Listi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík er firnasterkur. Svandís Svavarsdóttir hefur sannað sig sem mjög öflugur stjórnmálamaður, sem þegar hefur skipað sér í fremstu röð stjórnmálamanna í landinu. Í öðru sæti listans er Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi, sem gegnt hefur lykilstöðum hjá Reykjavíkurborg, þar á meðal verið forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Ég verð að viðurkenna að mér hefur verið órótt að fylgjast með skoðanakönnunum að undanförnu, sem allt of margar hafa gefið vísbendingu um að VG fengi aðeins einn borgarfulltrúa kjörinn, og væri Árni Þór þar með dottinn út úr borgarstjórn. Þetta væri mikið slys. Árni Þór Sigurðsson er með allra reynslumestu mönnum í málefnum borgar- og landsmála og þarf ekki að hafa mörg orð um það hve slæmt það væri að hann fengi ekki kosningu. Þetta skyldu vinstri menn og umhverfissinnar hafa í huga. Reyndar þyrftum við að gera enn betur og tryggja Þorleifi Gunnlaugssyni, dúklagningameistara, einnig aðkomu að borgarstjórninni í komandi kosningum. Þorleifur er geysilega öflugur maður, það þekki ég vel. Hann er beintengdur inn í atvinnulífið, hefur tekið þátt í mannréttindabaráttu og verið potturinn og pannan í skipulagningu hvers kyns funda og herferða svo lengi sem ég man eftir. Hann er hins vegar einn af þeim mönnum sem hugsar meira um málefnið en eigin framgang og er þörf á slíku óeigingjörnu fólki í stjórnmálin. Á meðal þeirra málefna sem Þorleifur Gunnlaugsson hefur beitt sér fyrir má nefna málefni aldraðra og öryrkja og hefur hann verið mjög ötull að vekja athygli á aðgengismálum fatlaðra. Þá hefur hann látið mjög að sér kveða í baráttu gegn áfengisvánni. Sóley Tómasdóttir skipar fjórða sæti listans, öflug baráttukona fyrir kvenfrelsi og hvers kyns réttinda- og framfaramálum. Málflutningur hennar bókstaflega geislar af krafti og logandi hugsjón. Hermann Valsson íþróttakennari er síðan í fimmta sæti og Ugla Egilsdóttir menntaskólanemi skipar hið sjötta. Um þau bæði má hafa mörg og lofsamleg orð.
Frambjóðendur VG hafa skýra sýn á framtíðina og er stefnan mjög markviss. Það kemur m.a. fram í grein Svandísar Svavarsdóttur hér á síðunni þar sem hún ræðir stefnu framboðsins:
SÉRSTAÐA VG Í RVÍK Í 7 LIÐUM