04.2003
Heill og sæll Ögmundur. Hvernig líst þér á þá á tilhugsun að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin myndi ríkisstjórn að afloknum kosningum í vor? Það var t.d. ekki annað að heyra á Margréti Frímannsdóttur í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins en að sá kostur væri hvað mest heillandi í ranni Samfylkingarinnar á þessum tímapunkti. Einhverntímann heyrði ég að helsta markmið Samfylkingarinnar væri að koma íhaldinu frá völdum á Íslandi, en það hefur líklega verið einhver misskilningur hjá mér, eða hvað?
Jóhannes Ragnarsson
Sæll Jóhannes
Mér líst afleitlega á þá hugmynd að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndi ríkisstjórn. Við þessa tilhugsun rifjast upp reynslan af samstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks frá 1991 til 1995. Það var skelfilegur tími, enda voru stofnuð samtök sjúklinga til að verjast árásunum. Annars hefur mér heyrst á Margréti Ferímannsdóttur að hennar uppáhald væri Framsókn. Þessir flokkar, Samfylking og Framsókn, tala um sig sem miðjuflokka. Því miður heyrist mér að þeirra miðja hafa færst ansi langt til hægri og er ástæða til að óttast að á samstjórn Framsóknar og Samfylkingar verði mikil hægri slagsíða. Niðurstaðan er alltaf sú sama; ef menn vilja vinstri áherslur þá kjósa menn Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Mér finnst þetta liggja í augum uppi.
Kveðja, Ögmundur