Fara í efni

MIKE OG TONY


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 22/23.05.21.
Úr ólíkum áttum er yfirskrift þessara helgarpistla. Reyndar geng ég sennilega heldur lengra en að koma úr ólíkri átt að þessu sinni því hún er þveröfug við frásagnir flestra fjölmiðla af þeim Mike og Tony, tveimur Íslandsvinum, sem okkur hafa verið kynntir sem slíkir á undanförnum árum.

Sá fyrri er Michael Richard Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í forsetatíð Trumps, sá síðari Anthony Blinken, utanríkisráðherra í stjórn Bidens forseta.

Michael Richard varð reyndar aldrei að Mike hér á landi þótt aufúsugestur væri hann sagður vera, að vísu varla saman að jafna við eftirmanninn Tony. “Þetta var árangursríkur fundur. Tony, þakka þér fyrir að koma til Íslands og eiga við okkur gott samtal,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra Íslands á forsíðu Morgunblaðsins og því hnýtt við að gleðilegt væri að leiðtogaríki hins “frjálsa heims” vilji aukna alþjóðasamvinnu. “Alþjóðasamningar væru ákaflega mikilvægir og ekki væri hægt að taka þeim sem sjálfsögðum hlut,” var haft eftir íslenska utanríkisráðherranum.

Á þessu var hamrað í flestum fjölmiðlum og svo að skilja af fréttum að Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, þætti að með nýjum mönnum í Washington fylgdu betri og bjartari tímar.

En nú þarf að minna á að Joseph Biden, forseti Bandaríkjanna og Anthony Blinken, utanríkisráðherra, hafa reynst vera í hópi hörðustu stríðshauka við mótun bandarískrar utanríkisstefnu á undanförnum áratugum, innstu koppar þar í búri, nátengdir hergagnaiðnaðinum, sérstaklega Blinken, studdu báðir innrás í Írak og Afganistan, hina hryllilegu árás á Líbýju, hernaðaraðstoð við Ísrael þegar árásirnar á Gaza stóðu sem hæst 2014, eindregnir stuðningsmenn hernaðarofbeldis Sádi Araba í Jemen, valdaránið í Úkraínu studdu þeir og hernaðaríhlutun í Sýrlandi svo eitthvað sé nefnt.   

Donald Trump var aftur á móti einangrunarsinni, vildi draga úr framlagi til hernaðarbandalagsins NATÓ, til stofnana Sameinuðu þjóðanna að sama skapi, minnka hernaðarumsvif Bandaríkjanna erlendis og stöðva alþjóðlega viðskiptasamninga. Trump þjösnaðist í mörgu og á mörgum, svarf að Venesúela með viðskiptaþvingunum, svo dæmi sé nefnt, vildi ráða hver væri forseti þess lands og leiddi þar “hinn frjálsa heim”, þar á meðal vini sína á Íslandi.

Margt var þetta illt en ekki allt. Ég fagnaði því fyrir mitt leyti þegar Trump kvaðst vilja draga úr vægi NATÓ, að alþjóðviðskiptasamningar á forsendum alþjóðaauðvaldsins, studdir af Clinton, Obama og Biden, væru stöðvaðir og að Bandaríkin ætluðu sér ekki hlutverk heimslögreglu.
Núverandi valdhafar eru hins vegar fylgjandi slíku hlutverki, vilja bandaríska heimslögreglu, tilbúnir að færa landamæri NATÓ nær Moskvu, herða enn að Venesúela og heimta þar nýja forsetann hans Trumps, óskabarn heimskapítalismans, sendiráð Bandaríkjanna vilja þeir að verði til frambúðar í Jerúsalem í trássi við alþjóðsamþykktir, og eindregnir stuðningsmenn eru þeir áframhaldandi hernaðaruppbyggingar, meðal annars hér á landi.  

Eitthvað mun hafa verið rætt um Ísrael og Palestínu í Reykjavík. Blinken minnti á það í fjölmiðlum að Ísrael væri lýðræðisríki gyðinga. Þetta síðara er rétt, Ísrael skilgreinir sig á grundvelli gyðingdóms, kynþáttar og trúarbragða. Þar sem það mismunar þegnum sínum á þessum grundvelli, er með öðrum orðum kynþáttaríki, þarf að fara varlega í sakirnar að kenna það við lýðræði. Samkvæmt málvitund okkar flestra hangir fleira á spýtunni en kosningar til þings þegar lýðræði er skilgreint og auk þess geta landtökubyggðirnar í Palestínu, árásirnar á Gaza og ofbeldið í Jerúsalem varla talist í anda lýðræðis.

Bandaríkin hafa í þessu blóði drifna ferli síðustu vikna ítrekað beitt neitunarvaldi til varnar Ísrael og þykja ganga langt þegar þau hvetja “deiluaðila” til að leggja niður vopn. Einnig íslensk stjórnvöld beina orðum til deiluðila.

Úr gagnstæðri átt er rétt að spyrja hvenær ofbeldi verði að deilu, hverjir hafi verið deiluaðilar í Ungverjalandi 1956 og í Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar þar?
Eða er það ekki svo, að sá var ábyrgur í Ungverjalandi, Jemen, Víetnam, Suður-Afríku og nú í Ísrael sem í raun ræður för með hernaðaryfirburðum og valdi?
Skyldi þessi nálgun hafa verið rædd við Tony?