MIKILVÆG SKILABOÐ FRÁ BSRB
Í dag birtist í Morgunblaðinu grein eftir varaformenn BSRB, þau Árna Stefán Jónsson og Elínu Björgu Jónsdóttur. Í greininni sem ber titilinn "Rétta þarf hlut almannaþjónustunnar" er varað við því að stjórnvöld sýni andvaraleysi gagnvart kjaraþróun hjá hinu opinbera. Kjarakannanir hafi sýnt að launamunur sé „að meðaltali um 20% milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og þeirra sem vinna hjá hinu opinbera.“ Þessi munur hafi bæði komið fram „þegar bornar voru saman sambærilegar starfsgreinar og einnig þegar borin voru saman sambærileg störf eða starfsheiti. Í samanburðinum milli starfa var munurinn allt upp í 39% milli sambærilegra starfa.“
Í greininni benda þau Árni Stefán og Elín Björg á að þetta þurfi ekki að koma neinum á óvart því í ýmsum atvinnugreinum hafi verið mikil þensla „með tilheyrandi eftirspurn eftir vinnuafli.“ Afleiðingarnar hafi meðal annars verið þær að fólk sem ella hefði farið til starfa innan almannaþjónustunnar leiti nú „á gjöfulli mið“
Afleiðingarnar innan almannaþjónustunnar segi þegar til sín, m.a. „í vaxandi erfiðleikum fjölda stofnana við að manna störf.“
Í komandi viku er stefnt að því að afgreiða fjárlög ríkisins fyrir komandi ár. Í fjárlögum er kveðið á um fjárframlög til velferðarstofnana samfélagsins á komandi ári. Þeim er nú mjög þröngur stakkur sniðinn eins og fram hefur komið í fréttum. Í komandi viku er stefnt að því að afgreiða fjárlög ríkisins fyrir næsta ár. Í fjárlögum er kveðið á um fjárframlög til velferðarstofnana samfélagsins en þeim er nú mjög þröngur stakkur sniðinn eins og fram hefur komið í fréttum. Ríkisstjórninni væri nú í tengslum við afgreiðslu fjárlaga, hollt að hugleiða varnaðarorð Árna Stefáns Jónssonar og Elínar Bjargar Jónsdóttur, sem auk þess að vera varaformenn BSRB, eru í forystu fyrir fjölmenn stéttarfélög. Þau vita sem er að fjársveltar stofnanir munu eiga í erfiðleikum með að bjóða upp á eftirsóknarverð kjör og þar af leiðandi í vanda með að fá fólk til starfa.
Eftirfarandi er umrædd Morgunblaðsgrein:
Rétta þarf hlut almannaþjónustunnar
AÐ undanförnu hafa verið gerðar umfangsmiklar kjarakannanir á vegum heildarsamtaka launafólks og einstakra stéttarfélaga sem hafa leitt það ótvírætt í ljós að almannaþjónustan er að dragast aftur úr einkageiranum hvað launakjör áhrærir. Enda þótt þetta sé ekki einhlítt og til séu svið bæði innan almannaþjónustunnar og á einkamarkaði þar sem þróunin hefur ekki verið á þennan veg þá er þetta engu að síður hin almenna regla. Í könnun sem framkvæmd var á vegum SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu kom til dæmis í ljós að launamunur var að meðaltali um 20% milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og þeirra sem vinna hjá hinu opinbera. Þessi munur kom bæði fram þegar bornar voru saman sambærilegar starfsgreinar og einnig þegar borin voru saman sambærileg störf eða starfsheiti. Í samanburðinum milli starfa var munurinn allt upp í 39% milli sambærilegra starfa.
Í rauninni þarf þetta ekki að koma neinum á óvart því slík hefur þenslan verið í ýmsum atvinnugreinum með tilheyrandi eftirspurn eftir vinnuafli. Afleiðingarnar hafa meðal annars verið þær að fólk sem ella hefði farið til starfa innan almannaþjónustunnar leitar nú á gjöfulli mið. Ekki hvað síst á það við um ungt fólk sem er að festa kaup á húsnæði með lánum sem nú rjúka upp úr öllu valdi með ofurþungum vaxtaklyfjum. Eðlilegt er að þetta fólk sæki í þau störf sem vel gefa af sér.
Aðalfundur BSRB ályktar
Afleiðingarnar innan almannaþjónustunnar segja þegar til sín, m.a. í vaxandi erfiðleikum fjölda stofnana við að manna störf. Í allt sumar hafa borist fréttir af mönnunarvanda á velferðarstofnunum. Um þetta var sérstaklega fjallað á nýafstöðnum aðalfundi BSRB. Í ályktun fundarins sagði um þetta efni: „Sums staðar er manneklan slík að horfir beinlínis til landauðnar. Á sjúkrahúsum og dvalarheimilum fyrir aldraða, á stofnunum fyrir fatlaða, innan löggæslunnar og víðar í grunnþjónustu samfélagsins verður sífellt erfiðara að ráða fólk til starfa á þeim kjörum og við þau skilyrði sem starfsfólki eru búin. Manneklan veldur síðan enn meira álagi á starfsfólkið og vinda erfiðleikarnir þannig upp á sig.“
Með puttann á púlsinum
Nú er það ekkert nýtt að fólk kvarti undan allt of lágum launum sem greidd eru víða innan velferðarþjónustunnar. Það er hins vegar mikilvægt að viðsemjendur stéttarfélaga innan almannaþjónustunnar búi sig undir komandi kjarasamninga með það í huga að verði ekki gerð veruleg bragarbót á kjörum starfsfólks eru alvarlegar blikur á lofti. Á aðalfundi BSRB kemur saman fólk sem hefur fingurinn á púlsi velferðarkerfisins. Umræðan á fundinum var öll á einn veg og ályktun sem aðalfundurinn sendi frá sér endurspeglar þann þunga sem var í fundarmönnum.
Eigi lakara en best gerist
Í niðurlagi ályktunarinnar segir: „Samfélagið þarf að horfast í augu við þá staðreynd að ef lengur verður látið reka á reiðanum stefnir í óefni, ef ekki neyðarástand. Í ljósi þessa krefst BSRB ... að kjör innan almannaþjónustunnar verði stórbætt og starfsfólki þar eigi búin lakari kjör en þau sem best gerast á vinnumarkaði.“
Árni Stefán er formaður SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu. Elín Björg er formaður Félags opinberra starfsmanna á Suðurlandi. Bæði eru jafnframt varaformenn BSRB.