MIKILVÆG MÓTMÆLI
Sæll Ögmundur.
Mig langar til að lýsa yfir ánægju minni um að þér tókst að ná kosningu í 1. sætið. Sennilegt má telja að viðvera þín og ræða við bandaríska sendiráðið á dögunum hafi átt sinn þátt í því. Einn kunningi minn sem er hæstaréttarlögmaður og giftur inn í íhaldsætt kvað þig minna sig á Olav Palme þá hann tók þátt í mótmælum fyrir um 40 árum gegn hernaðarhyggju Bandaríkjamanna í Víetnamstríðinu. Réttsýni er mjög mikilvæg og þessi mótmæli eru mikilvæg. Annars finnst mér að Palestínumenn eigi að kalla til matsmenn og finna út einhverja fjárhæð sem eyðilegging ísraelska hersins olli þeim, bæði manntjón og eignatjón. Svo má draga frá einhverja sanngjarna fjárhæð fyrir það sem eldflaugarnar frá hamas ollu. Þá á að stefna þessum herramönnum í Ísrael fyrir skaðabætur. Sennilega eru málaferli vænlegri til árangurs en hefnd sem virðist vera landlæg fyrir botni Miðjarðarhafsins. Þá óska eg alls góðs, við fáum sennilega aldrei betri ríkisstjórn. Alla vega virðist þjóðin ekki vilja það enda fylgisspekt við íhaldið allt of mikið. Góðar stundir.
Guðjón Jensson, Mosfellsbæ