Mikil lukka með Landsbankann
Kæri Ögmundur.
Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra lýsti á gamlársdag yfir mikilli ánægju með stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar eftir að skrifað hafði verið undir samninga um sölu Landsbankans. Hún gerði lítið úr því gengistapi sem orðið hefur frá 18. október. Þá flytur ríkisútvarpið þjóðinni þær ánægjulegu fréttir að þótt ríkissjóður hafi etv. tapað rúmum einum milljarði króna, sem Valgerði finnst nú ekki merkileg upphæð, þá hafi Samsonshópurinn ekkert grætt. En hvernig má það vera að fréttamenn geti slegið því föstu að þeir Bjórólfsfeðgar og Þorsteinn hafi ekkert haft úr krafsinu? Hvað sýnist þér um þetta mál allt? Liggur ekki í augum uppi hverjir hafa átt góðu gengi að fagna í þessum viðskiptum? Ég fæ ekki betur séð en ríkisstjórnin sé að kasta eignum landsmanna á glæ og standi enn og aftur frammi fyrir þjóðinni með brækurnar á hælunum.
Kveðja, Arnar
Sæll Arnar.
Svar mitt er einfalt. Ég er þér fullkomlega sammála. Ég geri nokkuð grein fyrir viðhorfum mínum til bankasölunnar í grein sem birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 4. janúar undir heitinu Enn einn stórsigur ríkisstjórnarinnar. Greinina er einnig að finna hér á heimasíðunni.
Kveðja, Ögmundur